Skip to main content

Kirkju-örnefni

Birtist upphaflega í desember 2002.

Nokkur örnefni sem hafa orðið kirkja sem nafnlið. Líking við kirkju er oftast ástæða nafnsins.

Álfakirkja
Þær eru fleiri en svo í landinu að tölu verði á komið.

Fjallkirkja
Hnúkur við Langjökul vestur frá Hrútfelli.

Kirkja
1) Hraunhvelfing í Dimmuborgum í Mývatnssveit í S-Þing.
2) Klettaborg í Elliðaey í Vestm.

Kirkjuburst Há fjallsnípa vestan Mælifellsdals í Skag. við Kiðaskarð á mörkum Skag. og A-Hún.

Kirkjufell
1) Hátt hamrafell við Grundarfjörð á norðanverðu Snæf., þunnt eins og saumhögg.
2) = Tröllakirkja vestan við Holtavörðuheiði.
3) Kistulaga líparítfjall við Landmannaleið í Rang.

Steinkirkja
1) Sérkennilegur hóll með helli undir á Óttarsstöðum í Garðahr., Gull.
2) Holt í Litla-Botni í Hvalfirði í Borg.
3) Tveir klettar á Giljum í Hálsasveit í Borg. = Steinkirkjur.
4) Klettaborg á Steinanesi í Suðurfjarðarhr. í V-Barð.
5) Rauður, fallegur steinn á Höfn í Þingeyrarhr. í V-Ís. Mótar líkt og fyrir hurðum á honum. Huldufólk hefur þar sínar athafnir.
6) Skörðóttur klettadrangi við Mjaðmá í landi Munkaþverár í Eyf. Þar var aðalaðsetur huldufólks og álfa.
7) Bær í Fnjóskadal í S-Þing.
8) Grasi gróinn klettaskápur á Eiríksstöðum á Jökuldal í N-Múl.
9) Klettur, líkur kirkju í laginu, í Borgarhöfn í A-Skaft.

Tröllakirkja
1) Tveir stakir klettar í Brekkukoti í Reykholtsdal í Borg. Þykir þar vera huldufólksbústaður og strokkhljóð þaðan daglegur viðburður.
2) Klettasvaði á Ökrum í Hraunhr. á Mýrum.
3) Lítil klettaborg í Einholti í Hraunhr. á Mýrum.
4) Hár hnúkur (862 m) á miðju Kolbeinsstaðafjalli í Snæf./Hnapp.
5) Næstum sívalur klettur, uppmjór og holur innan, austan við Dritvík á Snæf.
6) Sérkenileg klettaborg með turnum í Krossanesi í Eyrarsveit í Snæf.
7) Svipmikið fjall (1001 m) vestan við Holtavörðuheiði á mörkum þriggja sýslna, Mýr./Dal./Strand.
8) Fjall (1030 m) upp af Laxárdal á Skagaströnd, með hæstu hnúkum í fjöllunum milli A-Hún. og Skag.

Völukirkja
Klettur mikill á gömlu leiðinni milli Kirkjuferju og Arnarbælis í Ölfusi er nefndur Völukirkja. Kona frá Kirkjuferju sem þar var á ferð heyrði sungið inni í Völukirkju. Sálmversið nam hún og var það ekki í sálmabók hinnar íslenku þjóðkirkju. Í þjóðsögum er kletturinn nefndur Valakirkja. Þar er sagt að galdramessur hafi verið haldnar (Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1961) I:466).

Published On 20.06.2018
Síðast breytt 20.03.2019