Skip to main content

Frakka-örnefni

Birtist upphaflega í október 2006.

Orðið frakki getur merkt ‘yfirhöfn’, ‘myglað hey’, ‘stórgert hey', ‘lélegur gripur’, ‘ryðgaður hlutur’ og svo Frakki ‘maður í/frá Frakklandi’ (Íslensk orðabók, bls. 379). Orðið er til sem forliður nokkurra örnefna en ekki er vitað í hvaða merkingu það er hverju sinni. Örnefni eru a.m.k. þessi:

Frakkadalur er í landi Kletts og Seljalands í Gufudalssveit í A-Barð. Dalurinn gengur inn úr vestara horni Kollafjarðar. Þar var mikið heyskaparland. Þar hefur einnig verið bær, FrakkastaðirFrakkamýri er á Hjallahálsi í Gufudalssveit. Þar eru tjarnir með miklum gróðri. Nöfnin Frakkadalur og Frakkamýri eru kennd við Frakka Helgason í Þorskfirðinga sögu (Íslenzk fornrit XIII: 208).

Frakkanes Bær á Skarðsströnd í Dal. (Íslenzkt fornbréfasafn VII:244 (1495)).

Frakkavatn Ofan við Þykkvabæ í Rang. Heyskapur var stundaður við vatnið. Það var sagður mikill frakki í vatninu og á bökkum þess (Íslenzk fornrit XIII, formáli, bls. CXXII).

Hugsast getur að menn af frönsku þjóðerni hafi verið í Kollafirði og á Skarðsströnd en síður í Holtunum, þar sem merkingin ‘stórgert hey’ væri líklegri.

En Frakkar koma við sögu í örnefnum, þar sem þeir eru líka nefndir Fransmenn. Margir franskir sjómenn fórust hér við land eins og kunnugt er og eru örnefni dregin af legstað þeirra hér:

Fransmannahaugur er í Svalvogum í Dýrafirði, upp af Hjallatangavík.
Fransmannsleiði er á Búlandsnesi eystra.
Franskmanna- eða Franskmannskriki er í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd.

Þá er lýsingarorðið franskur í nokkrum örnefnum, aðallega vestanlands:

Franskaleiði er dys í Krossadal í Tálknafirði og
Franskur (upphlaðið leiði með krossi á) á Suðureyri við Tálknafjörð.
Franskabúð var torfbær á Eyrartúni í Skutulsfirði.
Franskur heita klettar á Sveinseyri við Tálknafjörð þar sem sagt var að lík af frönskum manni hafi rekið.
Franskavík er á Búðum í Eyrarsveit.
Franskimelur er síðan í Neskaupstað. Þar liggja franskir sjómenn.
Franskanef er og örnefni í landi Hamragarða undir V-Eyjafjöllum en óljóst af hverju það er dregið.

Líklegt er að fleiri örnefni séu í landinu sem vitni um veru franskra manna við landið og í því.

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Íslensk orðabók. 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík 2002.
Íslenzk fornrit XIII. Reykjavík 1991.
Íslenzkt fornbréfasafn. VII. Reykjavík 1903-1907.
Örnefnaskrár Örnefnastofnunar.

Síðast breytt 20.03.2019