Skip to main content

Pistlar

Rúnir, galdrar og þjóðlegur fróðleikur — AM 247 8vo

Á Árnastofnun eru eins og kunnugt er margar gamlar skinnbækur sem varðveita Íslendingasögur, konungasögur, biskupasögur o.s.frv. En hjá þessum þjóðargersemum standa yngri og yfirlætislausari handrit, sem þó eru jafn mikilvægar heimildir um sögu þjóðarinnar og skinnbækurnar. Langt fram á 20. öld söfnuðu fræðimenn um allt land þjóðlegum fróðleik af ýmsu tagi, ómetanlegum vitnisburði um viðleitni alþýðunnar til að auka þekkingu sína á sem flestum sviðum. Eitt af þessum handritum er AM 247 8vo, sem raunar samanstendur af átta litlum ósamstæðum kverum frá tímabilinu ca 1750−1850, spyrt saman undir sama safnmarki.

Fyrsta kverið er safn af þulum og stefnum, sennilega frá miðri 19. öld.

Næsta kver er frá því um 1800, í því eru m.a. deilurnar (rúnaljóðið) augljóslega sótt í Eddu Ólafs Brynjólfssonar.

Á kápu þriðja kversins, sem er frá því um 1800, hefur Jón Sigurðsson skrifað „frá Ólafi Briem haustið 1846“. Í því er m.a. Torkenningarletur og fleiri „rúnaletur“, mjög svipuð og í öðrum letrakverum frá þessum tíma.

Fjórða kverið er mjó ræma með mörgum letrum í tveimur dálkum ásamt texta til útskýringar. Fyrirsögnin er: „Rúnir er brúkaðar voru í fornöld og tilheyra gömlum vísindum“. Að miklu leyti eru þetta sömu letur og í kverinu frá Ólafi Briem, en það áhugaverðasta við þetta smákver er bréfið á síðustu blaðsíðunum:

Bréf Jóns Jónssonar Borgfirðings. Árið 1846 kom til Íslands boðsbréf frá Danmörk hvar með þá óskan að Íslendingar safni saman fornum ritum og fornaldar bókstafa myndum og sendu það fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn [...]; og var það æskileg upphvatning fyrir okkur Íslendinga sem höfum uppsprettu af fornum fróðleik og gömlum vísindum sem er eins og hulinn fjársjóður sem hverfur að öllu með þeim sem það hafa [...]

Rúnir frá Jóni Borgfirðingi. Og í þessu framansögðu langaði mig til að taka þátt í slíku mikilvægu efni sem þetta er það litlu sem ég gæti. Ég hef því safnað saman þeim rúnaflokkum sem hér standa. Og í þakklætis minningu fyrir indæla skemmtun á að lesa „Antiquarisk tydeskrift“ sendi ég þessi fáu blöð til hinnar heiðruðu Fornfræðanefndar í Kaupmannahöfn, í því skyni að hún beri það saman við forn rit þeirra og útskýri rúnirnar í Antiq. Tskrift næstu ár. Og þættist ég þá fá nóg laun fyrir þessi fáu blöð.

Hvítárvöllum í Borgarf. 2. maí 1852, Jón Jónsson vinnumaður.

Vinnumaðurinn er Jón Jónsson Borgfirðingur, einn mikilvirkasti fræðimaður okkar á 19. öld. Hann var fæddur 1826 og því 26 ára að aldri þegar hann skrifaði bréfið og hafði þá þegar hafið fræðastörf sín. Hann ólst upp í fátækt hjá vandalausum en var þó kennt að lesa. Seinna lærði hann af sjálfsdáðum að draga til stafs með krít og viðarkolum, greinilega með góðum árangri því rithönd hans er falleg og auðlesin.

