Skip to main content

Bót

Birtist upphaflega í maí 2003.

Orðið virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt (Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989). Í Færeyjum virðist örnefnið Bót vera haft í merkingunni ‘bugur, vik í landslagi’. Hérlendis er orðið bót víða til í örnefnum í merkingunni:

1) ‘hvilft, hvammur, dalbotn’
Á Austurlandi, Suðurlandi og Norðurlandi hefur bót haft þessa merkingu og þá uppi í landi. Bærinn Bót er til í Hróarstungu í N-Múl. Bótarfoss er í Geithellnaá í S-Múl. en nafnið gaf Þorvaldur Thoroddsen 1882. Í Árbók Ferðafélagsins 2002, Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar, eftir Hjörleif Guttormsson, eru mörg dæmi um Bótar-örnefni. Á Suðurlandi getur orðið bót merkt einhvers konar ‘krók’, t.d. við landamerki, „í Bótinni“. En það getur líka merkt þar ‘moldarsvæði þar sem grasrótin er burtu’ (Orðabók Háskólans = OH), ‘stakur gróðurblettur’ (Íslensk orðabók). Upp af bænum Mosfelli í Grímsnesi í Árnessýslu er Bótarskarð sem nefnt er í Landnámu og kennt við Bót, ambátt Ketilbjarnar gamla. Líklegt er að það sé sams konar bót í landslagi og fyrir austan og víðar (Landnámabók. Íslensk fornrit I, 386). Í Húnavatnssýslu er Bótarfell sunnanvert við Vatnsdalinn (Sýslu- og sóknalýsingar, Reykjavík 1950, 73). Í Suður-Þingeyjarsýslu er bót í tveimur bæjanöfnum, Heiðarbót og Árbót. Heiðarbót stendur í hvilft upp í heiðina, en Árbót er í fallegum hvammi upp frá Laxá í Laxárdal (OH).

2) ‘vík, smávogur’
Bót er haft um Bakkaflóann fyrir austan (Austurland 1 (1947), 25). Í Vestmannaeyjum er Stakkabót (Bótin) við sjóinn, suður á Heimaey. Lendingin í Herdísarvík í Árn. heitir líka Bótin. Á Mýrum á Vesturlandi var Bót nafn á fiskimiði, einkum þar sem hraunkollar voru (út af Mýrum). Á Snæfellsnesi er Bót líka fiskimið (Sýslu- og sóknalýsingar, Reykjavík 1970, 166). Á Breiðafirði er líka fiskimið útsuður og suðvestur af Flatey, sem heitir Bótin: „Skálanes vestur í Lágmúla, Hvammshyrna í Oddleifsskerja innri hnúu“ (Sóknalýsingar Vestfjarða I, Reykjavík 1951, 128). Í Dýrafirði er Bót algengt sem örnefni á sjó, yfir víkur sem skipalægi. Í lýsingu á jörðinni Smiðjuvík í Grunnavíkursveit segja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín 1710: „Rekavon valla teljandi, því festifjara er engin nema í einu litlu plátsi, sem Bót heitir við sjóinn“ (Jarðabók 7: 309). Í Eyjafirði er Bót líka fiskimið (Sýslu- og sóknalýsingar, Akureyri 1972, 62).

Birt þann 20.06.2018