Skip to main content

Vaglar

Birtist upphaflega í mars 2005.

Bæjarnafnið Vaglar er til á tveimur bæjum á landinu: 1) í Áshreppi í A-Hún., 2) í Blönduhlíð í Skag. Myndin Vaglir er höfð um 3 bæi: 3) í Glæsibæjarhr. í Eyf., 4) í Hrafnagilshr. í Eyf. (DI IV:711–712 (1447), (sjá mynd), og 5) í Fnjóskadal í S-Þing. sem Vaglaskógur er kenndur við. Einnig má nefna eyðibýlið Vaglir/Vaglar í Vindhælishr. í A-Hún. Þó má vera að fleirtölumyndirnar hafi verið á reiki, bæirnir hafi ýmist verið nefndir Vaglar eða Vaglir. Hér er sem sagt eingöngu um norðlenskt bæjarnafn að ræða. Orðið vagl getur merkt ‘raftur milli mæniása’, ‘stuttur bjálki’, ‘hanabjálki’. Í færeysku merkir orðið ‘hænsnaprik’ og sama er að segja um samsvarandi orð í öðrum norrænum málum. Í nýnorsku getur orðið merkt ‘gnæfandi klettur’. Það kemur fyrir í norskum örnefnum sem liggja hátt (Norske Gaardnavne I:208 og X:173). Sama er að segja um færeysk örnefni, t.d. Bólið á Vaglinum, þar sem átt er við stað sem liggur hátt (leiti) (Christian Matras, Stednavne paa de færøske Norðuroyar (1933), bls. 304). Bærinn á Vöglum í Fnjóskadal stendur hátt og sama er að segja um Vagla í Blönduhlíð og á Þelamörk. Margeir Jónsson fræðimaður á Ögmundarstöðum taldi að upphaflega hefði orðið *vagall, sem er annars óþekkt, verið í nafninu og merkt ‘slá í rjáfri húss’ (Heimar horfins tíma, 218–219). Ekki er ósennilegt að hjallar í landslagi hafi leitt af sér nafnið Vagla, þar sem hjalli merkir ‘sylla í fjallshlíð’ (Sjá nánar Arnold Nordling í Namn och Bygd 1933, bls. 33-38, og Þórhallur Vilmundarson í Grímni 3:124–127).

Published On 20.06.2018
Síðast breytt 20.03.2019