Skip to main content

Pistlar

Mellifolíuhóll

Birtist upphaflega í nóvember 2010.

Mellifolíuhóll er sjaldgæft og sérkennilegt örnefni. Það finnst þó á að minnsta kosti tveimur stöðum á landinu, á Skarði í Haukadal í Dalasýslu og í Brekkubæ í Nesjum í A-Skaft. Í örnefnaskrá Skarðs segir: „Beint fram undan bænum fyrir ofan götuna er Mellifolíuhóll, og þar óx vallhumall eða mellifolía.“ Á Hróðnýjarstöðum í Laxárdalshreppi í Dal. er svo örnefnið Mellifolíugarðlag. Fleiri dæmi hafa ekki fundist af þessu tagi. Ekki er getið um framburð í örnefnaskrám en aðrar heimildir benda til þess að almennt hafi mellifolía verið borin fram með -ddl-, semsagt „meddlifolía“ eða [mɛtlɪfɔlia].

Viðbót: Í landi Hóls í Hvammshreppi í Dalasýslu eru til örnefnin Melluhús og Melluhúsahóll. „Þar stóðu áður ærhús tvö, samnefnd, Melluhús. Fyrr var þýfi mikið austan hólsins, en ein þúfan bar þó af hinum. Óx á henni mellifolía, Mellifolíuþúfa. Hana má ekki slá, því þá er vís dauði einhverjum stórgrip á heimilinu. Nú er þýfið horfið og aðeins þessi þúfa ein eftir.“

Eins og kemur fram í örnefnaskrá Skarðs er mellifolía annað nafn á vallhumli. Hvorugt þessara nafna kemur fyrir í fornu máli, elstu skráðu dæmi um vallhumal eru frá 17. og 18. öld (m.a. í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og í Búnaðarbálki Eggerts) en orðið er að líkindum gamalt í málinu þó það hafi ekki ratað fyrr á bók. Sambærileg nöfn virðast ekki vera til í nágrannamálum. Mellifolía er hins vegar tökuorð sem kemur fyrst fyrir í íslensku á 19. öld. Athyglisvert er að orð sem kemur svo seint inn í málið skuli hafa afrekað að komast inn í íslensk örnefni. Það bendir til þess að mellifolía hafi haft allnokkra útbreiðslu í málinu. Í orðabókum er þess getið að orðið sé staðbundið en það hefur samt skilað sér í örnefni bæði á Vesturlandi og Austurlandi. Afbrigðið mellihvolía hefur verið til staðbundið í íslensku.

Mellifolía eða vallhumall (Achillea millefolium).

Jurtin mellifolía eða vallhumall heitir Achillea Millefolium á latínu. Hún heitir Röllike á dönsku (Ryllik á norsku) og Yarrow á ensku. Fyrri hluti latneska heitisins er kenndur við Akkílles sem notaði jurtina til að græða sár hermanna sinna við Tróju. Í sumum málum er jurtin kölluð hermannajurt af þessum sökum. Síðari hluti latneska nafnsins merkir 'þúsund blöð' og vísar til mikils fjölda laufa á plöntunni.

Um vallhumal segir í Flóru Íslands (3. útg. 1948 eftir Stefán Stefánsson) að hann vaxi í þurru valllendi og stundum í sandi. Algengur um allt land nema á Norðvesturlandi. „Í sumum héruðum vex svo mikið af honum á harðlendum hólatúnum, að mikill hluti töðunnar er vallhumall. Vallhumalstaða er talin gott kúafóður (bls. 325).“ Um vallhumal, ýmis nöfn hans og eiginleika má fræðast nánar í grein á Vísindavefnum sem Sigmundur Guðbjarnason hefur skrifað.

Vallhumall kemur stöku sinnum fyrir í íslenskum örnefnum en tiltækar heimildir benda ekki til þess að hann sé neitt algengari en örnefni kennd við mellifolíu. Vallhumalsgil er til í Seldal í Norðfirði í S-Múl. Í örnefnaskrá Engidals í Siglufirði er þúfa kennd við vallhumal: „Vestan í Hjallanesi er laut ein er bannblettur hefir talist og annar ofarlega í Starlág, er hann umhverfis þúfu eina með vallhumalsgróðri miklum er nefnist Vallhumalsþúfa.“ Fleiri dæmi eru í örnefnaskrám um að vallhumall sé tengdur álagablettum. Í örnefnaskrá Litla-Botns í Hvalfirði segir: „Milli Bæjarhóls og Smiðjuhóls kemur upp vatnslind. Efst við hana er allstór grasþúfa, vaxin vallhumli og fleiri grösum. Gömlu konurnar tíndu grösin og bjuggu til úr þeim smyrsl og meðul. Þessa þúfu mátti ekki slá, og var það aldrei gert.“ Önnur slík þúfa er á Malarrifi á Snæfellsnesi en hún ber ekkert sérstakt heiti. Í Herðubreiðarlindum er örnefnið Vallhumalslág að finna.

Páll Melsteð sagnfræðingur minnist á stuttlega á plöntuna í æviminningum sínum:

Af því sem eg heyrði stundum Dr. Schevíng segja, vaknaði hjá mér umhugsun um móðurmál mitt og löngun til að vanda orðavalið. Mér er það alltaf í minni, að sumarið 1829, þegar eg var á Bessastöðum og til húsa hjá Þorgrími Thomsen, var það einn dag, að kona hans Ingibjörg, systir Gríms amtmanns Jónssonar, hafði tannverk. Hún bað mig fara ofan á Sjóbúðarflöt og tína sér dáltið af „mellifoliu“, sem átti að lina tannverkinn. Eg gerði þetta, en á leiðinni heim mæti eg Dr. Scheving. „Hvað ertu þarna með?““ segir hann. „Það er mellifolia“, segi eg. „Já, veitstu nú ekki annað nafn á þessu?“ „Jú“, segi eg, „það er kallað „vallhumall“ í Múlasýslu. „Já, eg held það sé nú ólíkt réttara“, segir Dr. Schevíng. Með það skildum við. En eg fyrirvarð mig, að hafa brúkað orðið: mellifolia. En jurtin var almennt kölluð svo hér syðra, og er svo líklega enn í dag. Þetta og annað þessu líkt varð mér til viðvörunar, og eg fór að vanda betur hugsanir mínar og orð. (Endurminningar 1912, bls. 29.)

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023