Skip to main content

Pistlar

Læknisstaðir

Birtist upphaflega í ágúst 2010.

Utarlega á norðanverðu Langanesi er bærinn Læknisstaðir, sem nú er löngu fallinn úr byggð eins og flestir bæir þar um slóðir. Sumir nefna hann Læknesstaði sem að líkindum er aðeins viðleitni manna til að tengja bæjarnafnið staðháttum fremur en að kenna við lækni sem engum sögum fer af. Því er rétt að skoða þær heimildir sem til eru um nafnið.

Læknisstaðir á Langanesi.

Skrá um kúgildi með jörðum Hólastaðar í Hjaltadal og um eldi á jörðum staðarins frá 1449 geymir fjölda bæjanafna, og samkvæmt þeirri skrá skal gjalda „af legnesstadom x aura“ (DI V, 39). Útgefendur fornbréfasafns skýra þetta nafn í registri sem „Leiknisstaðir, nú Læknisstaðir“ (DI V, 981). Í Sigurðarregistri, þar sem skráðar eru eignir Hólastóls árið 1525, eru meðal jarða „læknisstader á langanesi“ (DI IX, 302). Árið 1554 gerðu Ólafur biskup Hjaltason á Hólum og Þórður bóndi Pétursson með sér kaup þar sem þeir skiptu á Leifsstöðum í Öxarfirði og Læknisstöðum á Langanesi. Í kaupbréfinu eru Læknisstaðir nefndir nokkrum sinnum en skrifarinn ekki alveg sjálfum sér samkvæmur í meðferð nafnsins. Bréfið hefst svo: „Kaup fyrer Leiffstodum j Axarfirde fyrer Læknesstade a Langanese 1554 ...“ og sama mynd bæjarnafnsins kemur aftur fyrir síðar í bréfinu. Þessi ritháttur segir þó næsta lítið um hina raunverulegu mynd nafnsins á þessum tíma því að eins og sést er tilhneiging til að skrifa „e“ í stað „i“ í áherslulitlum stöðum. Svo er eins og ritarinn taki sig á í síðari hluta kaupbréfsins því að þar skrifar hann „Læk[n]isstader“ og „ad Lækniss stödum“ (DI XII, 781). Til er afrit þessa bréfs og þar hefur myndin „Læknisstadir“ vinninginn, er á þremur stöðum af fjórum (DI XIII, 225–226). Í inngangi að bréfinu í Íslensku fornbréfasafni kemur fram að í afriti hafi Læknisstaðir verið nefndir „Lækningstadir“ og þá mynd notar Árni Magnússon í Jarðabók sinni athugasemdalaust (XI, 380).

Á Alþingi 1723 var sem oftar vogrekum lýst í lögréttu. Þar á meðal var þetta úr Norðursýslu: „Á Lækningsstaða reka í vetur uppborin stöng, vel 2 al. á lengd, með litlum járn-hólk neðan og 4 þuml. löngum járn-krók fram úr“ (Alþ.bækur Íslands XI, 157). Sýslumaðurinn Jón Benediktsson nefnir Lækningsstaði í sýslulýsingu 1747. Kann að vera að í þessum tveimur heimildum gæti áhrifa frá Árna Magnússyni, en réttast að fullyrða þó ekkert um það. Í lýsingu Sauðanessóknar 1840 er nafnið hins vegar Læknisstaðir, og tvær jarðabækur frá 19. öld, Jarðatal Johnsens (1847) og Ný jarðabók (1861) nefna bæinn Lækni(s)staði. Þorvaldur Thoroddsen nefnir Læknisstaði í Ferðabók (III, 335).

Finnur Jónsson segir í ritgerð sinni, Bæjanöfn á Íslandi, að Læknis- sé „líklega rjett (sbr. Legnes- DI V)“ (s. 443). Finnur ræðir nafnið ekki frekar.

Þegar flett er heimildum verður ekki séð að margt frásagnarvert hafi við borið á Læknisstöðum og þess hvergi getið að þar hafi læknir búið eða starfað. Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar hefur að vísu að geyma sögn, skráða 1897, af viðureign Jóns á Læknisstöðum við vætti nokkra sem reyndist vera hafmaður og vildi reka Jón í sjóinn. Jón hafði þó betur enda gildur tveggja manna maki að karlmennsku, en svo nærri honum gengu átökin að hann varð aldrei jafngóður (IV, 44–45).

