Skip to main content

Pistlar

Fjallið eina

Birtist upphaflega í júlí 2004.

Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi í Gull., fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna (Landið þitt I:200). (Mynd í Ólafur Þorvaldsson, Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir (1999), bls. 27, og kort á bls. 18).

2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði (Landið þitt I:200). (Kort í Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 84). Þór Vigfússon lýsir því svo í Árbókinni: „Fjallið eina (401 m) kúrir í móbergi sínu í nokkurri lægð þannig að það blasir ekki við víða. Er mun meiri feimnisbragur yfir því en hinu uppsperrta Geitafelli.“ (bls. 82).

3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gull. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: „Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.“ (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé „Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.“ (bls. 108). (Mynd á bls. 104). (Sbr. Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I:177–179 (1913)).

Hliðstætt nafn við Fjallið eina er Heiðin há í námunda við Fjallið eina nr. 2. Önnur hliðstæða er Hverinn eini, sem nefndur er í Vallaannál (Annálar I:452). Sagt er þar frá þjófum sem höfðust við undir skúta nokkrum á Selsvöllum upp af Grindavík. Í annálnum segir svo: „Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini.“ Í neðanmálsgrein segir útgefandi að eflaust sé réttara: „Hverinum eina (sbr. Fjallið eina, þar allskammt frá).“ (bls. 452nm). Þá er átt við Oddafellið en hverinn er við suðurenda þess. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir að Hverinn eini beri nafn af því að hann liggi “einn út af fyrir sig” (II:177) (1974). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir, að merkingin geti verið ‘sá frábæri, einstaki’ (bls. 113), en líklegust er merkingin ‘stakur, út af fyrir sig’.

Önnur hliðstæða er Eyin há í Mýrdal, sem nú heitir Pétursey, kennd við Pétur postula.
Í Færeyjum eru til mörg hliðstætt mynduð örnefni, t.d. Heyggjurin Eini (Christian Matras, Fjallið Mikla, Áin í Dal, Millum Fjarða og Urð Mans, í Greinaval – málfröðigreinir (Tórshavn 2000), bls. 299). Hann nefnir þar íslenskt dæmi, Hóllinn eini, en það hefur ekki fundist hér við eftirgrennslan. Í Orkneyjum er örnefnið Eynhallow (Eyin helga) en það nafn er einnig þekkt í Noregi (nú Helgöy). Á Hjaltlandi er einnig Papa Stour og Papa Little (Papey stóra og Papey litla) sem eru mynduð eins, þ.e. með eftirsettu lýsingarorði.

Myndun þessara örnefna á sér hliðstæðu í nafni fyrirtækisins Fjallið hvíta ehf. í Garðabæ.

Kvæði eftir Grétar Ó. Fells, Fjallið eina, sem birtist í ljóðabókinni Grös: ljóð og stökur 1946, á þó líklega ekki við neitt af áðurnefndum fjöllum.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023