Skip to main content

Pistlar

Jónsbók – Elsta Jónsbókin AM 134 4to

Skinnhandritið AM 134 4to er elsta handrit Jónsbókar sem varðveist hefur, eða frá lokum 13. aldar. Hugsanlega var handritið skrifað á bilinu 1281–1294 eða skömmu eftir lögtöku Jónsbókar árið 1281.

Árin 1262–1264 gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd. Magnús Hákonarson, sem tók við konungdómi í Noregi 1263, beitti sér fyrir endurskoðun og samræmingu löggjafar í ríki sínu og fékk viðurnefnið lagabætir í kjölfarið. Íslendingar fengu lögbókina Járnsíðu 1273 sem byggði að nokkru leyti á Grágás en að meginhluta á norskum lögum. Íslendingar voru ósáttir við hana og því var samin ný lögbók sem lögtekin var á Alþingi 1281. Brátt var tekið að nefna hana Jónsbók eftir Jóni Einarssyni lögmanni, öðrum fulltrúa konungs sem flutti hana til landsins úr Noregi. Jónsbók ásamt þremur réttarbótum konungs frá árunum 1294–1314, sem snertu ákveðnar greinar hennar, gilti nánast óbreytt sem grundvöllur löggjafar á Íslandi allt fram á sautjándu öld og að mörgu leyti fram á átjándu og nítjándu öld og enn þann dag í dag vísar Hæstiréttur Íslands við og við til Jónsbókar í dómum sínum. Varðveitt handrit af Jónsbók eru á þriðja hundrað.

Blað 36r í AM 134 4to. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. AM 134 4to er nú 41 blað sem eru að meðaltali um 180–220 mm á hæð og 115–157 mm að breidd en engin tvö blöð eru alveg nákvæmlega eins. Leturflöturinn er í einum dálki og fjöldi lína á hverri blaðsíðu er yfirleitt 24 eða 25. Það vantar töluvert mikið í handritið og er textinn nú í tólf brotum. Réttarbætur konunganna Eiríks prestahatara og Hákonar háleggjar Magnússona frá árunum 1294–1314 vantar í handritið og þótt ekki sé útilokað að þær, eða einhver þeirra, hafi verið í handritinu í upphafi verður að teljast líklegra að þær hafi vantað frá upphafi vegna þess að það eru engin spor eftir þær. Þar af leiðir að það er líklegra en hitt að handritið hafi verið skrifað fyrir 1294.

Á spássíu á bl. 19v er teikning af karli í herklæðum, en á tveimur stöðum eru varðveittir skreyttir upphafsstafir bálka (1r, 36r), en þeir eru sex línur á hæð. Rauðir og bláir upphafsstafir eru í upphafi hvers kafla, oftast tvær eða þrjár línur á hæð, en margir þeirra með hala niður eftir spássíu eða skott upp eftir spássíu. Rauðar kaflafyrirsagnir eru með hendi skrifarans.

Árni Magnússon virðist hafa fengið handritið frá nokkrum stöðum. Því fylgja tveir seðlar með hendi hans og á öðrum þeirra stendur: „Þetta blað núm. 14 fékk ég 1703 af Jóni nokkrum Einarssyni, heimilismanni í Garði á Suðurnesjum. Þar með fylgdi blað úr Grágás í sama slags formi sem þetta, og með líkri skrift, þó eigi hinni sömu, sem mér virðist. Höfðu þessi 2 blöð verið utan um kver, og vissi maðurinn ekkert til, hvaðan þau til sín komin væri. Jón þessi var annars kynjaður norðan úr landi“. Á hinum seðlinum stendur: „Þetta blað no. 27 er komið frá Vilhjálmi, er var á Kirkjubóli, til þess er ég fékk það af 1706“. Af spássíugrein á bl. 16v má ráða að handritið hafi verið eign Jóns Hallgrímssonar á Eyrarlandi í Eyjafirði um miðja 17. öld. Ekki er hins vegar ljóst hvernig Árni eignaðist meginhluta handritsins. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 11. júlí 1981.

Handritið er nú til sýnis á sýningunni Sjónarhornum í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík ásamt mörgum öðrum Jónsbókarhandritum.

Birt þann 1. nóvember 2016
Síðast breytt 24. október 2023