Læknisstaði má sjá á Íslandskortum a.m.k. frá árinu 1732. Það ár hefur danski kortagerðarmaðurinn Th.H.H.  Knoff teiknað kort af Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum og þar er á norðanverðu Langanesi nafnið „Læknast[aðir]“ (eða „Lakna“-) að því er best verður lesið á kortinu eins og það birtist í Kortasögu Íslands (myndblað 20). Til hliðar við sjálft kortið er listi yfir nöfnin og þar virðist standa „Lakonastað:“. Um 1800 hófust strandmælingar við Íslandsstrendur og kortagerð í framhaldi af þeim. Árið 1821 var gefið út kort af norðurströnd landsins allt frá Skagafirði til Héraðsflóa og á því er nafnið „Læknirstadr“ (Kortasaga, myndblað 34). Á uppdrætti Íslands frá 1844 eftir Björn Gunnlaugsson stendur „Læknistaðir“ (Kortasaga, myndblað 41).

Þegar kemur fram á tuttugustu öld fer nafnmyndinni Læknesstaðir að bregða fyrir, en ekki er ljóst hvert upphaf þeirrar breytingar er. Á herforingjaráðskorti (Geodætisk Institut, bl. 101) sem mælt er 1933 og gefið út 1945 heitir bærinn Læknisstaðir, en þegar sama kort er gefið út 1977 eftir endurskoðun 1967 er búið að breyta nafni hans í Læknesstaðir. Að öllum líkindum hefur þessi nafnmynd komið upp í tilraunum manna til að skýra bæjarnafnið, en engar vísbendingar eru kunnar um lækni á Læknisstöðum þrátt fyrir heimildir um nafngreinda lækna á Íslandi frá fornu fari. Má nefna Þorvarð lækni á Síreksstöðum sem sagt er frá í Vopnfirðinga sögu, Hildigunni Starkaðardóttur lækni sem kemur við Njáls sögu, að ógleymdum Hrafni Sveinbjarnarsyni á Hrafnseyri í Arnarfirði sem af er sérstök saga. Ekki þurfti mikið til að bæta úr þessari vöntun, aðeins að breyta einum staf í bæjarnafninu, og þar með komin skýring, sótt í landslag og umhverfi eins og altítt er í bæjanöfnum á Íslandi. Sá hængur er þó á, að þessi samsetning – „læknes“ – er öldungis á skjön við önnur nöfn sem dregin eru af læk eða lækjum. Slík örnefni hefjast á Lækjar- (jafnvel Læks-) eða Lækja- eftir því hvort kennt er við einn læk eða fleiri.

Í örnefnaskrá Læknisstaða, sem rituð er samkvæmt frásögnum heimamanna á Langanesi og er að stofni til líklega frá því um miðja 20. öld, er bærinn nefndur Læknisstaðir og ekki annað. Sé svipast um eftir læk og nesi í örnefnalýsingunni má finna svonefndar Lindar í Hraunsnesi sem er smánes nokkuð austan við bæ, en ekki er látið að því liggja á nokkurn hátt að bæjarnafnið sé þangað sótt, enda varla nógu afgerandi í umhverfinu eftir lýsingu að dæma.

Það er því niðurstaða þessarar samantektar að heitið Læknesstaðir sé einungis vanmáttug skýringartilraun þegar ekki finnst svo mikið sem munnmælasaga – hvað þá annað bitastæðara – um hinn ókunna lækni á Læknisstöðum.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alþingisbækur Íslands. Acta comitiorum generalium Islandiæ 1570–1790.  I-XVII. Sögufélag gaf út. Reykjavík, 1912–1986.

Austfirðinga sögur. Íslenzk fornrit XI. Reykjavík 1950.

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. XI. Kaupmannahöfn 1943.

Brennu-Njáls saga. Íslenzk fornrit XII. Reykjavík 1954.

DI = Diplomatarium islandicum. Íslenskt fornbréfasafn I–XVI. Kmh. 1857- Rvk. 1972.

Finnur Jónsson. Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands IV. Kaupmannahöfn 1911–1915.

Friðrik G. Olgeirsson: Langnesingasaga. I. Saga byggðar á Langanesi frá landnámi til 1918. Reykjavík 1998.

Haraldur Sigurðsson: Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848. Reykjavík 1978.

Hrafns saga Sveinbjarnarsonar. Annette Hasle gaf út. Kaupmannahöfn 1967.

Íslenskar þjóðsögur og sagnir. Safnað hefir og skráð Sigfús Sigfússon. I–XI. Reykjavík 1982–1993.

Jarðatal á Íslandi. Gefið út af J. Johnsen. Kaupmannahöfn 1847.

Ný jarðabók fyrir Ísland. Kaupmannahöfn [1861].

Sýslulýsingar 1744–1749. Sögufélag gaf út. Reykjavík 1957.

Þingeyjarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1944. Reykjavík 1994.

Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók. I–IV. Kaupmannahöfn 1913–1915.

Örnefnaskrá í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.