Skip to main content

Gálma-örnefni

Birtist upphaflega í október 2003.

Nokkur örnefni með stofninum gálm- (upphaflega galm-) eru til á landinu eða við það. Fyrst er að nefna örnefnið Gálmursem er blindsker út frá landi Hafnar í Borgarfirði eystra í N-Múl. Þekktast er nafnið Gálmaströnd sem er a.m.k. á tveimur stöðum á landinu: 1) Í landi Þorpa við sunnanverðan Steingrímsfjörð í Strand. 2) Vesturströnd Eyjafjarðar milli Hörgár og Arnarnesvíkur, upphaflega Galmaströnd en Árni Magnússon og Páll Vídalín kalla hana Galmansströnd eða Kalemansströnd (Jarðabók X:113). Gálmatunga er grunn tungulaga lægð í landi Hafnar í Þingeyrarhr. í V-Ís. Í nöfnunum Galmagerði og Gálmastaðir, sem voru forn eyðiból undir Kambhóli í Eyjafirði, er orðið að finna, en í jarðabókinni eru þeir einnig nefndir Kalemansstaðir (X:116). Bærinn Kalmanstjörn í Höfnum í Gull. hefur líka borið nafnið Gálmatjörn eða Galmatjörn. Ekki er ljóst hvernig ber að túlka Kalman eða Kaleman í þessum nöfnum og er líklegt að átt sé við mannsnafnið Kalman sem síðari tíma aflögun gamla stofnsins galm-.

Merking nafnliðarins er ekki fullljós, en orðið gálm eða gálma kv. eða gálmi, gálmur kk. er til í merk. 'snurða á þræði', 'ójafna, bugða, geifla' 'hóll á vef' eða þvílíkt, og merking nafnsins Gálmaströnd þá e.t.v. 'óregluleg, bugðótt strönd'. Orðið er e.t.v. skylt gelmir í hellisnafninu Víðgelmir sem merkti þá 'hinn víði með afkimum og útskotum'.

Published On 20.06.2018
Síðast breytt 20.03.2019