Skip to main content

Knarrar-örnefni

Birtist upphaflega í júní 2005.

Allnokkur örnefni á landinu eru kennd við knörr, sem var (borðhátt) kaupskip til forna. A.m.k. 6 bæir hafa borið nafn með Knarrar- að fyrra lið. Þeir eru þessir:

1) Knarrarberg: Bær í Öngulsstaðahreppi, Eyf. Einnig hús í Flatey á Skjálfanda, S-Þing.

2) Knarrareyri: Eyðibýli undir Hágöngum á Flateyjardal, S-Þing.

3) Knarrarhöfn: Bær í Hvammshreppi, Dal. Skrifaður Knararhöfn í sóknarlýsingu 1839 (Dalasýsla 2003:20, 77).

4) Knarrarnes: a) Bær á Vatnsleysuströnd, Gull. b) Bær í Álftaneshreppi, Mýr. Hans er getið í Landnámabók (Íslensk fornrit I:70).

5) Knarrartunga: Bær í Breiðuvík, Snæf. Bærinn Knörr í Breiðuvík er nefndur í Íslensku fornbréfasafni 1448 (DI VI:50 o. víðar). Nöfnin eru skrifuð með Hn- í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1707 (V:142-143).

Knararholt er landamerkjaörnefni í landi Skaftholts í Gnúpverjahreppi, Árn., og er sagt í örnefnaskrá að það sé líkt skipi á hvolfi. Hnarrarholtssund er í landi Vestra-Geldingaholts í sömu sveit.

Auk þess er örnefnið Knarrarós, áður Knarrarsund austan við Stokkseyri í Árn. sem getið er í Landnámabók (Íslensk fornrit I:376).

Knarrarhóll er annað nafn á Kögunarhól í Ölfusi í Árn. skv. sögnum en er ekki lifandi örnefni, en skv. sóknarlýsingu 1840 er sagt að hann hafi að fornu verið kallaður Knörhóll, „og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt“ (Árnessýsla 1979:196).

Knörr er allhátt holt í landi Hjörseyjar á Mýrum, grasi gróið og er hundaþúfa hvor á sínum enda þess. Við Knörr eru Knarrargrafir.

Knarrarhóll er í landi Kolviðarness í Eyjahreppi, Hnapp.

Knararbrjótur er nefnt straumsund í sóknarlýsingu Hvammssóknar 1839 (Dalasýsla 2003:77). Knararhöfði er einnig í Hvammssveit (Dalasýsla 2003:76).

Knarrarboði var skammt undan Knarrarbrekku í Höfðasókn í Skag. (Sýslu- og sóknalýsingar Skagafjarðarsýslu 1954:145).

Knarrarnes er í landi Miðvíkur í Laufássókn í Eyjafirði, sem segir um í sóknalýsingu 1839, að sé „merkilegt fyrir það að þar við er besta þrautalending í sjógangi og jafnan ágætt skýli fyrir stormi af öllum áttum.“ (Þingeyjarsýslur 1994:33).

Knar(r)arbrekkutangi er á Tjörnesi í S-Þing., í mörkum við N-Þingeyjarsýslu (Landið þitt Ísland III 1985:150).

Knörr er einnig til ósamsett sem nafn á hamrahöfða í Útmannasveit í N-Múl. en Knarará er á landamerkjum Hrafnabjarga í Hlíðarhreppi í N-Múl.

Knarrarsund er á Búlandsnesi í S-Múl.

Orðið knörr í fornu máli hefur orðið knör í nútímamáli í ýmsum dæmum, t.d. í örnefninu Knörhóll hér að framan og í Knarhólar sem eru syðst á Fagranesi á Langanesi í N-Þing. Þeir eru í handriti einnig nefndir Hnarhólar (Þingeyjarsýslur 1994:301). Í sýslu- og sóknalýsingum Snæfellsness frá því um miðja 19. öld er Knör og samsetningar með því nafni skrifað með einu r-i (Snæfellsnes III 1970:94–95) en langt -r- hefur síðar orðið ofan á í nöfnunum. Orðið knör hefur í vissum tilvikum orðið hnör. Dæmi er um það frá 15. öld (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:356). Það hefur gerst í fleiri orðum að kn hefur orðið hn, t.d. knöttur > hnöttur, og sér þess stað í örnefninu Hnarasund (nú Hnarra- eða Knarrarsund) og Hnarhúsaá (eða Knarhúsará) (nú Knarrarósá) í Hamarsfirði í S-Múl. (Sýslu- og sóknalýsingar Múlasýslna 2000:539, 548). Í örnefnaskrám er ýmist ritað Hnarhúsará eða Hnarrhúsará en Ingimar Sveinsson frá Hálsi ber nafnið fram með -rr- og telur það hafa verið framburð manna í Hamarsfirði (Hjörleifur Guttormsson, Árbók Ferðafélags Íslands 2002:548).

Hnarrarsker er við Barðsnes í Norðfirði, S-Múl.

Orðtakið Enginn er verri en Ormur á Knerri, sem þekkt er frá fyrri hluta 19. aldar (Jón Espólín, Árbækur V:26), er líka þekkt í myndinni Enginn er verri en Ormur á Hnerri (Guðmundur Jónsson, Safn af íslenzkum orðskviðum, Kmh. 1830:91). Lýsingarorðið hnarreistur 'sem ber höfuðið hátt, beinn og hnakkakerrtur, hár og brattur' er líklega dregið af orðinu *knarr-reistr 'stafnhár og stefnisbrattur', eins og knörr (ÁBlM 1989:345).

Örnefnin hér að framan eru annaðhvort þannig til komin að staðurinn hefur líkst knerri með einhverjum hætti, t.d. Knörr í Hjörsey, eða að knerrir hafi siglt þar um, sbr. Knarrarós eða -sund, eða lagst þar að, sbr. Knarrarhöfn. Þess má einnig geta að mannsnafnið Knörr kemur fyrir í Landnámabók, Knörr Höfða-Þórðarson (Íslensk fornrit I:240, 246–47). Það tengist ekki neinu Knarrar-örnefni, skv. heimildum. Annar Knörr Þórðarson kemur við sögu á Vestfjörðum á s.hl. 15. aldar (DI VI:132, 511, 514). Það er því ekki rétt sem sagt er í Nöfnum Íslendinga 1991:365, að ekki verði séð að það hafi verið notað frá landnámi fram á áttunda áratug 20. aldar. Hugsanlegt er því að forliður einhverra þeirra örnefna sem að framan greinir sé mannsnafnið Knörr.

Viðurnefnið knarrarbringa var til um tvær konur að fornu, Þorbjörgu, dóttur Gils skeiðarnefs landnámsmanns, og Ásnýju sem nefnd er í Sturlungu.

Í norskum örnefnum er orðið knörr í myndinni Knarr- í örnefnum, t.d. Knarrberg á Vestfold, Knarrevik á Hörðalandi og Knarrlagsundet í Suður-Þrændalögum, þar sem knerrir hafa legið. Skýringar á norsku örnefnunum með Knarr- sem forlið eru hinar sömu og hér hefur verið drepið á, nema við Knarrberg á að hafa verið kjöldráttarstaður, sem ekki er vitað um að verið hafi hérlendis (Norsk stadnamnleksikon 1976:186).

Birt þann 20.06.2018