Skip to main content

Pistlar

Aflraunasteinar

Birtist upphaflega í júní 2006.

Áður fyrr tíðkaðist að menn reyndu krafta sína á steinatökum, einkum sjómenn í verstöðvum, t.d. á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi, en einnig þar sem gangnamenn komu saman, t.d. við Þakgil í Mýrdal. Hér verða nefnd nokkur nöfn aflraunasteina sem vitað er um á landinu, og hvar þá er að finna, en til eru steinar af þessu tagi sem nafnlausir eru eða nöfnin hafa týnst. Aðalheimildir eru örnefnaskrár í Örnefnastofnun en einnig kaflinn Aflraunasteinar eftir Lúðvík Kristjánsson í Íslenskum sjávarháttum, IV. bindi og grein Gests Guðfinnssonar í Farfuglinum, 21. árg.:

Hraunbær í Álftaveri:
Vestur af Krosshól, við gamla veginn að Bólhraunum, er klettur, sem heitir Latur. Þar voru þrjú steinatök, Litli-LaturMið-Latur og Stóri-Latur. Þetta voru aflraunasteinar.

Þakgil í Mýrdal:
Gangnamannakofi í Ausubólshólum vestan við Þakgil var notaður í ca. 50 ár. Við tóftina eru 3 aflraunasteinar sem nefndir eru Amlóði, Hálfsterkurog Fullsterkur.

England í Lundarreykjadal:
Neðst í tungunni, fyrir ofan laug sem þar er, hafa síðustu 20 árin legið fjórir aflraunasteinar, sem heita FullsterkurHálfsterkurAmlóði og Örvasi.

Oddsstaðir í Lundarreykjadal:
Í Sáðmannsgerði voru til þrír aflraunasteinar, FullsterkurAmlóði ogMiðlungur
Húsafell í Borgarfirði:
Kvíahellan. Amlóði átti að geta lyft henni á hné sér, hálfsterkur upp á stein í magahæð og fullsterkur að geta tekið hana á brjóst sér og borið hana umhverfis kvíarnar. 
Í Húsafellslandi eru auk þess tveir nafngreindir aflraunasteinar, Gráisteinnog Steðjasteinn. (Kristleifur Þorsteinsson 1948:193). 

Kalmanstunga í Hvítársíðu:
Þórðarteigur er kenndur við sláttumann. Á teignum eru þrír steinar, nefndirEngjasteinar, greindir sem FullsterkurHálfsterkur og Amlóði.

Djúpalónssandur, Snæf.:
Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur, Amlóði. „Sunnan við Gatklett eru hinir frægu aflraunasteinar eða steinatök, brimbarðir blágrýtishnullungar og illir átöku, sem oft eru kenndir við Dritvík, þótt þeir séu á Djúpalónssandi. Sagt er, að vermenn frá Helgafelli, sem ætíð þóttu nokkrir oflátungar, hafi upphaflega sett steinana þarna sem prófsteina á það, hvort menn skyldu skipsrúmsgengir í verstöðinni. Hafa steinarnir hver sitt nafn, sem gefa átti til kynna afl þeirra, sem lyft gátu þeim á stall. ...“ (Árbók FÍ 1982, bls. 113-114).

Haukadalur í Dalasýslu:
Þrír aflraunasteinar undir Kirkjufelli í landi Villingadals. Þeir heitaFullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. (Gestur Guðfinnsson, bls. 9).

Brunnar við Látravík:
Júdas og Brynjólfstak Júdas tolldi ekki í neinni hleðslu og varð þessvegna aflraunasteinn vermanna. Brynjólfstak var kennt við mann, Brynjólf sem bar hann á bakinu upp úr fjöru í ól. (Lúðvík Kristjánsson IV:219).

Hvallátrar: 
Þar eru fjögur steinatök: Alsterkur, Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði.(Lúðvík Kristjánsson IV:219, 222).

Látranes á Hvallátrum:
Klofi. Inn í hann miðjan er dæld. (Lúðvík Kristjánsson IV:219).

Arnarstapavík í Tálknafirði:
Þrjú steinatök á bökkunum fyrir ofan vörina Miðþröng: Fullsterkur, Miðlungur og Aumingi. (Lúðvík Kristjánsson IV:219).

Selárdalur í Arnarfirði: 
„Áður en lengra er haldið tel ég rétt að setja hér þrjú steinanöfn. Hafði hver steinn sitt nafn en einu nafni nefndir Aflraunasteinar. Árið 1961 var ég þarna á ferð og sá þá bara einn þeirra. Hinir tveir höfðu verið settir í vegg eða vegghleðslu á milli býlanna Staðarhóls og Kálfatjarnar. Mér er tjáð að um aldamótin hafi þeir legið við bæjartóttir Kálfatjarnar. Voru steinarnir kallaðir FullsterkurHálfsterkur og Aumingi (Amlóði). Sá fyrsti var stærstur en eðlisléttastur, mun hafa vigtað 125 kg.“ (Lárus J. Guðmundsson í örnefnaskrá).

