Skip to main content

Pistlar

Námar

Birtist upphaflega í mars 2006.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er eftirfarandi setningu að finna: „Námarnir eru tvennir og eru kallaðir Reykjahlíðarnámar og Fremrinámar“ (2. útg. III:147). Eins og sést af þessu er orðið námur kk. Elsta dæmið sem Orðabók Háskólans hefur um orðið í kk. er úr Fitjaannál um árið 1560 (s.hl.17. aldar?): „Í hans tíð voru seldir námarnir norður fyrst konginum“ (Annálar 1400-1800, II:70, Reykjavík 1927–1932). Jónas Hallgrímsson hefur þessi örnefni í kk., -námar nema á einum stað í ritum sínum þar sem hann hefur myndina Hlíðarnámur (flt.) í bréfi á dönsku frá 1839 (Ritverk (1989) II:24). Á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar, Uppdráttr Íslands, sem Bókmenntafélagið gaf út 1849, eru örnefnin Hlíðarnámar og Fremrinámar. Hlíðarnámar hafa staðið á kortum Landmælinga Íslands á 20. öld.

Þegar kemur fram á 19. öld verða örnefnamyndirnar meira á reiki. Þorvaldur Thoroddsen notar yfirleitt -námur (flt.) í þessum örnefnum í Ferðabók sinni (1913). Steindór Steindórsson frá Hlöðum skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands 1934 annars vegar Fremri Námar (bls. 30) en hinsvegar Reykjahlíðarnámur (flt.) og Hlíðarnámur (flt.) (bls. 38 og 39). Í örnefnaskrá Reykjahlíðar frá miðri síðustu öld eru aðeins myndirnar Hlíðar- og Fremrinámur (flt.). Þar er orðið náma (kvk.) að baki. Elsta vissa dæmið um orðið náma í kvk. í íslenskum heimildum er í latnesk-íslenskri orðabók Jóns biskups Árnasonar, Nucleus latinitatis (Kleyfsa) frá 1738 (bls. 86 og 168).

Á Suðurlandi er líka til örnefnið Námur í kk.et. Það er á Landmannaafrétti. Í sóknarlýsingu Landþinga frá 1841 eru nefndir Syðri- og Nyrðri-Námur, og stendur þetta um silungsveiði í Frostastaðavatni í fornöld: „Mætti til geta, að veiðin hafi lagzt af vegna eldbrunahrauns, sem runnið hefur úr Námnum ofan í vatnið“ (Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar, (Reykjavík 1968, bls. 169)). Þeir eru nú nefndir Norður- og Suður-Námur (kk.et.). Við Námana eru kennd Námsfjöll og Norður- og Suðurnámshraun o.fl. á Landmannafrétti.

Svo virðist sem kk.-orðið námur hafi verið einrátt í fyrstu og þá notað bæði norðan lands og sunnan og þannig fest sig í sessi í örnefnunum, en kvk.-orðið náma síðan orðið ofan á í mæltu máli. Þegar Einar H. Kvaran þýddi bókina King Solomon’s Mines eftir H. Rider Haggard 1906 notaði hann orðmyndina námar (flt.), Námar Salómons konungs en var líklega að fyrna málið með því. En svo seint sem 1917 má má sjá kk.-myndina í grein eftir Boga Th. Melsteð í Ársriti Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannnahöfn: „Einnig skal ávalt undanskilja náma, sem vera kunna í jörðu“ (bls. 100). En þegar kemur fram á öldina er óhætt að segja að kvk.-myndin náma verði ofan á í málinu.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023