Skip to main content

Pistlar

Lög um mannanöfn og áhrif þeirra á nafnaforðann

Fyrirlestur haldinn í Nafnfræðifélaginu 30. október 2004.

Ætlun mín hér er að ræða um gildandi lög um mannanöfn og áhrif þeirra á nafnaforða Íslendinga. Ég ætlaði upphaflega að einskorða mig við nöfn sem færð hafa verið á mannanafnaskrá eftir 1998. Það reyndist meira verk en ég hafði ætlað að tína þau út úr skránni og fljóta því með í umfjölluninni hér á eftir einhver nöfn sem bættust við nafnaflóruna eftir 1991 og færð voru á mannanafnaskrá. Engin leið verður að ræða um öll nöfn sem skráð hafa verið á skrána. Þótt flest séu ný eru einnig á skránni nöfn sem heimildir voru um fyrir lagabreytinguna 1991 en voru svo sjaldgæf að ástæða þótti til að láta á það reyna hvort einhverjir óskuðu eftir að gefa þau börnum sínum. Ég ætla að byrja á því að segja nokkur orð um eldri lög en rekja síðan hvað sagt er um eiginnöfn og millinöfn í gildandi lögum þar sem ég veit að margir eru þeim ókunnugir.

Allt frá árinu 1913 hafa lög gilt um mannanöfn á Íslandi. Þessum lögum var á sínum tíma fremur illa tekið og framámenn í þjóðfélaginu, sem helst voru gegn þeim, komu því til leiðar að þeim var breytt 1925. Í fyrstu grein var tekið fram að hver maður skyldi heita einu nafni eða tveim og kenna sig til föður, móður eða kjörföður. Í 6. grein var tekið fram að stjórnarráðið skyldi gefa út skrá eftir tillögum heimspekideildar og ég tek upp úr textanum: „yfir þau mannanöfn, er nú eru uppi, sem bönnuð skulu samkvæmt lögum þessum“ (Stjórnartíðindi 1925, bls. 170). Þessi skrá var aldrei búin til og sannast að segja var enginn sem í raun fylgdi því eftir að lögin væru haldin. Það líkaði ýmsum illa og á kirkjuþingi 1986 var samþykkt tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á lögum um mannanöfn. Í greinargerð segir:

Mannanöfn hafa breyst mikið, eldri nöfn horfið og ný komið í staðinn. Sum hinna nýju nafna orka mjög tvímælis, eru jafnvel afkáraleg og geta orðið þeim, sem þau bera, til ama. Nafnið er hluti af persónu hvers einstaklings. Persónu- og tilfinningatengsl hvers manns við nafn sitt eru náin og sterk. Því ber að vanda mjög til nafngjafa. Ljóst er, að á því er nokkur misbrestur. Aðhald er lítið í þessum efnum og samræmdar reglur nánast engar.Ekki er ég viss um að allir prestar tækju undir þessi orð í dag en mér er kunnugt um að margir þeirra vilja sjá mannanafnalög úti við hafsauga. En umræða um mannanöfn varð til þess að ný lög voru samþykkt frá Alþingi sem tóku gildi 1991. Greinin um eiginnöfn hljóðaði svona: „Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn. Óheimilt er að gefa barni ættarnafn sem eiginnafn nema hefð sé fyrir því nafni.“ (2.gr.)

Í 17. grein þessara laga var kveðið á um að skipuð skyldi mannanafnanefnd og átti hún samkvæmt 3. grein að semja skrá um þau eiginnöfn sem heimil skyldu teljast samkvæmt 2. grein.

Margir voru óánægðir með það ákvæði að ekki mætti gefa barni ættarnafn sem eiginnafn og aftur voru það áhrifamenn sem börðust fyrir því að lögunum yrði breytt. Ný lög voru því samþykkt og hafa verið í gildi frá 1996 (með breytingum 1998).

