Skip to main content

Pistlar

Nöfn jólasveina

Ég verð að byrja á nokkrum alkunnum atriðum, sem mörgu fólki gengur þó furðu illa að tileinka sér. Það er í fyrsta lagi, að fyrirbærið eða orðið jólasveinn sést ekki í rituðu máli fyrr en seint á 17. öld, í Grýlukvæði sem eignað er síra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi (Kvæði I:234-235). Það útilokar að sjálfsögðu engan veginn, að orðið eða fyrirbærið hafi verið til áður. Í þessu sama kvæði eru jólasveinar sagðir vera börn Grýlu og Leppalúða, en þess er ekki getið um alla jólasveina.

Ætíð var talað um jólasveina í fleirtölu, líka þegar þeir voru notaðir til að þýða og staðfæra skyld fyrirbæri, sem í erlendum frumtexta eru í eintölu. Í Tilskipan um hús-agann á Íslandi frá 1746 er í danska textanum meðal margs annars bannað að hræða börn með ‘den såkaldte julesvend eller spögelser’ en í íslenska textanum er bannað að hræða börn með jólasveinum eður vofum (Alþingisbækur Íslands XIII:567). Í Sálarfræði handa námfúsum unglingum, sem íslenskuð var árið 1800, er í þýska frumtextanum talað um ‘Schwarzer Mann’ og í danska millitextanum ‘Bussemand’, en í íslensku þýðingunni ‘Grýlu og jólasveinana’ (Campe 1800:132).

Elstu heimildir minnast ekkert á, hversu margir jólasveinarnir voru. Þó er í Grýlukvæði frá síðara hluta 18. aldar þetta erindi:

Löngum leiðir beinar
labba jólasveinar
þessa þjóðir hreinar
þrettán saman meinar
oft sér inni leyna
illir mjög við smábörnin

(Sbr. Jón Samsonarson 1979:164).

Þetta er því eldri heimild en Þjóðsögur Jóns Árnasonar um töluna 13, en bæði þar og í síðari heimildum er annars mjög misjafnt, hversu margir þeir virðast taldir.

Nöfn á jólasveinum sjást hinsvegar engin fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar árið 1862 (I:219). Hann hefur kringum 1860 fengið þrjár nafnarunur með heitum á jólasveinum. Ekki er alveg ljóst í hvaða röð hann fær þær, en ég nefni þær hér eftir aldri heimildarmanna hans. Hinn elsti þeirra er síra Páll Jónsson, fæddur 1812 og alinn upp fram yfir tvítugt vestur í Dölum, en hafði verið prestur norður í Eyjafirði í næstum 20 ár, á Myrká og Völlum í Svarfaðardal, þegar hann sendi Jóni þessi 13 nöfn:

Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Faldafeykir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir.

Þess ber að geta, að tvö þessara nafna, Giljagaur og Stekkjarstaur, koma fyrir í fyrrnefndu Grýlukvæði frá 18. öld, en þar eru þeir ekki kallaðir jólasveinar. Giljagaur er þar sagður vera bróðir Grýlu, og Stekkjarstaur er einungis sagður vera einn af ‘Grýlu hyski’ og ‘grimmur við unga sveina’.
Næstur að aldri er síra Jón Norðmann á Barði í Fljótum, f. 1820 og alinn upp í Skagafirði vestan Vatna. Hann segir, að jólasveinar séu 9 talsins, en tilgreinir samt ekki nema 8 nöfn. Þrjú þeirra koma fyrir í þulu síra Páls: Pottasleikir, Gluggagægir og Gáttaþefur, en auk þeirra hefur hann þessi nöfn: Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora.