Fimmta kverið, skrifað 1831?, heitir „Gömul vísindi“. Í kverinu eru galdraráð og stafir t.d.: „Að láta stúlku unna sér: Ríst þennan staf á mat eða brauð og gef henni óvitandi að eta.“ Í lokin stendur: „Þetta er orðrétt upp skrifað eftir hendi Jóns Guðmundssonar lærða af Vestfjörðum dateruðu anno 1640.“ Þetta kver er til í fleiri uppskriftum (Lbs 264 8vo frá því um 1850, einnig úr Borgarfirði). Þótt ekki sé útilokað að Jón lærði hafi upphaflega skrifað kverið, enda mjög bendlaður við rúnagaldra, er líklegra að honum hafi verið eignað kverið til að gera það fornlegra.

Sjötta kverið fjallar um stjörnumerkin. Það virðist vera skrifað af Jóni Borgfirðingi því neðst stendur „Hvítárvöllum 1849, 9. maí 1849 J.“

Sjöunda kverið hefst á fyrirsögninni „Að þekkja mann á augnabragði.“ Það hefur Jón ekki skrifað, en á öftustu blaðsíðu hefur hann sett smá klausu:

Fyrir því að hinir háttvirtu fornfræðamenn hafa sent til okkar Íslendinga boðskap hvar með þeir hafa óskað að við tíndum saman gömul vísindi og vernda þau sem mestu dýrgripi þá sendi ég í trausti því þessi blöð vitandi það þeir taka viljann fyrir verkið [...].

Áttunda og síðasta kverið er máð og lúið grasalækningakver frá 17. eða 18 öld.

Líklega eru öll kverin, nema það sem er eignað Ólafi Briem, frá Jóni komin. Jón Sigurðsson varð formaður Fornleifanefndarinnar 1851. Hann og Jón Borgfirðingur hittust fyrst 1853 og ári seinna skrifar Jón nafna sínum Sigurðssyni.  Þar segir hann m.a.:

Ég sé í „Annálum Fornleifafélagsins“ að það tekur þakknæmlega á móti öllu rímnasafni, þar með þulum, ristingum og rúnum, kvæðum gömlum og ýmsum menjum. Mér hefur því dottið í hug að taka þátt í söfnun þvílíkra rita og bjóða fram til safnsins þau handrit hvörs nöfn að eru rituð eða yfirlit á hinu lausa blaði er fylgir. En ég sendi ekki í þetta sinn þar ég veit ekki nema félagið hafi þau [...].

Svar Jóns Sigurðssonar er ekki til, en ári seinna skrifar Jón nafna sínum aftur og segist nú senda dálítið af rusli, kvæðum og rúnum, sem hann segist hálffyrirverða sig fyrir þar sem hann hefur ekki föng á að láta rita þessar fúnu blaðaskræður upp. Líklega hefur Jón þá fyrst sent bæði kverin sem hann hafði skrifað upp áður og hugsanlega hin líka til Kaupmannahafnar. Hann hélt áfram að senda nafna sínum í Kaupmannahöfn „rusl“ og „skrifaðar skræður“ og þeir skrifuðust á um þessi málefni allt þar til Jón Sigurðsson lést.

Jón Borgfirðingur hélt áfram að safna bókum, skrifuðum og prentuðum, þar til hann lést 1912 og hafa líklega fáir unnið þarfara verk við að bjarga lítilsvirtum og (stundum) lítilfjörlegum handritum, sem þó öll á sinn hátt eru mikilvægar heimildir um þá heimilisiðju Íslendinga að skrifa upp þjóðlegan fróðleik þótt ekki hafi verið öðrum pappír til að dreifa en fáeinum smásneplum. 

Birt þann 1. apríl 2017
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Jónsson Aðils, „Jón Borgfirðingur, 1826−1912“, Skírnir 87 (1913), s. 5−23.
Grímur M. Helgason, „„Af skrifuðum skræðum er allt gott.“ Þáttur af skiptum Jóns Sigurðssonar og Jóns Borgfirðings.“ Árbók Landsbókasafns Íslands. Nýr flokkur, 4 (1978), s. 53−65.
Þórgunnur Snædal, „Rúnalist og letrabækur.“ Árbók hins íslenska fornleifafélags 2006−7, s. 5−46.