Í kaflanum um eiginnöfn er tekið fram að hverju barni skuli gefa eiginnafn, þó ekki fleiri en þrjú. Tekið er fram að þeir sem fari með forsjá barns hafi bæði rétt og skyldu til að gefa því eiginnafn eftir því sem greinir í lögum þessum. Sú grein sem mest áhrif hefur haft í þá átt að fjölga nöfnum af erlendum uppruna verulega er 5. grein. Þar er tekið fram að eiginnafn skuli „geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.“ Nafnið má þó ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Síðan er tekið fram að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Og að lokum má eiginnafn ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Ákvæðið um eignarfallið hefur valdið því að samþykkja hefur þurft mikinn fjölda erlendra nafn, og í allnokkrum tilvikum íslenskar nafnmyndir, eingöngu af því að hægt er að bæta eignarfallsendingu við stofninn.

Með lögunum frá 1996 (1998) var komið til móts við þá sem vildu taka upp millinafn fyrir sig og fjölskyldu sína. Í 6. grein laganna er tekið fram að heimilt sé að gefa barni eitt millinafn auk eiginnafns þess eða eiginnafna. Millinafn má hvort heldur er gefa stúlku eða dreng. Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn. Þó er eiginnafn foreldris í eignarfalli heimilt sem millinafn. Millinöfn, sem eru mynduð með sama hætti og föður- og móðurnöfn, sbr. 3. mgr. 8. gr., eru óheimil. Millinafn, sem víkur frá ákvæðum 2. mgr., er heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Mannanafnanefnd hefur einnig hlutverki að gegna í þessum lögum og er það mjög svipað og í lögunum frá 1991. Dómsmálaráðherra skipar mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal einn nefndarmaður skipaður að fenginni tillögu heimspekideildar Háskóla Íslands, einn að fenginni tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og einn að fenginni tillögu Íslenskrar málnefndar. Mannanafnanefnd hefur eftirtalin verkefni samkvæmt lögunum: Í fyrsta lagi á hún að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast skv. 5. og 6. gr. laganna. Nefndin á að gefa skrána út, kynna hana og gera aðgengilega almenningi og senda hana öllum sóknarprestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á en hún skal gefin út í heild eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í öðru lagi á hún að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum þessum.

Í þriðja lagi á hún skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar. Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds. Nefndin skal birta niðurstöður úrskurða sinna árlega.

Dómsmálaráðuneyti birtir á vef sínum meginreglur um mannanöfn sem auðvelda eiga almenningi að átta sig á hvernig fara skuli að m.a. við nafngjöf.

„Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður sex mánaða gamalt.
Fullt nafn manns er eiginnafn hans eða eiginnöfn, millinafn, ef því er að skipta, og kenninafn (þ.e. föður- eða móðurnafn eða ættarnafn).
Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Engin skylda er að gefa barni millinafn.
Menn geta borið:
Eitt eiginnafn (t.d. Sigríður Jónsdóttir).
Eitt eiginnafn og millinafn (t.d. Sigríður Arnfjörð Jónsdóttir).
Tvö eiginnöfn (t.d. Sigríður Þorbjörg Jónsdóttir).
Tvö eiginnöfn og millinafn (t.d. Sigríður Þorbjörg Arnfjörð Jónsdóttir).
Þrjú eiginnöfn (t.d. Sigríður Þorbjörg María Jónsdóttir).“

Ég ætla rétt að hlaupa yfir þær reglur sem snerta eiginnöfn og millinöfn. Um eiginnöfn segir:
„Hverjum ber skylda til að gefa barni nafn?
Forsjármönnum barns (sem oftast eru foreldrar þess).

Hvernig fær barnið nafn?
Við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi. Með tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár. Með tilkynningu um nafngjöf til prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags.

Hvernig má nafnið vera?
Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.
Stúlku má aðeins gefa kvenmannsnafn og dreng aðeins karlmannsnafn.

Hvaða nöfn eru leyfileg?
Þau nöfn sem eru á mannanafnaskrá.

Hver sker úr um það hvort nafn sé leyfilegt?
Mannanafnanefnd. Hún á að kveða upp úrskurð sinn eins fljótt og við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því að mál berst henni.

