Skip to main content

Pistlar

Úr biskupshúfu

Bókin 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar er nýkomin út. Í henni er meðal annars þessi skemmtilegi pistill Peters Springborg um eitt þeirra handrita sem er að finna í Árnasafni í Kaupmannahöfn:

Handritið telst vera elsta og merkasta norska handritið sem geymir riddarabókmenntir.Meðan á Íslandsdvöl Árna Magnússonar stóð 1702–1712 var aðalaðsetur hans í Skálholti, og þar fann hann dag einn árið 1703 forna biskupshúfu úr kaþólskum sið. Auðvelt er að ímynda sér undrun Árna þegar hann uppgötvaði að styrktarhólkurinn undir slitnu silkifóðrinu var gerður úr gömlum handritsblöðum og honum hefur án efa verið skemmt þegar hann komst að því að þau höfðu að geyma veraldlegar frásagnir af heitum ástum ungra elskenda. Þetta voru tvö tvinn úr fallegu tvídálka skinnhandriti. Þau eru tilsniðin í sama þríhyrningsform og stærð svo það hefur verið hægt að sauma þau saman á hliðunum til að móta millifóðrið í biskupsmítrið. Máleinkenni sýna að handritið er skrifað í suðvestanverðum Noregi um 1270.

En hvernig gátu blöð úr norsku handriti endað í íslenskri biskupshúfu? Ísland heyrði fram til siðbreytingar undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi (Þrándheimi), og biskupsefni varð að fara til Niðaróss til að taka við embættistáknum sínum. Menn hafa því látið sér detta í hug að húfa þessi hafi verið saumuð í Niðarósi eftir máli, sennilega kringum árið 1500, en ekki hefur tekist að eigna hana ákveðnum biskupi. Sé blöðunum haldið upp í birtuna sjást greinileg nálarför í bekkjum og blómum, svo það liggur við að hægt væri að endurgera útsauminn. Á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn má sjá nokkurn veginn hvernig hann hefur litið út. Þar er til sýnis annað biskupsmítur úr Skálholti frá byrjun 16. aldar. Vitað er að það var selt á uppboði árið 1802 ásamt öðrum munum úr eigu biskupsstólsins sem lagður var niður árið 1797, og að það var Skúli Thorlacius jústitsráð og rektor Frúarskóla sem gaf Nefnd til varðveislu fornminja mítrið árið 1813.

Nú gætu menn ef til vill haldið, eins og algengast er um brot, að afgangurinn af handritinu væri týndur, en sú er ekki raunin um biskupshúfubrotið. Handritið sem það er úr er nú varðveitt í Uppsölum (DG 4–7 fol.), eftir viðkomu í Kaupmannahöfn (og Sórey). Danski sagnfræðingurinn Stefan Stephanius fékk það nefnilega frá Noregi um 1630, lét binda það inn og skrifaði í það efnisyfirlit á latínu. Stephanius lést árið 1650 og nokkrum árum eftir andlát hans keypti sænski aðalsmaðurinn Magnus Gabriel de la Gardie handritasafn hans og gaf háskólabókasafninu í Uppsölum. Af upphaflegu handritsblöðunum 56 virðist fjórðungur hafa glatast, og af síðasta kverinu, sem tekið var efni úr í biskupshúfuna, eru aðeins tvö blöð eftir.

Handritið telst vera elsta og merkasta norska handritið sem geymir riddarabókmenntir. Lengsti textinn í bókinni eru svonefndir Strengleikar, þýðing á norrænu í óbundnu máli á 21 lais sem eru riddaraleg ástarljóð ort á fornfrönsku. Nokkur þeirra eru eignuð Marie de France sem uppi var á tólftu öld. Ein af sögunum sem biskupinn bar óafvitandi á höfði sér fjallar um riddarann Grelent og dálæti hans á konu sem er fegurri en sjálf drottning landsins. Strengleikar, sem aðeins eru til í þessu eina handriti, voru eins og fleiri fulltrúar evrópskra riddarabókmennta þýddir að frumkvæði Hákonar Hákonarsonar Noregskonungs (1217–1263).

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018