Skip to main content

Pistlar

Kegs(is)-örnefni

Birtist upphaflega í nóvember 2003.

Nokkur örnefni á landinu hafa stofninn kegs- en óvíst er um ritháttinn, hvort eigi að skrifa kegs, keggs, keks eða kex. Nú verða nokkur þessara örnefna tilfærð.

Kex er grunnt skarð í fjallinu fyrir austan og ofan Horn í A-Skaft. og er farið um það í Lónið, alfaraleið milli Papóss og Horns. Fyrst er Papós, þar sem var kaupstaðurinn, þá Kastárdalur, þá Grænhjalli fremst á dalnum ytra megin, svo Kexbotn og úr honum Kexlækur. Þar er einnig Kexishamar.

„Tvær eyjar heita Keksneshöfði eða Keksnis- (á að vera Kexishöfði)“ (Örnefnaskrá Dilksness í A-Skaft.). Stefán Einarsson prófessor segir að Kexishöfði hljóti að standa í sambandi við Kexishamar á Horni og áðurnefnt Kex. Um þennan fjallveg orti einhver:

Átján hundruð áttatíu
eru nú og sex
má ég fara mína nýju
mjóu götu Kex.


Egill Benediktsson í Þórisdal kenndi Stefáni vísuna og það með að sagt væri: „Það er ansans kex upp á þennan hjalla.“ (Einkennileg örnefni í Austur-Skaftafellssýslu og Úthéraði. Handrit í Örnefnastofnun).

Orðið kex er ekki gefið í orðabókum í þessari merkingu en er líklega skylt so. kjaksa (kjagsa) ‘erfiða, vinna með erfiðismunum’, sbr. nýnorska kjaksa ‘hjakka, töggla, japla’.

Flest eru örnefnin þó í myndinni Kexir, þ.e. karlkyn eintölu og merkja oftast kletta eða höfða, en þó eru undantekningar, sbr. að Kexir er gamall skurður úr Bæjarvatni í Gaulverjabæjarhr. í Árn. sem liggur í Kleppsvatn á Loftsstöðum (Örnefnaskrá Gaulverjabæjar).

Klettur í fjallsbrún á merkjum Fremri-Bakka og Heimari- (Neðri-)Bakka í Langadal í Nauteyrarhr. í N-Ís. heitir Kexir og þar er einnig Kexisteigur. (Vestfirzkar sagnir III: 159 (1946)). Tvær grjóthæðir á Tyrðilmýri í N-Ís. hétu Hærri- og Neðri-Keggsir en þekkjast ekki lengur. Í Kaldalóni í landi Lónseyrar í Snæfjallahreppi í N-Ís., inn af Tófuurð og út og upp af Jökulgarði eru klettar háir, sem kallast Keggsir (sjá mynd). Þarna hefur myndazt gjá í hamravegginn og reyndar margar, en þar situr Keggsis-Sigga (Keggsa-Sigga) á bergsnös innan til í aðalgjánni, en trúlega er það kletturinn utan til við gjána, sem heitir Keggsir og lögun hans bendir til. (Örnefnaskrá.)

Keksisgil er í Krossadal í Tálknafirði. „Fyrir neðan Kinnar er gil, sem vatn rennur eftir, heitir það Keksisgil, það kemur úr dalverpi er skerst inn í heiðina og heitir Keksisdalur.“ (Örnefnaskrá Krossadals).

Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir örnefnið Keg(g)sir sem nafn á höfða eða múla undir orðinu kegill í orðsifjabók sinni (1989: 452) þar sem merking og uppruni sé óviss.

Í færeysku er orðið keksi hvk. í merkingunni ‘lítil rétt úti í haga til að ná fé í, kví í björgum’ og gæti það hugsanlega átt við um eitthvert þessara örnefna, en einnig í merkingunni ‘díki, mýri’ (Föroysk orðabók 1998:575).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023