Hvað gerist ef nefndin úrskurðar að nafn sé óleyfilegt?
Þá er nafnið ekki fært á þjóðskrá. Sé það nafn sem um ræðir eina nafn barnsins verða forsjármenn þess (oftast foreldrar) að velja því annað nafn.“

Um millinöfn segir: „Leyfilegt er að gefa barni eitt millinafn ásamt eiginnafni eða eiginnöfnum, en slík nafngjöf er þó engin skylda. Millinöfn eru eins og ættarnöfn að því leyti að bæði karlar og konur geta borið sama nafnið. Dæmi: Jón Arnfjörð Guðmundsson, Guðrún Arnfjörð Hallgrímsdóttir. Millinöfn eru á hinn bóginn eins og eiginnöfn að því leyti að þau er hægt að gefa við skírn eða nafngjöf. Það er þess vegna engin nauðsyn að fleiri en einn í fjölskyldu beri sama millinafn. Þannig er t.d. heimilt að gefa þrem alsystkinum hverju sitt millinafnið, s.s. Arnfjörð, Reykfjörð og Viðfjörð, að gefa þeim öllum sama millinafnið, að gefa aðeins einu þeirra eitthvert millinafn o.s.frv. Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.

Til hægðarauka má skipta millinöfnum í almenn millinöfn og sérstök millinöfn.“ Hvernig eru þá eru almenn millinöfn? „Almennt millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Dæmi: Arnfjörð, Sædal, Vattnes. Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.“ Um sérstök millinöfn segir hins vegar: „Þótt millinafn fullnægi ekki þeim reglum sem gilda um almenn millinöfn er það heimilt þegar þannig stendur á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið (eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma) ber eða hefur borið það. Dæmi: Þetta myndi eiga við um nafn eins og Bern, sem er ekki dregið af íslenskum orðstofni og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli (og er ekki ættarnafn á Íslandi). Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn og þeir sem ekki bera eitthvert tiltekið ættarnafn en eiga rétt á því mega taka það upp sem millinafn. Þeir sem eiga nákominn ættingja (alsystkini, foreldri, afa eða ömmu) sem ber ættarnafn mega taka það upp sem millinafn. Enn fremur er leyfilegt að bera ættarnafn maka sem millinafn. Heimilt er að nota eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn. Dæmi: Guðrún og Jón mega hvort heldur þau vilja gefa Önnu dóttur sinni nöfnin Anna Guðrúnar Jónsdóttir eða Anna Jóns Guðrúnardóttir. Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.“

Í þeirri grein laganna sem snýr að eiginnöfnum segir að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Hefðarhugtakið er ansi loðið og ekkert segir um það í lögunum hvað átt sé við. Mannanafnanefnd varð því að búa sér til viðmiðunarreglur um það hvenær nafn eða ritháttur teldist hefðaður þannig að hægt væri að úrskurða um nöfn sem ekki uppfylltu almenn skilyrði. Um er að ræða tvær reglur:

1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða. Með Íslendingum er í ákvæði þessu átt við íslenska ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi:

1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum.
2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri.
3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri.
4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910.
5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bága við íslenskt málkerfi.

Ég hef nú farið yfir þau helstu atriði laga um mannanöfn sem haft geta áhrif á nafngjafir og skráningu nafna á mannanafnaskrá og er nú komið að því að líta á nöfnin sjálf. Sú aðferð sem ég notaði var að keyra saman bókina Nöfn Íslendinga, sem kom út 1991, og mannanafnaskrána og vinna úr þeim nöfnum sem út af stóðu. Þannig losnaði ég við nöfn sem eldri heimildir voru um en höfðu ekki verið færð á mannanafnaskrá. Þessar færslur voru um 800 og eru þá ekki talin millinöfnin. Ekki eru allar þessar fæslur ný nöfn. Í um 100 tilvikum er verið að skrá hliðarmyndir af nöfnum sem þegar eru á skránni og eru kvenmannsnöfn talsvert fleiri en karla. Þrír flokkar eru þar stærstir. Í fyrsta lagi er um að ræða brodda yfir sérhljóða. Þar er ýmist verið að færa rithátt nær íslenskum ritvenjum eða fjær. Sem dæmi mætti taka kvenmannsnöfnin: Aníka < Anika, Aris < Arís, Barbára < Barbara, Elina < Elína, Fanny < Fanný, Greta < Gréta, Ida < Ída, India < Indía, Indiana < Indíana, Isabella < Ísabella, Karín < Karin, Karolína < Karólína. Af karlmannsnöfnum nefni ég Benoný og Benóný < Benóní, Húgó < Hugo, Níls < Nils, Oliver < Ólíver, Rudolf < Rúdólf.