Þessi nöfn sáust ekki á prenti fyrr en í ritinu Allrahanda árið 1946 (Jón Norðmann, 19).
Þriðju nafnarununa fékk Jón Árnason frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni, sem var f. 1835 og ólst upp á Stað í Steingrímsfirði, og varð síðar aðstoðarprestur föður síns þar. Þulan var í tveim gerðum eftir tveim heimildamönnum Guðmundar Gísla. Í annarri voru nöfnin 13, en í hinni 14. Þær eru mjög áþekkar, þótt nokkur afbrigði séu, nema þrjú seinustu nöfnin. Ég set afbrigðin með á listanum: Tífill eða Tífall, Tútur, Baggi, Lútur eða Hnútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sledda, Bjálminn eða Bjálfinn sjálfur, Bjálmans eða Bjálfans barnið, Lækjaræsir, Litli-Pungur, Örvadrumbur.
Í stað þriggja síðustu nafnanna hefur hin runan þessi nöfn: Bitahængir,
Froðusleikir, Syrjusleikir. Loks er fjórtánda nafnið, hinn alkunni Gluggagægir. Þessi nöfn sáust ekki á prenti fyrr en í hinni nýju útgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar árið 1958 (III:284-285).

Meira en hundrað árum seinna en Guðmundur Gísli sendi Jóni Árnasyni þessi nöfn, voru Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir stödd vestur í Nauteyrarhreppi, árið 1970, og skráðu þá sviplíka þulu eftir Helgu Jónsdóttur, sem fædd var árið 1898 vestur á Snæfjallaströnd. Hjá henni komu fram þessi afbrigði: Baggalútur, Refur, Litli-Drumbur, Efri-Drumbur og Lunguslettir (Jón Samsonarson 1979:162-163).

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins barst síðan árið 1975 slitur af svipaðri þulu norðan úr Árneshreppi á Ströndum, en þar voru þessi afbrigði:
Tígull, Stóri-Drumbur og Drumbur fyrir alla. Þessi nöfn virðast því greinilega vera kunnust í Strandasýslu og vestur í Djúpi.

Jón Árnason gat sem kunnugt er ekki birt nema um það bil helming þess efnis, sem honum hafði borist, í fyrstu útgáfu þjóðsagnanna, og af nöfnum jólasveina valdi hann til þess romsuna frá síra Páli Jónssyni, sem af þeim sökum hafa síðan yfirleitt verið talin hin einu réttu jólasveinanöfn, með einni undantekningu þó, einsog ég kem síðar að.
Fleiri nöfn áttu þó eftir að koma í leitirnar. Ólafur Davíðsson þekkti þessi afbrigði sem hann sagði frá í tímaritinu Huld árið 1894: Pottaskefill og Pönnusleikir. (Venjur. Viðbætir við Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Huld III:44).

Um svipað leyti kannaðist Jónas Jónasson frá Hrafnagili við þessi í tilbót, en hann getur ekki um hvaðan: Kertasleikir, Hurðaskellir, Moðbingur.

Jónas uppgötvaði líka hóp af 9 jólasveinum norður í Mývatnssveit. Fimm þeirra voru áður þekkt: Gáttaþefur, Gluggagægir, Kertasníkir, Pottaskefill og Pönnusleikir, en auk þeirra voru þessir fjórir: Flórsleikir, Þvengjaleysir, Hlöðustrangi, Móamangi.
Þessi nöfn sáust þó ekki á prenti fyrr en Íslenskir þjóðhættir Jónasar voru gefnir út árið 1934 (206).

Á Austurlandi voru til sagnir um sérstakan hóp jólasveina, sem ekki komu ofan af fjöllum, heldur utan af hafi. Þær eru skráðar í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Aðeins einn þeirra er nafngreindur og heitir Kattarvali (III:196).

