Skip to main content

Pistlar

Mý-örnefni

Birtist upphaflega í október 2005.

Nokkur örnefni hafa Mý- að forlið frá fornu fari. Meðal þeirra er Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu (Landnámabók, Íslenzk fornrit I:274, 282, 284; Reykdæla saga. Íslenzk fornrit X). Ekki er vafi á að hvk.orðið  er í forlið enda vatnið þekkt fyrir rykmý sem þar lifir. Á fyrri öldum var höfð fleirtölumynd af Mývatni, þ.e. Mývötn, t.d. í fornu bréfi, sem skrifað var 1437: „juogum vit myuautn“ (í Vogum við Mývötn) (Islandske originaldiplomer, bls. 330) en í bréfum frá 15. öld er annars skrifað Mývatn. Í Alþingisbók frá 1573 er skrifað „Haganesi vid Mýuötn“ (I:153) og 1589 stendur: „j Haganesi. Er liggur undir Mývötnum j Skutustada kirkiusókn“ (Alþb. II:135). Frá 17. og 18. öld eru dæmi um flt.mynd nafnsins, síðast 1773 (Alþb. XV:368). Nafnið Mývatnshverfi verður ekki séð í yngri heimildum en Reykdæla sögu og elsta dæmi um Mývatnssveit er frá 1798, úr Lögþingisbókinni um jörðina Garð „liggjandi í Mývatnssveit“ (Alþb. XVII:397) og það heiti er tíðnotað í sýslu- og sóknalýsingunum frá um 1840. Skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hét hreppurinn Mývatn. (XI:222). Í sóknalýsingunum er talað um landamæri „milli Mývatns og Bárðardals“ (98) og „Reykjadalsheiði millum Bárðardals og Mývatns“ (156) eins og Mývatn sé sveitin.

Mýrdalur í Vestur-Skaftafellssýslu er alltaf nefndur Mýdalur í elstu heimildum (Landnámabók, Íslenzk fornrit I:326–327). Þórður Þorláksson biskup setti nafnið Middalur á Íslandskort sitt 1668, en Árni Magnússon skrifaði í athugagreinum sínum: „Mýrdalur halda menn sveitin heiti en eigi Mýdalur, af mýrum, sem þar nógar eru milli Reynisfjalls og Geitafjalls“ (Chorographica, bls. 30). Forn ritháttur sker hins vegar úr um að forliðurinn hefur verið hvk. mý en eftir að /ý/ féll saman við /í/, á 16. öld, hefur komið upp framburðurinn /mí-dalur/ sem leiddi af sér ritháttinn Middalur. Síðar kemur -r- inn í nafnið svo að úr verður Mýrdalur.

Annað Mýdals-nafn er í Landnámabók, Mýdalsá í Kjós (Íslenzk fornrit I:50–51, 56–57). Hún hefur runnið um þann dal sem nú heitir Miðdalur. Sama virðist hafa gerst og í Skaftafellssýslu nema að -r- hefur ekki komist inn í nafnið. Heimildarmaður örnefna segist kannast við framburðinn /mídalur/ en það hafi ekki verið venjulegt.

Bær einn í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu, Mýrdalur, var „almennilega kallaður Mydalur“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1709 (V:26).

Bær í Bolungarvík í N-Ís. var nefndur Mýdalur, „aðrir kalla Middal“ (1710) (Jarðabók Árna og Páls VII:151). Miðdalur er nafnið í Jarðatali Johnsens frá 1847, bls. 197.

Greinilegt er að nafnið Mýdalur hefur ekki fengið að vera óbreytt frá fornu fari og óvíst er um upphaf bæjanafnanna í Hnappadal og Bolungarvík, hvort um er að ræða Miðdal, Mýdal eða Mýrdal.

Mýnes er bær í Eiðahreppi í S-Múl. Önnur nafnmynd, Mýrnes, er kunn úr þjóðsögum (Jón Árnason IV:28) og úr sóknarlýsingu Eiðasóknar 1841 (Múlasýslur, bls. 286) en uppruni forliðarins er samt vafalítið hvk. mý.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alþingisbækur Íslands. I–XVII. Reykjavík 1912–1990.
Árni Magnússon, Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I,2. Reykjavík 1955.
Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók. XI. Kaupmannahöfn 1943.
Islandske originaldiplomer indtil 1450. Tekst. Udgivet af Stefán Karlsson. Editiones Arnamagnæanæ A7. København 1963.
Jarðatal á Íslandi. Gefið út af J. Johnsen. Kaupmannahöfn 1847.
Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. IV. Nýtt safn. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1956.
Landnámabók. Íslendingabók. Jakob Benediktsson gaf út. Íslenzk fornrit I. Reykjavík 1968.
Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874. Finnur N. Karlsson, Indriði Gíslason og Páll Pálsson sáu um útgáfuna. Reykjavík 2000.
Reykdæla saga ok Víga-Skútu. Björn Sigfússon gaf út. Íslenzk fornrit X. Reykjavík 1940.
Þingeyjarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1844. Reykjavík 1944.