Skip to main content

Ljá

Birtist upphaflega í júní 2009.

Ljá heitir á í Laxárdal í Dal. milli Ljárskóga og Búðardals. Hún er mjög lítil, rennur úr Ljárvatni og út í Ljárós og þornar næstum upp á sumrum. Sambærilegt árheiti í Noregi er Ljå í Ljådal, Ljåstad o.fl. Oluf Rygh áleit að orðið væri skylt lé kk. eða ljár kk. og væri átt við ljálaga farveg árinnar (NG XIV, 304; Norske elvenavne, 1904, 145–146). Finnur Jónsson tók í sama streng í Islandske elvenavne (Namn och Bygd 1914, bls. 19). Þorsteinn Þorsteinsson hélt því fram að merkingin væri 'Litlá', sbr. lébarn, lémagna (Árbók Ferðafélags Íslands 1947, bls. 44).

Sænskur fræðimaður, Gösta Franzen sem skrifaði um örnefni í Laxárdal, taldi að kenning um líkindi við ljá væri vafasöm. En hann kom með þá skýringartilgátu að nafnið gæti verið komið af fornísl. læ 'skaði, eyðilegging; svik'. Nafnið væri þá tilkomið vegna mikilla vorflóða í ánni sem flæddu yfir láglendið við ána og yllu þar skaða. Hann nefnir sænska og norska hliðstæðu við það, Thund (Þund í skáldamáli) (sbr. Jöran Sahlgren í Namn och Bygd 1959, bls. 26 o.áfr.). Gösta nefnir líka til samanburðar örnefnið Ósómi á Ingjaldssandi (Landnáma), forna árheitið Auðn(a) og norska örnefnið Meina (sbr. Gösta Franzen í Namn och Bygd 1936, bls. 286–287). Um nöfn lækja sem valda skaða, sjá Grímni 2, bls. 11–13. Áður fyrr hefur landið meðfram Ljá verið kjarri vaxið og nefnist þar enn Mörk. Gösta nefnir líka orðið ljá kvk. 'slegið gras‘ sem möguleika þar sem engjar séu oft meðfram ám (Laxdælabygdens ortnamn (1964), bls. 68). Að síðustu má nefna að nafnið Ljá gæti verið skylt orðunum löður og laug (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 568).

Ljárskógar.

Við Ljá er kenndur bærinn Ljárskógar (DI VI:272 (1480)) og fleiri örnefni. Ljáarklettur er einnig til sem örnefni á Núpi í Berufirði í S-Múl. en engin skýring er gefin á því í örnefnaskrá.

Hér hafa verið reifaðar ýmsar skýringartilgátur og virðist engin liggja í augum uppi. Helst hallast sá sem hér skrifar að því að það geti verið merkingin 'skaði, eyðilegging'. Má í því samhengi benda á goðsögulega árheitið Slíð, sem merkir e.t.v. 'hin grimma, harða', sbr. gotnesku sleiþs 'skaðlegur, illur'.

Birt þann 20.06.2018