Skip to main content

knésetja

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin knésetja skilgreind á eftirfarandi hátt: „gera (e-n) óvirkan, yfirbuga (e-n)“. Skilgreiningar í orðabókinni er m.a. byggðar á notkunardæmum úr texta- og gagnasöfnum þar sem safnað hefur verið saman dæmum úr íslensku ritmáli, aðallega textum sem komið hafa út frá árinu 2000. Eftirfarandi dæmi hafa birst í fjölmiðlum undanfarin ár.

  • forstjóri Kaupþings segir slæmt reyni menn að knésetja fjármálafyrirtæki (sjónvarpsfréttir Stöðvar 2, 2008)
  • og þurftu framlengingu til að knésetja Túnisbúa 3-2 í hörkuleik (fótbolti.is, 2008)
  • áætlun Bandaríkjamanna sem miðast að því að knésetja ISIS-samtökin (vísir.is 2015)

Notkun sagnarinnar í nútímamáli má skýra sem myndmál þar sem við sjáum fyrir okkur andstæðing sem hefur verið barinn niður og er kominn niður á kné. En knésetja á sér mjög langa sögu í íslensku máli og merkingin hefur þróast töluvert í gegnum aldirnar. Til dæmis má finna tvö áhugaverð dæmi í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Í þessum dæmum merkir sögnin ‘að fóstra eða ala upp barn’. Hér er því um annars konar myndmál að ræða sem einnig er notað í yfirfærðri merkingu: að bera ábyrgð á uppeldi barns er eins og að hafa það á kné sér.

  • En hann tók til fósturs Harald Eiríksson og knésetti hann. (Heimskringla, u.þ.b. 1230)
  • Hann knésetti þann svein og fóstraði […] (Heimskringla, u.þ.b. 1230)

Engar heimildir eru um notkun orðins í orðasöfnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrr en á miðri 19. öld. Þá hefur yfirfærð merking orðsins þróast töluvert og virðist þegar hér er komið við sögu fyrst og fremst vera notað til að lýsa lítillækkandi framkomu þar sem þekking viðmælanda er dregin í efa. Við sjáum fyrir okkur að einhver setji einhvern annan á kné sér og tali við hann eins og foreldri talar við barn.

  •  […] enda var það ekki tilgangur minn með línum þessum að fara að knjesetja mjer vitrari menn, og kenna þeim stjórnfræði. (Fróði 1883)
  • Nú, það er eins og ég sé farinn að fræða þig og knésetja. (Matthías Jochumsson 1883-1918)

Engin dæmi er að finna í íslenskum handritum frá miðöldum sem gefa til kynna að orðið hafi verið notað í bókstaflegri merkingu, þ.e. að einhver setji eitthvað eða einhvern á kné sér eða taki einhvern í fangið. Slík dæmi má þó finna frá 19. öld.

  • ók hann við henni [::skálinni] tveim höndum og knésetti. (Jón Thoroddssen 1876)
  • og ýmist knésetja og kyssa eða liggja í faðmlögum […] (Hafnarstúdentar skrifa heim 1888)

Líklegt verður þó að teljast að bókstafleg merking hafi verið til óslitið frá miðöldum til 19. aldar þótt engin slík dæmi hafi varðveist. Ósennilegt er að yfirfærð merking verði til án þess að bókstafleg merking sé til staðar.

Upp úr miðri 20. öld fer notkun orðsins að breytast í átt að því sem við þekkjum úr nútímamáli. Eins og stundum gerist þegar breytingar verða á málvenjum tóku ekki allir þessari þróun fagnandi. Í ritgerðasafni árið 1947 kvartar Árni Pálsson yfir „afkáralegum málspjöllum“ blaða- og útvarpsmanna og spyr af hverju málsmekkur hluta þjóðarinnar sé að „veiklast og tærast upp“. Í því sambandi nefnir hann sérstaklega orðið knésetja sem hann segir að rithöfundar noti á sama hátt og orðasambandið „koma einhverjum á kné“. Ekki er ólíklegt að Árni hafi haft rétt fyrir sér varðandi uppruna þessarar nýju merkingar enda er það ekkert nýtt að málhafar slái saman orðatiltækjum eða misskilji myndmál. Þá vaknar sú spurning hvort notkun okkar nútímafólks á orðinu knésetja sé enn röng og dæmi um „sóðaskap“, eins og Árni taldi árið 1947, eða hvort röng notkun verði að lokum rétt og öðlist þar með sess í vönduðu íslensku máli? Þar sem lifandi tungumál eru í sífelldri þróun og mótast af því samfélagi sem þau lifa í hljótum við að hallast að hinu síðara.

Birt þann 11.10.2019
Heimildir

Árni Pálsson. Á víð og dreif – ritgerðasafn. Helgafell. Reykjavík 1947.
Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP). Kaupmannahafnarháskóli.
Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.