Skip to main content

Pistlar

Kvenna-örnefni

Birtist upphaflega í janúar 2004.

Allmörg örnefni í landinu eru kennd við konur, en aðeins eins þeirra er getið í fornum ritum. Það er Kvennabrekka í Miðdölum, eða nánar tiltekið í Náhlíð, sem getið er í Króka-Refs sögu, en Króka-Refur var einmitt sagður þaðan. Sagan er talin vera frá 2. fjórðungi 14. aldar (Íslenzk fornrit 14:xxxvii). Jörðin hefur verið meðal betri bæja, úr því að þar var reist kirkja. Þar er fyrst getið um prest 1284, Eyjólf Halldórsson (Árna saga biskups, Íslensk fornrit XVII:119). Ekki er vitað um tildrög nafnsins, en sögn er um að á fyrri tíð hafi ungir menn iðkað íþróttir vestur á túninu. Þar voru sléttir, kringlóttir blettir umgirtir garði, Leikvellir, „en konur hafi setið í brekkunni fyrir ofan og horft á og bærinn hafi þaðan nafnið“ (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun). Örnefnið kemur fyrir á þremur öðrum stöðum á landinu, í landi Kálfaness í Strand., þar sem konur á Hólmavík héldu útiveislu í sambandi við Alþingishátíðina 1930; útiskemma á Víkingavatni í N-Þing. og brekkan ofan við bæinn í Ytri-Skógum í Rang., áður nefnd Bjallabrekka (Örnefnaskrár).

Annar bær í Dalasýslu er kenndur við konur, Kvennahóll (eldra Kvennahvoll, nú Sveinsstaðir) á Skarðsströnd. Hann er nefndur í Sturlungu (Sýslu- og sóknalýsingar Dalasýslu, 112). Engar sagnir eru um tildrög nafnsins en í hlíðinni beint upp af Kvenn(a)hólsbænum eru tveir stakir klettar, sem heita Grýluklettar (Örnefnaskrá Sveinsstaða). Það gæti bent til þess að sum Kvenna-örnefnin a.m.k. væru af sama toga og mörg Kerlinga-örnefnin, væru kennd við tröllkonur eða aðrar yfirnáttúrulegar kvenverur.

Auk þessara bæjanafna eru fáeinir Kvennagönguhólar í landinu:
1) Kvennagönguhóll og Orustuhóll á miðri Selvogsheiði í Árn. nefndir saman Kvennagönguhólar. (Mynd í Árbók Ferðafélags Íslands 2003:76).
2) Kvennagönguhóll í Viðey við Reykjavík. Ekki eru þekktar sagnir um nafnið.
3) Kvennagönguhólar í landi Minna-Mosfells í Grímsnesi í Árn.

Hólarnir á Selvogsheiði hafa verið tengdir sögum um konur sem þangað fóru og „ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness“ (Þjóðsögur Jóns Árnasonar II:56). Seinni tíma þjóðsögur telja að konurnar hafi verið að huga að mönnum sínum sem voru á sjó (Landið þitt Ísland IV:49). Auk þess er Kvennagönguskarð á Vogastapa en það er skarð fast vestan við Reiðskarð. Um Reiðskarð lá þjóðleiðin til Njarðvíkna og áfram.

Önnur Kvenna-örnefni sem þekkt eru, eru eftirfarandi, en lítið er um þau vitað og þeim að jafnaði ekki lýst í örnefnaskrám:

Kvennaklettur
Í Hítardal í Mýr. Hefur hann sennilega fengið þetta nafn af því, að hann hefur veitt konum athvarf, þegar verið var þarna á engjum og þær fóru erinda sinna (Örnefnaskrá).

Kvennaklif
Gata upp frá Kirkjubæjarklaustri í V-Skaft. Um þessa götu gekk kirkjufólkið af heiðarbæjunum niður að kirkjunni en skildi hestana eftir upp á heiðinni (Örnefnaskrá).

Kvennakór
Grasivaxinn hvammur í Vigur í N-Ís. Nýlegt nafn. Þar er líka Karlakór.

Kvennaskarð
Í Galtardal í Þingeyrarhr. í V-Ís. Skarð upp úr Galtardalsbotni sem liggur yfir í Tjaldanesdal. Þetta örnefni er einnig nefnt á Álftamýrarheiði, og er á aðalkorti (1:250 000) sýnt á milli Fossdals og Kirkjubólsdals.

Kvennaskáli
Hvammur eða hvilft á Breiðabólstað í Suðursveit í A-Skaft. Þegar konur voru á ferð milli Reynivalla og Breiðabólstaðar, fylgdu þær hvor annarri áleiðis og skildu í Kvennaskálanum (Örnefnaskrá). Líklegt er að upphaflega hafi örnefnið verið Kvennaskál.

Kvennastillir
Stór steinn á Tjörnum í Saurbæjarhr. í Eyf. Sú sögn er um hann, að einhvern tíma í fyrndinni hafi margt kvenfólk utan af bæjum verið að ríða í Tjarnarétt og hafi steinninn þá hrunið úr fjallinu, en við það hafi kvenfólkið orðið svo hrætt að það sneri við (Örnefnaskrá).

Kvennastöðull
Á Barmahlíð í Reykhólahr. í A-Barð. Þetta örnefni er á áningarstað ferðafólks og taldi Samúel Eggertsson það fremur nýlegt í örnefnaskrá sinni (frá f.hl. síðustu aldar).

Af þessu sést að Kvenna-örnefni eru talin tengjast þessa heims konum með ýmsum hætti, ferðum þeirra eða athöfnum en hugsanlega einnig handanheima konum, sbr. Grýluklettar ofan við Kvennahól.

Allar frekari ábendingar um Kvenna-örnefni eru vel þegnar.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023