Skip to main content

Pistlar

Kluftar

Birtist upphaflega í september 2009.

Jörðin Kluftar var lengi efsta byggt ból í Hrunamannahreppi austanverðum en fór í eyði árið 1954. Bæjarins er fyrst getið að því er virðist í manntalinu 1703 og heitir þar Kluttar. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1709 er nafnið „Kluttar (rectius Kluftar)“. Á lausa örk sem liggur í Jarðabókinni hefur Árni Magnússon skrifað upp bæjanöfn í Eystri- og Ytrihrepp og þar er í svigum aftan við nafnið „á Kluckum“. Svo er að sjá sem bæjarnafnið vefjist nokkuð fyrir Árna og hann sé að leiðrétta það og hugsanlega að leita skýringa, nema um afbökun sé að ræða. Í lýsingu Hruna- og Tungufellssókna árið 1840 er bærinn nefndur Kluftar og í Jarðatali 1847 og Nýrri jarðabók 1861 er Kluptar og nafnið er einnig þannig ritað í skrá um verk Jarðabótafélagsins í Hrunamannahreppi 1845−54. Bærinn heitir enn Kluptar í Bæjatali 1915 og Kluftar í Örnefnabók Hrunamannahrepps sem Ingimundur Einarsson frá Laugum teiknaði um 1940. Um þetta leyti er nafnmyndin Kluftir farin að sjást, t.d. í Fasteignabók árin 1932 og 1942 og lifa báðar nafnmyndir í máli manna. Kluftar má engu að síður teljast gróin málvenja. Til var að menn sem fæddir voru kringum aldamótin 1900 segðu  Kluttar („Kluttarnir“) og þeirri mynd bregður raunar fyrir enn í máli Hrunamanna.

Ekki er gott að fullyrða hvað veldur því að farið er að segja Kluftir (kvk.) í stað Kluftar/Kluttar (kk.) en vera má að þar sé á ferðinni „leiðrétting“. Orðið kluftir (kvk.ft.) er víxlmynd við klyftir (kvk.ft.) sem merkir ‘klof; gin, geilar’ eða ‘gil’. Skyld orð í grannmálum eru fær. kluft ‘gjá’, nno. kluftklyft ‘gjá, klof’, sæ. kluft(a), d. kløft ‘gjá’. Fyrir norðvestan bæinn á Kluftum er einmitt alldjúpt og sérkennilegt gljúfur, Bæjargljúfrið eða Kluftagljúfrið, og nokkuð ljóst að þar eru „kluftirnar/klyftirnar“ sem bærinn fær nafnið af. Fyrirsögn á örnefnaskrá eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti er Kluftir (Kliftún – Klukkur). Kliftún kannast menn við sem skýringartilraun og Klukkur er mjög líklega sprottið af hugmynd Árna Magnússonar um nafnið.  Rétt er að halda því til haga í þessu sambandi að Klukkufoss heitir allstór foss í Litlu-Laxá sem rennur með Kluftalandi, líka nefndur Innri-Kluftafoss.

Huppa frá Kluftum. Málverk eftir Halldór Pétursson.

 

Margir bæir á Íslandi hafa orðið kunnir vegna þess að þaðan hafa komið einstaklingar sem getið hafa sér gott orð fyrir atgervi eða afrek einhvers konar. Á Kluftum var kostakýrin Huppa, ættmóðir Kluftakynsins sem dreifst hefur um allt land og haft víðtæk áhrif á nautgriparækt Íslendinga. Huppa var fædd 1926, lifði langa ævi og eignaðist mörg afkvæmi sem reyndust vel og sum með ágætum. Hróður hennar barst víða um land. Haustið 1940 sendu Mývetningar vörubíl alla leið til Reykjavíkur til að sækja nautkálf undan Huppu og þar með hafði Kluftakynið numið land á Norðurlandi. Huppa var brandhuppótt að lit og því þrílit, en fyrr á tíð þótti best mjólk úr þrílitum kúm, rauðum, svörtum og hvítum, því hún var talin margra meina bót. 

Eins og vænta má er slíkur afburðagripur ekki af jarðneskum ættum einum saman, og kunna Hrunamenn enn í dag að rekja ætt Huppu til huldunauts og þarf ekki lengra aftur en til síðustu áratuga 19. aldar. Myndin, sem hér fylgir, er af málverki Halldórs Péturssonar listmálara. Það var málað í tilefni hálfrar aldar afmælis Huppu að tilstuðlan Búnaðarfélags Íslands. Í baksýn er bærinn á Kluftum og umhverfi hans þar sem sjá má Bæjargljúfrið. Að lokum má geta þess að til heiðurs þessari afburðakú hefur skýrsluhaldskerfi í nautgriparækt fyrir kúabændur verið nefnt Huppa.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703 eftir Hálfdan Jónsson. Svavar Sigmundsson sá um útgáfuna. Reykjavík 1979.
Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. II. Kaupmannahöfn 1918−1921.
Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
Bæjatal á Íslandi 1915. Reykjavík 1915.
Emil Ásgeirsson: Búnaðarfélag Hrunamanna 100 ára. Búnaðarfélag Hrunamanna 1984.
Fasteignabók. Löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 41, 8. sept. 1931. Reykjavík 1932.
Fasteignabók. Löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938. Reykjavík 1942.
Helgi Haraldsson: Huppa á Kluftum. Skýrt og skorinort. Helgi á Hrafnkelsstöðum ræðir umbúðalaust um menn og málefni. Reykjavík 1974.
Huppa. Forrit fyrir kúabændur [http://www.bondi.is/Pages/648]
Huppa á Kluftum. Hálfrar aldar afmæli [http://www.bukolla.is/action.lasso?-database­multipax.fp3&-layout­bukollagreinar&-response­greinar.html&-recordID=33412&-search]
Ingimundur Einarsson: Örnefnabók Hrunamannahrepps. 1945. Ópr.
Íslensk orðabók. Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda útgáfa hf. Reykjavík 2007.
Jarðatal á Íslandi. Gefið út af J. Johnsens. Kmh. 1847.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili: Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík 1934.
Manntal á Íslandi árið 1703. Reykjavík 1924−1947.
Ný jarðabók fyrir Ísland. Kaupmannahöfn 1861.
Örnefnaskrár í safni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Munnleg heimild:
Kristinn Kristmundsson frá Kaldbak í Hrunamannahreppi.