Nú er líklega orðið tímabært að minnast á þátt Jóhannesar úr Kötlum í því að nánast lögfesta ákveðin jólasveinaheiti. Jóhannes birti sínar alkunnu jólasveinavísur með teikningum Tryggva Magnússonar listmálara árið 1932. Hann notar sömu nöfnin og birtust í þjóðsögunum 70 árum áður, þó með þeirri undantekningu, að hann setur Hurðaskelli í staðinn fyrir Faldafeyki, og þannig hafa hin hálfopinberu jólasveinanöfn verið þekktust síðan. Jóhannes notar líka afbrigðið Pottaskefill fyrir Pottasleiki, og auk þess notar hann afbrigðið Skyrjarmur fyrir Skyrgám (Jóhannes úr Kötlum 1932). Hvorugt þessara afbrigða hefur þó náð fótfestu í jólatilstandinu.

Þessi afbrigði benda hinsvegar til þess, að Jóhannes hafi ekki endilega haft Þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir framan sig, þegar hann orti vísurnar, heldur farið eftir því, sem hann lærði við móðurkné vestur í Dölum. Og því kynnu þeir síra Páll á Myrká að hafa lært þuluna á sömu slóðum.

Um og eftir 1970 tók þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins meðal margs annars að safna frekari heimildum um ýmsar jólavenjur, bæði með viðtölum og gegnum útvarpsþætti, en þó einkum með spurningalistum. Þar slæddust með ýmis nöfn á jólasveinum, sem áður virtust ókunn, að minnsta kosti utan afmarkaðs svæðis. Til að reyna að hafa einhverja reglu á frásögninni, ætla ég að fara réttsælis kringum landið, eftir því sem kostur er. Ég set þó sem áður einungis þau nöfn á tjaldið sem ekki hafa komið fyrir annarstaðar. Þá koma fyrst þessi nöfn úr Staðarsveit á Snæfellsnesi: Smjörhákur, Flautaþyrill, Flotgleypir og Rjómasleikir.
Úr Suðureyjum á Breiðafirði kom svo nafnið: Skefill.
Innan úr Dölum bættust við þessi nöfn: Fannafeykir, Kleinusníkir, Lummusníkir og Pottskerfi.

Utan af Skarðströnd bárust þessi nöfn: Skófnasleikir og Þambarskelfir.
Í Barðastrandarsýslum könnuðust mjög margir við einn jólasvein sérstaklega. Hann hét Reykjasvelgur, og var sagður gapa yfir eldhússtrompinn og svelgja í sig reykinn af hangiketinu. Sumir sögðu að hann lemdi börn með blautum lungum, og jafnvel að lungun héngju utan á honum, en svipað var líka sagt um jólasveininn Lungusletti eða Lungnasletti, sem áður var nefndur norður við Ísadjarðardjúp.

Frá NV-landi bárust þrjár ábendingar um Þorlák sem nafn á jólasveini. Annarsvegar gegndi hann sama hlutverki og Ketkrókur, að hnupla hangiketi á Þorláksmessu, hinsvegar var hann barnafæla. Þessi hugmynd virðist helst vera innflutt frá Noregi, þar sem aflagðir katólskir dýrlingar á jólaföstu breyttust í hrekkjóttar jólavættir, og einn þeirra var Tollak á Þolláksmessu.

Austan úr Breiðdal barst fyrir örfáum árum áður óþekkt nafn á jólasveini: Stigaflækir.
Undan Eyjafjöllum barst heimild um 9 jólasveina. Nöfn fjögurra þeirra eru alkunn eða Faldafeykir, Gluggagægir Ketkrókur og Kertasníkir, einn þeirra, Lummusníkir, þekktist einnig vestur í Dölum, en fjórir voru okkur áður óþekktir: Flotsleikir, Gangagægir, Svartiljótur og Svellabrjótur.

Þá fer þessari upptalningu senn að ljúka, en þó eru enn nokkrar eftirhreytur. Fyrir kemur að fólk telur einnig með jólasveinum aðra syni Grýlu, sem nefndir eru í annarskonar þulum. Kona úr Strandasýslu nefndi þannig bæði Langlegg og Völustegg, önnur af Austurlandi nefndi Dúðadurt og hin þriðja, úr Biskupstungum, nefndi þá Skrám, Skrepp, Skrögg og Völustegg.