Í öðru lagi er verið að taka upp nafnmyndir með -th- að erlendri fyrirmynd, t.d. Agatha < Agata, Athena < Atena, Bertha < Berta, Elísabeth < Elísabet, Esther < Ester, Martha < Marta, Matthea < Mattea, Ruth < Rut, Thelma < Telma.

Karlmannsnöfn eru aðeins Marthen < Martin þar sem sérhljóða er reyndar breytt líka, Methúsalem < Metúsalem. Stundum er bæði verið að biðja um rithátt með th og broddleysi yfir sérhljóða, t.d. Dorothea < Dórótea, Elisabeth < Elísabet og Judith < Júdit.

Ef við lítum nú aðeins á millinöfnin þá eru nú skráð á mannanafnaskrá 95 nöfn. Eins og lögin gera ráð fyrir hefur ekkert þeirra endingu í nefnifalli. Algengast er að óska eftir nöfnum sem tengjast náttúrunni á einhvern hátt og af þeim enda flest á -dal eða 22: Austdal, Bakkdal, Bjarndal, Borgdal, Freydal, Grendal, Heimdal, Hjaltdal, Hnappdal, Hrafndal, Hreindal, Hvammdal, Höfðdal, Laugdal, Magdal, Miðdal, Skíðdal, Stardal, Svarfdal, Sædal, Varmdal, Öxndal.

Nokkur enda á -berg eða 15:
Arnberg, Elísberg, Fossberg, Heimsberg, Herberg, Hildiberg, Hólmberg, Hraunberg, Línberg, Lyngberg, Móberg, Salberg, Snæberg, Steinberg, Straumberg.

Allmörg enda á -fjörð eða 9:
Arnfjörð, Austfjörð, Eyfjörð, Haffjörð, Hafnfjörð, Mjófjörð, Reykfjörð, Viðfjörð, Önfjörð.

Önnur nöfn fengin úr náttúrunni eru 22:
Bergholt, Bergland, Bíldsfells, Bjarg, Brim, Eyhlíð, Eyvík, Friðhólm, Hafnes, Hofland, Hofteig, Íshólm, Laufland, Laxfoss, Miðvík, Norðland, Reykfell, Reynholt, Sandhólm, Sigurhólm, Stein,Vattnes.

Nokkur áhugi virðist á að mynda nöfn með viðskeytinu -an en þau eru 8 á skrá nú: Aldan, Giljan, Hrafnan, Knaran, Knarran, Liljan, Seljan, Sólan.

Eftir standa þá nöfnin:
Bakkmann, Bald, Ben, Bláfeld, Blómkvist, Dan, Falk, Har, Hlíðkvist, Hvítfeld, Laufkvist, Ljós, Matt, Nesmann, Steinbekk, Storm, Val, Vídalín, Örbekk.

Þótt einhverjum finnist 95 millinöfn ekki há tala á sjö árum verður að hafa það í huga að á bak við hvert nafn eru oftast fleiri en einn einstaklingur og að nú getur hver sem gefa vill barni eða börnum millinafn sem er á mannanafnaskrá gert það. Reyndin er sú að dulbúin ættarnöfn verða til með þessum hætti þótt þjóðskrá skrái kenninafn aftan við millinafnið. Fólk einfaldlega sleppir að gefa upp kenninafnið og kemst upp með það.

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Lög um mannanöfn (45/1996) og Lög um breytingar á lögum um mannanöfn (150/1998). Sjá: [www.althingi.is/lagasafn].

Mannanafnanefnd. Úrskurðir. Sjá: [http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/Mannanafnanefnd/].

Mannanafnaskrá. Sjá: [http://www.rettarheimild.is/mannanofn/]

Meginreglur um mannanöfn. Sjá: [http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/Mannanafnaskra/Um_nofn]

Stjórnartíðindi 1925, A, bls. 170–171.

Stjórnartíðindi 1991, A 5–6, bls. 225 o.áfr.