Skip to main content

Pistlar

Kjöggur

Birtist upphaflega í júní 2003. Hallgrímur J. Ámundason bætti við efni í júlí 2012.

Örnefnið er í kvenkyni fleirtölu, Kjöggurnar, þekkt sem boði í mynni Berufjarðar í S-Múl. og er hann m.a. nefndur í lýsingum á vitunum á Kambanesi og Streitishvarfi (Ægir 1922:82). Í sóknalýsingu Hofs- og Hálssókna frá 1840 segir eftirfarandi: „Austur af Papey, skammt fyrir austan þar umgetinn Höfða, nefnist Steinbítsboði, aðrir fjórir boðar liggja út og austur af þessum boða, sá austasti og ysti kallaður Kjöggur, hér um bil ¾ mílu undan eynni, á honum er 10 til 12 faðma dýpi, en 60tugt dýpi í kringum.“ (Múlasýslur. Reykjavík 2000:544-545). Nafnið er líka þekkt á boða út af Melrakkanesi í Álftafirði (Uppdráttur Íslands (1:100.000) blað 105 Hamarsfjörður.). Einnig er Kjöggur nafn á ysta hólmanum af svonefndum Stekkhólmum, suðaustur úr Blábjörgum í Álftafirði (Uppdráttur Íslands (1:100.000) blað 115 Breiðdalsvík. - Örnefnaskrá Geithellna).

Uppruni nafnsins er óljós. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í orðsifjabók sinni (bls. 465) að það komi fyrir í örnefni um klettaröð en nefnir ekki hvar. Hann setur nafnið í sambandi við so. kjagga í merk. ‘kjaga’. Ekki er hinsvegar ólíklegt að það sé skylt færeysku kjøkur ‘ókyrrð í sjó, straumbára’.

[Í tímaritinu Ægi frá 1922 er minnst á Kjöggur í sambandi við mismunandi liti á vitaljósum. Á einum stað virðist orðið haft þar í kk.ef.et. Kjöggurs. Þetta tilfelli orðsins í Ægi er eina skrásetta dæmið í Ritmálssafni Orðabókar háskólans. 

Kjaggi og Kaggi eru tvímyndir sama orðsins. Það merkir 'lítil tunna'. Ekki er ólíklegt að sker og boðar sem eru sléttir og bogalaga að ofan minni á fljótandi tunnur. Hugsanlega er skýringanna á örnefninu að leita þarna. Kannski liggur kvk.-myndin *Kjagga að baki en mögulegt er líka að kk. sé eldra og grunnmyndin sé ættuð úr þgf.ft. Kjöggum. Sú mynd gæti auðveldlega getið af sér kvk.ft.-myndina Kjöggur.

Nafnið þekkist nú sem heiti á fyrirtæki; Kjöggur ehf. er útgerðarfyrirtæki á Stöðvarfirði.

Ferðafélag spyr: Hvað þýðir orðið Kjöggur?]

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023