Skip to main content

Pistlar

Skáld-örnefni

Birtist upphaflega í september 2008.

Nokkur Skáld-örnefni eru þekkt í landinu. Skulu nokkur þeirra helstu nefnd hér:

Skáldabúðir er bær í Gnúpverjahr. í Árn. Óvíst er um merkingu forliðarins en myndin Skollabúðir hefur líka verið til. Skollagróf og Skollhólar eru örnefni í landareigninni.

Skáldabúðaheiði. Atlaskort LMÍ.

Skáldabær er nefndur í Fitjaannál (C-gerð, skr. um 1728) sem bær í Álftaveri í V-Skaft. (Annálar II:188nm). Í jarðatali Johnsens 1847 og síðar er hann nefndur Skálmarbær.

Skáldagrímsdalur og Skáldagrímsfjall eru afdalur og fjall vestan Bjarnardals í Mosvallahr. í Önundarfirði í V-Ís. Þórhallur Vilmundarson taldi að nöfnin hefðu upphaflega verið kennd við skolla, sbr. Skolla-Grímsfjall í Hofsdal í Álftafirði, S-Múl. (Grímnir 2:123).

Skáldalækur er lækur og bær í Svarfaðardal í Eyf. Bærinn er nefndur í fornbréfi 1485 (DI VI:548 o. víðar).

Skáldá fellur niður frá Kolmúlanum í landi Kolmúla í Fáskrúðsfjarðarhr. í S-Múl. (Múlasýslur, bls. 401).

Skáldártunga er nefnd í Vilkinsbók frá 1397, máldaga kirkju í Kirkjubæ í Hróarstungu í N-Múl. (DI IV:219)

Skáldsey er í Skáleyjum á Breiðafirði. (Árbók Ferðafélagsins 1989:180).

Skáldskelmisdalur er nefndur í Landnámabók í Hvítársíðu í Borg. Ekki er nú vitað hvar hann var. (Landnámabók, bls. 81).

Að lokum eru tvennir Skáldstaðir: 1) Bær í Reykhólahr. í A-Barð. 2) Bær í Saurbæjarhr. í Eyf. Hann er nefndur Skallastaðir í meðkenningarbréfi frá 1446 (DI IV:678).

Skálsvatn er á Víðidalstunguheiði í V-Hún. Í landi Lauga í Hrunamannahr. í Árn. eru Skálsvötn. (Jarðabók 1709:261). Nöfnin gætu verið dregin af Skáldsvatn.

Forliðurinn skáld- getur í einhverjum tilvikum átt við skáld í merk. ‘poeta’, sérstaklega bæirnir Skáldstaðir, sem líklega hafa verið kenndir við skáld sem búið hafa þar. Hitt er ólíklegra að náttúrunöfnin séu kennd við skáld, en bæði orðin skolli og skalli koma til greina. Þau eru bæði til sem forliðir örnefna, Skallabúðir og Skollagróf, svo að dæmi séu tekin. Í þeim hefði þá orðið sams konar breyting á -ll- og varð í Kallaðarnes > Kaldaðarnes, Balljökull > Baldjökull o.fl. orðum. Langt /á/ í fornu máli líktist /o/ í síðari tíma máli svo að ruglingur gat orðið milli orðanna skáld- og skoll- á ákveðnu skeiði.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Annálar 1400–1800. I–VIII. Rvk. 1922–2002.
Árbók Ferðafélags Íslands 1989. Rvk.
DI = Íslenskt fornbréfasafn I-XVI. Kmh. 1857-Rvk. 1972.
Grímnir. Rit um nafnfræði 1–3. Rvk. 1980-1996.
Jarðatal á Íslandi. Gefið út af J. Johnsens. Kmh. 1847.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns I-XIII. Kmh. 1913-Rvk. 1990.
Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Rvk. 1968.
Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874. Rvk. 2000.
Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar.