Skip to main content

Pistlar

Birtist upphaflega í september 2018.

Þegar farið er með hinar sígildu íslensku stafrófsvísur eftir Gunnar Pálsson (1714–1791) nefnum við bókstafina íslenskum nöfnum þeirra, a, , , , e, eff, o.s.frv. Íslensku nöfnin líkjast mjög nöfnum samsvarandi bókstafa í nágrannamálunum, t.d. dönsku, ensku, frönsku og þýsku, enda eiga bókstafanöfn þeirra í flestum tilvikum rætur að rekja til bókstafanafna sem tíðkuðust í latínu á miðöldum. Þó er nokkur munur á nöfnunum á milli málanna enda eiga þau sér langa sögu í hverju máli fyrir sig og hafa með tímanum mótast af hljóðkerfi þeirra. Og ekki eru heldur allir íslensku stafirnir fengnir úr latínu, t.d. ekki Þ og Ð.

Stafrófsvísur Gunnars Pálssonar í stafrófskverinu Lítið ungt stöfunarbarn sem út kom árið 1782 (bls. 18).

Bókstafurinn V er notaður í öllum nágrannamálum okkar og var fenginn að láni úr latínu líkt og flestir stafir í íslenska stafrófinu. Hins vegar er nafn hans, vaff, ekki latneskt og í nágrannamálum heitir þessi stafur oftast ve (eða svipuðu nafni).

Þegar undirritaður lærði að fara með fyrrnefndar stafrófsvísur hófst síðari vísan svo: Err, ess, , u, vaff eru þar næst. Hér að ofan gefur að líta stafrófsvísur Gunnars Pálssonar eins og þær koma fyrir í stafrófskveri hans, Lítið ungt stöfunarbarn, sem prentað var í Hrappsey árið 1782. Þarna er ekkert V. Hvernig skyldi standa á því?

Eins og áður sagði kemur bókstafurinn V úr latneska stafrófinu. Rómverjar notuðu hann bæði til að tákna samhljóð, t.d. VENI, VIDI, VICI, og sérhjóð, t.d. SPIRITVS SANCTVS. En þeir nefndu stafinn með sérhljóðinu sem var eins og íslenskt ú. Stafurinn U er yngra afbrigði af V og voru þessir stafir lengi notaðir sitt á hvað fyrir sérhljóðið og samhljóðið. Sú venja að rita V fyrir samhljóð og U fyrir sérhljóð mun ekki hafa náð verulegri útbreiðslu í latínu fyrr en á 16. öld (Weiss 2009:28). Í íslensku var málum eins farið framan af. Stefán Karlsson getur þess þó að í nokkrum elstu handritunum séu „stafirnir u og v notaðir á nokkurn veginn sama hátt og í nútímastafsetningu“ (1989:35), en fram á prentöld voru þeir þó oftast notaðir sitt á hvað fyrir sérhljóðið og samhljóðið (1989:44).

Rétt er að nefna hér í framhjáhlaupi að svipuðu gegndi með stafina I og J. Rómverjar notuðu eingöngu I fyrir bæði samhljóð og sérhljóð, t.d. IVLIVS (Júlíus), og J er yngra afbrigði stafsins. Sú venja að rita I fyrir sérhljóð og J fyrir samhljóð er einnig tiltölulega ung, bæði í latínu og íslensku, sbr. t.d. að bókstafurinn J kemur ekki fyrir í stafrófsvísum Gunnars, sjá myndina að ofan.

Ætla má að Íslendingar hafi framan af ekki haft sérstakt nafn fyrir bókstafinn V heldur nefnt hann sama nafni og U. En samfara því að venjan að rita V aðeins fyrir samhljóðið festist í sessi hefur skapast þörf til þess að gefa honum sérstakt nafn. Íslenska nafnið vaff er komið af hebreska bókstafsnafninu wāw. Hið sama er að segja um þýska nafnið vau (borið fram fau), en í dönsku, norsku og sænsku heitir stafurinn ve líkt og í ensku og frönsku.

Svo virðist sem tíðkast hafi ólíkur framburður á hebreska nafninu wāw, það ýmist verið sagt með samhljóði í endann, sbr. vaff í íslensku nútímamáli, eða með tvíhljóði, sbr. vau í þýsku. Á Íslandi hafa bæði afbrigðin verið þekkt því að í formála stafrófskvers Gunnars Pálssonar kemur fram að hann felli sig ekki við að nefna í stafrófinu „Vaú“ eða „Vaff“, rétt sé að segja „ú“ (1782:16). Þetta er einnig athyglisvert í ljósi þess að í stafrófskveri Gunnars eru stafirnir U og V ritaðir að mestu eins og í nútímamáli (tvíhljóðið au er þó ritað „av“) og stafurinn V er hafður með í sviga á eftir U í stafrófinu (1782:17) þótt hann komi ekki fyrir í stafrófsvísunum.

Stafrófskver Gunnars þykir hafa markað tímamót og verið mikil framför miðað við eldri rit af þessu tagi (sjá grein Hróðmars Sigurðssonar um íslensk stafrófskver í Skírni 1957). Þegar 200 ár voru liðin frá því að Stöfunarbarnið kom fyrst út var það endurútgefið í ritröðinni Íslenzk rit í frumgerð. Þar segir í inngangi: „höfuðtilgangur kversins er fyrst og fremst sá að auðvelda börnum sjálft lestrarnámið“ (Gunnar Sveinsson 1982:viii). En þótt rit Gunnars Pálssonar hafi tekið eldri stafrófskverum fram hefur enn verið svigrúm til betrumbóta, t.d. með því að nefna stafina U og V sínu nafni hvorn. Árið 1832 ritaði Árni Helgason stiftprófastur á Görðum á Álftanesi stutta grein í Ármann á Alþingi þar sem hann bendir á sitthvað sem betur mátti fara við lestrarkennslu. Þar segir m.a.: „því tekid hefi eg eptir því, ad børn sem lært hafa ad nefna v sem ú, hafa átt bágt med, ef tornæm voru, ad lesa þetta stutta ord vid, þau lesa þad: úid“ (1832:81).

Mér vitanlega er Orðabók Guðmundar Andréssonar (um 1615–1654) elsta rit íslenskt þar sem bókstafurinn V er nefndur sérstöku nafni. Guðmundur vann að orðabókinni síðustu ár ævi sinnar og lést áður en hann náði að ljúka henni, en handrit hans var gefið út árið 1683 af Dananum P.H. Resen. Í orðabókinni eru orð sem byrja á V og U saman í stafakafla og fremst í honum er stafurinn V nefndur „Vau“ (Lexicon Islandicum, bls.164).

Dönsk og sænsk málfræðirit frá svipuðum tíma sýna að í þessum málum hefur hebreska nafnið einnig tíðkast, það er ýmist ritað „vau“ eða „vav“, sbr. danska málfræði frá 1668 eftir Erik Pontoppidan eldra (1616–1678) (Danske Grammatikere II, bls. 32, 53 og víðar) og sænska réttritunarbók frá 1717 eftir Urban Hjärne (1641–1724) (tilvitnun hjá Sigurd 1969:158). En einnig eru heimildir um það frá 18. öld að í Svíþjóð hafi bókstafurinn verið kallaður ve (Sigurd 1969:158–59) og sama er að segja um Danmörku. Í Et lidet Orthographisk Lexicon frá 1741 eftir Niels von Haven (1709–1777) segir að [í Danmörku] kalli sumir bókstafinn ve en aðrir vav (tilvitnun í Ordbog over det Danske Sprog, 26. bindi, bls. 153).

Í Danmörku og Svíþjóð kölluðu menn V þannig ýmist hebreska nafninu vau/vav eða nýnefninu ve sem búið hefur verið til að fyrirmynd nafnanna be, de, ge, pe og te (á íslensku , , , og ). Á endanum varð ve ofan á í þessum löndum. Á Íslandi festist hins vegar í sessi hebreska nafnið, en slípaðist nokkuð til og varð vaff. Elstu dæmi sem ég þekki um nafnið í þessari mynd eru í Orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705–1779). Í því merka riti, sem enn er óútgefið, er að finna vísur sem Jón samdi um bókstafi (nánar tiltekið alla samhljóðendur frá og með F). Í flestum tilvikum er hverjum staf tileinkuð sérstök vísa. V er reyndar undantekning frá þessu, en þó samdi Jón þrjár vísur þar sem allir þrír síðustu samhljóðendurnir, T, V og Þ koma fyrir. Tvær þeirra fylgja hér (með nútímastafsetningu). Sú fyrri hljóðar svo (AM 433 1 fol IX, innan á kápu):

Vaffið fætt í vindi er,
vasar fram og þannig tjer.
Té og Þorn á hverja hlið,
hamlar mér og gjörir við.

Og sú síðari (AM 433 1 fol IX 2r):

Téið býr um traustið mest,
tryggt er það við Vaffið mest.
Þornið eftir þramma sést,
það mun reka stafrófs lest.

Birt þann 19. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Heimildir:

AM 433 1 fol. IX (Handrit á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík).

A.H. [Árni Helgason]. 1832. Leidavísir til ad kenna børnum ad lesa. Ármann á Alþingi 4:66–83.

Danske Grammatikere fra Midten af det syttende til Midten af det attende Aarhundrede 2. Útg. Henrik Bertelsen. Det danske sprog- og litteraturselskab, Kaupmannahöfn. 1979.

Gunnar Pálsson. 1782. Lijtid wngt Støfunar Barn. Guðmundur Jónsson, Hrappsey.

Gunnar Sveinsson. 1982. Formáli. Í Gunnar Pálsson. Lijtid wngt Støfunar Barn. 1782. Íslenzk rit í frumgerð 4, vii–xxxvi. Iðunn, Reykjavík.

Hróðmar Sigurðsson. 1957. Íslenzk stafrófskver. Skírnir 131:40–65.

Lexicon Islandicum: Orðabók Guðmundar Andréssonar. Útg. Gunnlaugur Ingólfsson og Jakob Benediktsson. Orðfræðirit fyrri alda 4. Orðabók Háskólans, Reykjavík. 1999.

Ordbog over det danske Sprog, 26. bindi, „usaadet – vinder“. Aðalritstj. Jørgen Glahder. Det danske sprog- og litteraturselskab, Kaupmannahöfn. 1952.

Sigurd, Bengt. 1969. Bokstävernas og språkljudens namn i svenskan. Arkiv för nordisk filologi 84:144–162.

Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Í Íslensk þjóðmenning 6. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson, 1–54. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Weiss, Michael. 2009. Outline of the Historical and Comparative Grammar of Latin. Beech Stave Press, Ann Arbor, New York.