Skip to main content

Pistlar

Sagnahandrit frá um 1500 - Góður kall var Grettir

Sagnahandrit frá um 1500

AM 152 fol. er eitt stærsta og veglegasta skinnhandritið sem varðveitt er frá miðöldum. Það er um 30 x 24 sm. að stærð og alls 201 blað (402 síður). Handritið sjálft er 200 blöð og er talið skrifað á árunum 1500–25, en aftasta blaðið er úr messubók frá um 1200. Handritið er tvídálka, bundið inn í tréspjöld og er heilt. Kaflafyrirsagnir eru rauðritaðar aftur að bl. 52 og upphafsstafir í ýmsum litum eru á sömu síðum, en þar fyrir aftan hefur lýsandinn ekki sett inn fyrirsagnir og upphafsstafi.

Ofanmáls á bl. 46v stendur með samtímahendi: ‘Þessa sögu hefur skrifað bróðir Bjarnar Þorleifssonar’. Nefndur Björn bjó á Reykhólum, en óskilgetinn hálfbróðir hans og skrifari handritsins hét Þorsteinn og bjó í Svignaskarði. Þorsteinn skrifaði reyndar ekki nema rúmlega fjórðung bókarinnar því að á bl. 52r tekur ný rithönd við sem Stefán Karlsson eignaði Jóni Þorgilssyni ráðsmanni á Hólum og presti á Melstað.

Árni Magnússon fékk AM 152 fol. frá Vigfúsi Guðbrandssyni á Helgafelli en Árni telur Helgu ömmu hans í Bræðratungu hafa fengið handritið frá föður sínum Magnúsi lögmanni Björnssyni á Munkaþverá. Aftast í handritinu er skrá yfir ætlaða sauðaþjófa í Eyjafirði frá 1545 (sbr. Íslenskt fornbréfasafn XI, nr. 350). Jón Helgason taldi líklegt að Ari Jónsson lögmaður hefði átt handritið og látið skrifa sauðaþjófatalið í auðan dálk. Handritið hefur því verið í eigu sömu ættar mjög lengi en Vigfús var sjötti maður frá Ara. Mjög fátítt er að hægt sé að rekja eigendasögu miðaldahandrits eins langt aftur og hér hefur verið gert en Ari, fyrsti maðurinn sem með nokkurri vissu er hægt að eigna handritið, hefur fæðst um svipað leyti og handritið var skrifað eða um 1510. Árni hefur fengið bókina í síðasta lagi á árinu 1704.

Í AM 152 fol. eru tvær Íslendinga sögur, fimm fornaldarsögur og fjórar riddarasögur. Bókin hefst á Grettis sögu og svo koma Hálfdanar saga Brönufóstra, Flóvents saga, Sigurðar saga þögla, Þórðar saga hreðu, Göngu-Hrólfs saga, Þorsteins saga Víkingssonar, Ectors saga, Hrólfs saga Gautrekssonar, Mágus saga jarls og Gautreks saga. Sums staðar á spássíum eru athugasemdir sem sýna að lesendur á 16. öld hafi lesið Grettis sögu af slíkri tilfinningu að þeir geta ekki orða bundist; sem dæmi má nefna: „Góður kall var Grettir“ og „Svei fóstru Þorbjarnar önguls“.

 

Eins og áður sagði tilheyrir aftasta blaðið ekki upprunalegu sagnahandritinu heldur er það brot af messubókum á latínu frá um 1200 eða 13. öld. Reyndar er hér um að ræða tvö blöð sem hafa verið saumuð saman. Annað blaðið er skorið að ofan og að utanverðu. Hitt blaðið er aðeins ræma á hvolfi sem er saumuð neðan á hitt; á henni eru nótur. Blöðin eru bæði úr tvídálka handritum en það er ekki sama hönd á þeim.

AM 152 fol. var afhent Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 4. desember 1973.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023