Orðið jólasveinn gerir ótvírætt ráð fyrir að þessir náungar séu karlkyns. Samt koma fyrir nöfn sem virðast eiga við kvenkyns verur. Í gömlu þulunni úr Steingrímsfirði eru bæði Redda og Sledda, og í þjóðarsál Ríkisútvarpsins í desember árið 1990 uppgötvuðust tvær vestfirskar jólakellingar, Flotsokka úr Dýrafirði og Flotnös úr Önundarfirði. Báðar stálu floti fyrir jólin, önnur í sokk, sem einhver hafði ekki lokið við að prjóna, en hin í nösina á sér.

Nú má að lokum reyna að flokka öll þessi nöfn nánar.

Í fyrsta flokkinn kæmu þá matgoggarnir, ýmist betlarar eða þjófar. Sumir þeirra gætu þó verið áhöld, svo sem Flautaþyrill, Pottaskefill og Skefill.

Í næsta hóp mætti setja hrekkjalóma eða þá sem valda fólki ónæði.

Í þriðja máta eru þeir sem einna helst virðast vera umhverfisfyrirbæri eða missýningar.

Í fjórða flokk set ég þuluna úr Steingrímsfirði eða meginhluta hennar. Jón Samsonarson hefur leitt að því rök í Afmælisriti Ásgeirs Blöndals Magnússonar, að hún muni vera skyld sænskri þulu, sem kallast Timmermannsleken (1979:150 o. áfr.). Það er enginn tími til að fara út í allan þann samanburð, en þessi nöfn set ég ekki í stafrófsröð, heldur læt afbrigðin koma hvert á sínum stað og kalla þetta Strandaþulu.

Í fimmta lagi eru þeir sem bera mannanöfn. Þeir eru ekki nema þrír, Guttormur, Steingrímur og Þorlákur. Athyglisvert er að enginn heitir Nikulás. Sá alþjóðlegi jólasveinn hefur aldrei náð fótfestu á Íslandi.

Að lokum koma svo tveir sem hvergi virðast eiga heima, Stúfur og Kattarvali þótt kannski mætti flokka Stúf sem umhverfisfyrirbæri.

Birt þann 23. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alþingisbækur Íslands XIII. 1973. Reykjavík.

Árni Björnsson. 1993. Saga daganna, einkum bls. 343–346. Reykjavík.

Campe, Joachim Heinrich. 1800. Sálar-Frædi, ætlud námfúsum Unglíngum, einkum Kénnslu Børnum. Frítt útløgd af Bjarna Arngrímssyni. Leirárgörðum.

Huld. Safn alþýðlegra fræða íslenzkra. Útg. Hannes Þorsteinsson, Jón Þorkelsson, Ólafur Davíðsson, Pálmi Pálsson, Valdimar Ásmundsson. I-VI. Reykjavík 1890–1898. Ný útgáfa I–II. Reykjavík 1935–1936.

Íslenskar þjóðsögur og sagnir. Safnað hefir og skráð Sigfús Sigfússon. Ný útgáfa. III. Óskar Halldórsson bjó til prentunar. Reykjavík 1982.

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Safnað hefir Jón Árnason. Fyrsta bindi. Leipzig 1862.

----- I-VI. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954–1961.

Jóhannes úr Kötlum. 1931. Jólin koma. Með myndum eftir Tryggva Magnússon. Reykjavík.

Jón Norðmann. 1946. Allrahanda. Menn og minjar IV. Reykjavík.

Jón Samsonarson. 1979. Jólasveinar komnir í leikinn. Íslenskt mál og almenn málfræði 1. Reykjavík.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 1934. Íslenzkir þjóðhættir. Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun. Reykjavík.

Stefán Ólafsson. 1885–1886. Kvæði I–II. Kaupmannahöfn.

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands.