Skip to main content

Pistlar

Krubbur

Birtist upphaflega í desember 2016.

Í Landnámu segir frá komu Garðars Svavarssonar, sem Garðarshólmi er kenndur við, til Íslands:

hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús. Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.

Heimavanir Húsvíkingar eru ekki í vafa um hvað olli því að bátinn sleit frá Garðari þarna í fyrndinni, það var svonefnt Krubbsveður. En hvaða krubb er þetta?

Í orðabók er krubb (hk.) sagt vera sama og krabb, nefnilega hrafnaspark eða ljót skrift. Orðið krubba (kvk.) (sbr. málið.is) getur hins vegar haft ýmsa merkingu, t.d. 1) subbuleg kona, 2) krukka eða 3) stía, bás eða jata. Það er líklega einkum síðasta merkingin sem er grundvöllur örnefna og oftar en ekki haft um eitthvað lítið og þröngt. Af þeim toga er lýsingarorðið krubbulegur, sem merkir bókstaflega 'þröngur', og sagnorðið krubba sem merkir 'að hólfa niður'. Orðið krubbur (kk.) (sbr. málið.is) kemur einnig fyrir, einkum í örnefnum og virðist þá einkum merkja 'laut' eða 'aðþrengt svæði'. Þessi orð finnast víða í skyldum málum, t.d. í dönsku krybbe og ensku crib, og eiga sér rót í fornu orði sem merkti að 'beygja' eða 'flétta'. Íslenska orðið kerfi er af sama stofni.

Orðhlutinn krubb- kemur alloft fyrir í íslenskum örnefnum. Krubbugil er á Svínanesi í Múlasveit, Krubba er hvolf í hlíðina ofan við Sælingsdal í Hvammssveit, Austurkrubba og Vesturkrubba eru engjastykki í Ausu í Andakíl, Krubba er hylur í Vatnsdalsá, nálægt Forsæludal, Krubbuhorn er fjallstindur hjá Leiru í Grunnavík, kenndur við hryggi og holt þar í grennd sem nefnast KrubburKrubbulækur er í Sveinatungu í Mýrasýslu, kenndur við djúpa laut. Krubbnasel er á Dalsheiði fyrir austan, upp af Þistilfirði.

Kunnasta krubbs-örnefnið er þó vafalítið svonefndur Krubbur ofan við Húsavík við Skjálfanda. Lengst af virðist nafnið hafa verið haft um svæðið austur af Botnsvatni. Í örnefnaskrá segir: „Krubbur heitir hæðin við eystri enda Botnsvatns, og í daglegu tali undirlendið allt frá Háubökkum fyrir vatnsbotn og austur að Riðpolli, sem er í norðausturhorni vatnsins.“ Afleidd örnefni á svæðinu eru t.d. KrubbsbrekkaKrubbsáKrubbsflötur og mörg fleiri. Svæðinu hefur einhvern tíma samkvæmt málvenju verið skipt í Vestur-Krubb og Austur-Krubb. Af þessu svæði hefur fjallið þar fyrir ofan verið nefnt Krubbsfjall. Í daglegu tali gengur fjallið hin síðari ár undir nafninu Krubbur eða Krubburinn. Við hann eru hin frægu Krubbsveður kennd. Snæbjörn Ragnarsson lýsir því þannig í færslu á netinu:

Krubburinn spilar stóra rullu er kemur að veðurfari á Húsavík og í ákveðinni vindátt steypist vindurinn niður hlíðar þess, yfir vatnið og skellur svo á bæinn með ógnarafli. Þá skyldi maður halda sig inni því önnur eins veður hef ég ekki upplifað. Það köllum við Krubbsveður, nú eða bara Krubb. Enda þótt Krubbsveðrið sé þannig bundið við einn stað á jörðinni og eina vindátt hefur það fengið víðari merkingu, að minnsta kosti notum við nímenningarnir hópsins sem kallar sig Ljótu hálfvitana þetta hugtak hvar sem vind eða veður hreyfir. Ég hef því upplifað Krubb á Gróttu og Kúbu, í Norrænu og í Bangkok.

Út af þessari færslu Snæbjarnar á Facebook spannst ógnarlangur og skemmtilegur þráður um orðin krubba og krubbur og örnefni þeim tengd. Þar eru nefnd mörg önnur krubbs-örnefni en hér koma fram.

Árið 1945 byggðu Völsungar skíðaskála í Krubb en hann fauk og brotnaði í spón í Krubbsveðri rétt þegar hann var orðinn fokheldur. Sjá meðfylgjandi mynd sem tekin er úr Víkurblaðinu, fylgiblaði Dags 1. desember 1999.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023