Skip to main content

Brenna

Birtist upphaflega í febrúar 2005.

Brenna sem bæjarnafn á landinu er sem hér segir: 1) Hjáleiga frá Rútsstöðum í Gaulverjabæjarhr. í Árn. (mynd). 2) Hjáleiga frá Ólafsvöllum á Skeiðum í Árn. 3) Bær í Lundarreykjadal í Borg., sá eini í byggð nú með þessu nafni. 4) Fornt eyðibýli í landi Kalmanstungu í Hvítársíðu í Borg. Skv. Landnámabók brenndi Þjóðólfur Karlason þar inni Kára Kýlansson (Íslensk fornrit I:82). 5) Hjábýli suður og upp frá Ensku búðum í Siglufirði. 6) Hjáleiga frá Holti undir Eyjafjöllum í Rang. (Grímnir 1:68–69). Oft er um að ræða hjáleigur eða smábýli sem lagst hafa í eyði. Auk þess var hús í Reykjavík (Bergstaðastræti 13) nefnt Brenna.


Brenna er til sem örnefni á allmörgum stöðum, sem eftirfarandi dæmi úr örnefnaskrám sýna:

Öndverðarnes, Grímsnesi, Árn.: Lága hraunið vestur af Húshól heitir Brenna. Er talið, að þar hafi verið brennd viðarkol.

Torfastaðir, Bisk., Árn.: Mýrin niður frá túninu, sú er þjóðvegurinn liggur norðaustur um …, heitir Brenna.

Kjarnholt, Bisk., Árn.: Brenna er djúpt mýrarsund.

Þorbjarnarstaðir, Garðahr., Gull.: Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni.

Þverárkot, Kjalarnesi, Kjós.: Vestan í hálsinum móti Grafardal er mýri, sem nefnd er Brenna eða Brenningur. Þar var hrossabeit.

Eyri í Andakíl, Borg.: Neðanvert við Stekkjarbarðið, upp af Meleyri, er svæði allstórt, sem heitir Brenna. Ofarlega í henni er Brennuhóll. Brennan er móar, og um hana renna lækir.

Kvígsstaðir, Andakíl, Borg.: Frá Dalsholti niður að Hestlandbroti sem hér er á merkjum, er mýri, sem heitir Brenna. Þetta er nýlegt nafn, vegna þess að kviknaði í því heldur hraustlega.

Hermundarstaðir, Þverárhlíð, Mýr.: Við ána, framan lækjarins, Fornistekkur, þaðan einu nafni Brenna að Jónasarsnoppu.

Sámsstaðir, Hvítársíðu, Mýr.: Brenna heitir móalandið sem áður var, sunnan vegar, frá Gilmóum austur að Bæjarfitslág.

Stóri-Ás, Hálsasveit, Borg.: Stórt svæði skógi vaxið, sem heitir Brenna.

Akureyjar í Helgafellssveit: Brenna. Allháir klettar við Brennuvík.

Dunkárbakki, Hörðudal, Dal.: Brenna. Í Hormó við túnhornið. Þegar þar var sléttað, kom upp aska.

Geirastaðir í Skútustaðahr., S-Þing.: Árni Magnússon og Páll Vídalín nefna að Brenna kallist örnefni út frá bænum. Munnmæli segi að þar hafi verið byggð og að sá bær hafi brenndur verið, „og því sé eyðibólið so kallað“ (Jarðabók XI:242).

Þverá, Öxarfirði, N-Þing.: Fyrir mörgum árum var drengur að smala geitum, og kviknaði þá í lyngi, svo af varð rosabál, fleiri dagsláttur, sem brunnu í móunum, og er það svæði nefnt Brenna.

Fíflholtshverfi, Vestur-Landeyjum, Rang.: Nærri bænum heitir Brenna.

Þar sem Þverá-Kjarrá sameinast Hvítá (Borg. ) við Brennutanga er veiðistaður sem nefnist Brennan (Eiríkur St. Eiríksson Stangaveiðihandbókin, 2. bindi (2003), bls. 80). Ekki er vitað um tildrög nafnsins.

Líklega er nafnið Brenna oft dregið af brennslu kjarrs eða skóga til ræktunar eða af gróðurbruna, sem orðið hefur viljandi eða óviljandi. Oft er um að ræða mýri og liggur því nærri að nafnið eigi við sinubruna. Í Laxdælu er frásögn af því að í Hundadal í Miðdölum umhverfðist jörð líkt og af hvirfilvindi, og kom þar aldrei gras upp og hét síðar Brenna (Íslensk fornrit V:109). Í Fremri-Hundadal er nú Brennuhóll rétt við bæ, þar sem kvíarnar voru. „Þar voru haldnar brennur í seinni tíð.“ (Örnefnaskrá).

Þar sem Brennuhólar koma fyrir, t.d. þar sem kirkjan á Hólmavík var reist, gæti verið um að ræða hóla, sem brennur voru gerðar á, þ.e. að kveiktur hafi verið viti á slíkum hólum, til að gefa merki um e-ð tiltekið.

Nokkrir bæir hafa Brenni- að forlið, m.a. Brennistaðir og má ætla að þar sé annaðhvort so. brenna eða no. brenni í forlið.

Í Landnámabók er bærinn Brenningr nefndur „milli Hellis ok Hraunhafnar“ á Snæfellsnesi (Íslensk fornrit I:104). Í Jarðabók Árna og Páls er Brenningur talinn í landi Arnarstapa og sagt að þar séu fornar tóftaleifar (V:164). Sama nafn er í Þverárkoti á Kjalarnesi á mýrinni sem einnig er nefnd Brenna, sjá hér að framan. Merking er vafalaust dregin af hinu sama.

Í norskum örnefnum er Brenna til sem þéttbýlisstaður í Finnmörk þar sem talið er að nýnorska orðið brenne ‘avsvidd skogmark’ liggi að baki. Sama er um Brennhaug í Upplandi, þar sem í forlið er brenne (eða brenn) á nýnorsku, ‘avsvidd jordstykke’ (Norsk stadnamnleksikon (1980), 80).

Í Svíþjóð er bærinn Bränna sem merkir ‘svedjeland’ (Svenskt ortnamnsleksikon (2003), 396 (undir Överkalix)).

Í Danmörku er t.d. Brændegård á Suður-Fjóni þar sem forndanska orðið brænna ‘afbrændt område’ er í forlið (Dansk stednavneleksikon [3] (1983), 26).

Í Færeyjum er Brenna a.m.k. til samsett í nafninu Á Brennuliðanum en varla talið gamalt. Þar fannst aska í jörð (Christian Matras, Stednavne paa de færöske Norðuroyar (1933), 77).

Á Hjaltlandi er Brenwall á Sandnesi talið af Brennuhóll, af brenna ‘a burnt-off piece of land’ (John Stewart, Shetland Place-Names (1987), 142).

Birt þann 20.06.2018
Síðast breytt 20.03.2019