Skip to main content

AM 345 fol.: Tímatal í lagahandriti frá siðaskiptum

AM 345 fol. er íslenskt skinnhandrit skrifað eftir 1549. Handritið inniheldur Jónsbók, réttarbætur (síðustu frá 1549) og tímatal. Líklegt er að síðustu 15 blaðsíðurnar hafi verið skrifaðar nokkru síðar, en þó á 16. öld.

Handritið er best þekkt fyrir myndskreytingar sem er mjög merkilegt, en minna hefur verið rætt um tímatalið í lok þess. Þetta tímatal er ekki ólíkt mörgum miðaldatímatölum. Tólf mánuðir ársins eru reiknaðir út samkvæmt júlíanska dagatalinu (apríl hefur t.d. 29 daga) og hver mánuður á sína eigin blaðsíðu. Í tímatölum eru skrifaðir messudagar margra heilagra manna á latínu á svipaðan hátt og má sjá í öðrum tímatölum frá Íslandi og Norðurlöndum. Tímatalinu svipar hugsanlega mest til AM 249 b fol., sem er kalendarium skrifað á Íslandi (undir áhrifum frá enskum fyrirmyndum) u.þ.b. 1200–1300. Bæði AM 249 b fol. og AM 345 fol. innihalda t.d. messudag Eufemia virginis (13. apríl) og messudag Donatusar (1. mars) sem eru ekki algengir í tímatölum frá Norðurlöndum. 

Mörg íslensk tímatöl frá miðöldum eru varðveitt sem brot (t.d. AM 249 c fol. og AM 249 d fol.) þó að það sé frekar algengt að miðaldatímatöl frá Noregi hafi varðveist í lagahandritum, örugglega að hluta til vegna þess að mörg lög fjalla um hvað er leyfilegt að gera og borða á helgum dögum og að refsing fyrir brot sé þyngri væri það framið á helgidegi.

Það er líka nokkuð merkilegt að þrátt fyrir að Íslendingar hafi verið að taka upp nýjan sið á sama tíma og AM 345 fol. var skrifað, var ekki horfið frá því að nota kaþólskt tímatal, þó kannski á annan hátt en áður. Breytingar gengu mishratt yfir − ekki síst þegar um var að ræða eitthvað svo hversdagslegt eins og að marka tíma. Tímatalið í AM 345 fol. var nýtt um einhverja hríð eftir að bókin var skrifuð − eins og almanaksvísur skrifaðar á spássíu á 17. öld bera vitni um. Gregoríska tímatalið var ekki tekið upp á Íslandi fyrir en árið 1700.

 

  

 

 

 

 

Birt þann 18.05.2020
Heimildir

KLNM 8.98−106 „Kalendarium II, Norge,“ eftir Lilli Gjerløw.
KLNM 8.106−109 „Kalendarium II, Island,“ eftir Magnús Már Lárusson.

Og þakkir til Astrid Marner.