Fjallaskagi í Dýrafirði: 
„Aflraunasteinarnir á Skaga hétu Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði ogAumingi. Fáum mun hafa tekist að láta vatna undir Fullsterk...“ (Árbók FÍ 1999, bls. 264).

Seley við Reyðarfjörð:
Upp af Syðstuhöfn í Seley voru “þrír aflraunasteinar nefndir Hrúturinn, Ærin og Lambið en steinarnir hafa ekki fundist í seinni tíð.” (Árbók FÍ 2005, bls. 73-74). (Lúðvík Kristjánsson IV:221).

Skriðuklaustur:
Aflraunasteinar tveir hafa lengi verið á Klaustri. Annar þeirra nefnistBessasteinn og var upphaflega á Bessastöðum. Átti Bessi gamli að hafa sparkað honum niður völlinn til að marka sér legstað. Dæld er í steininum eftir sparkið. (www.skriduklaustur.is (>Skriðuklaustur)). „Aflraunirnar við Bessastein voru þrjár. Í fyrsta lagi að grasa honum, lyfta honum úr grasi, í öðru lagi að lyfta honum í hnéhæð, í þriðja lagi að lyfta honum upp á réttarvegginn, og var þá aflraunin fullkomnuð.“ (Gestur Guðfinnsson 1977:12, sbr. og Helgi Hallgrímsson 1989). 

Ýmsir aflraunasteinar hafa verið nafnlausir eins og áður segir. Þar á meðal er steinn (eða steinar) á Skógasandi undir Eyjafjöllum: Um hann segir: “Vegslóð liggur með fram vörðuðu leiðinni og er hann nokkuð greiðfær yfirferðar. Á leið þessari voru aflraunasteinar sem menn reyndu sig við á leið til og frá sandi. Hinir upprunalegu steinar eru því miður glataðir en þeir voru fluttir að félagsheimili ungmennafélagsins Eyfellings við Skarðshlíð og þaðan voru þeir teknir og líklega notaðir við vegagerð. Nú er búið að kom fyrir þremur steinum á sjóleiðinni þar sem ferðamenn geta reynt krafta sína staðsetning þeirra er: N 63°29´44,1" W 19°28´36,2".” (www.eyjafjoll.is (>Afþreying >Hjólreiðaleiðir >Kjóasandur og Máríuhlið)). Gestur Guðfinnsson talar aðeins um einn stein á þessum slóðum sem fluttur hafi verið að Skarðshlíð (bls. 12-13). 

Nokkrir steinar eru þekktir sem kenndir eru við einstaka sterka menn sem sagt er að hafi fært þá úr stað, sbr. Bessastein og Brynjólfstak hér að framan. Þekktastir eru þau fjölmörgu Grettistök eða Grettishöf sem finna má í landinu en þau eru ekki aflraunasteinar í þeim skilningi sem hér um ræðir. Leifatök eru þrír steinar skammt fyrir utan Látra í Aðalvík, kenndir við feðga sem hétu Leifur eða Þórleifur (Sóknalýsingar Vestfjarða II:201). Grímur Thomsen orti kvæðið Snorratak, þar sem skáldið fjallar um séra Snorra á Húsafelli og Kvíahelluna en það er önnur saga. Í Krossavík í Vopnafirði er saga um furðustóran stein: „Sagt var um Þorstein sterka Guðmundsson (1798-1849) að hann hefði sett á hlóðir mikinn bjargstein sem kallaður hefur verið Þorsteinshaf og hefur þótt undramikill.“ (Sigfús Sigfússon 1986, XV:49). Fleiri steinatök eru vafalítið til í landinu, með nafni eða án, en hér verður látið staðar numið.
 

Birt þann 1. júní 2006
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1982 eftir Einar Hauk Kristjánsson.
Árbók Ferðafélags Íslands 1999, eftir Kjartan Ólafsson.
Árbók Ferðafélags Íslands 2005 eftir Hjörleif Guttormsson.
Gestur Guðfinnsson, Lausleg samantekt um steinatök eða aflraunasteina á Íslandi. Farfuglinn 21 (2), 1977.
Helgi Hallgrímsson, Af náttúru og minjum á Austurlandi VI. Þrír steinar á Skriðuklaustri. Austri, 34. árg., 2. febrúar 1989. 
Kristleifur Þorsteinsson, Kvíarnar á Húsafelli og aflraunasteinar séra Snorra. Úr byggðum Borgarfjarðar II. Þórður Kristleifsson bjó til prentunar. Reykjavík 1948.
Lúðvík Kristjánsson, Aflraunasteinar. Íslenskir sjávarhættir, IV. bindi. Reykjavík 1985.
Sigfús Sigfússon, Íslenzkar þjóð-sögur og sagnir XV. Ný útgáfa 1986.
Sóknalýsingar Vestfjarða. II. Ísafjarðar- og Strandasýslur. Reykjavík 1952.