Skip to main content

Oft er haft á orði að Íslendingar eigi sér litla sem enga hefð í myndlist. Myndskreytingar í íslenskum miðaldahandritum og myndirnar í íslenska miðaldahandritinu Teiknibókinni í Árnasafni (AM 673a III 4to) taka af öll tvímæli um að slíkar fullyrðingar standast engan veginn.

Á sýningunni er stækkað myndefni úr handritinu ásamt skyldum handritalýsingum og öðru samanburðarefni, jafnt innlendu sem erlendu, sem varpar óvæntu ljósi á íslenska miðaldamyndlist og með nútímasýningartækni er almenningi kynnt þessi menningararfleifð okkar á skilvirkan og áhugaverðan hátt. Hannaðar hafa verið nákvæmar eftirlíkingar af sjö síðum úr Teiknibókinni auk tveggja síðna úr Physiologus, myndskreyttu náttúrufræðiriti frá um 1200, og eru þessar fádæma vel unnu eftirgerðir á sýningunni.

Teiknibókin er einstæð meðal íslenskra handrita og eina handrit sinnar tegundar sem varðveist hefur á Norðurlöndum. Það geymir nánast eingöngu myndefni og var notað sem vinnubók og fyrirmyndasafn listamanna frá 14. öld og fram á 17. öld við gerð ýmisskonar listaverka af kristilegum toga. Meðal efnis í bókinni eru myndraðir um sköpunina, úr ævi Maríu og píslarsögu Krists. Þar eru einnig allmargar Maríu- og dýrlingamyndir og ýmis önnur minni sem hvergi eru varðveitt annars staðar í íslenskri miðaldalist. Handritið er skert en 22 blöð eru varðveitt og mörg hver afar illa farin.

Teiknibókin er ein af fáum teiknibókum frá miðöldum sem varðveist hafa í Evrópu og sú eina á Norðurlöndum. Fyrirmyndir Teiknibókarinnar varpa einstæðu ljósi á íslenska trúarlist og hugarheim miðalda og óhætt að fullyrða að hvergi sé samankomið efni á einum stað sem veitir jafn ríkulega innsýn í trúar- og kirkjulist hins kaþólska siðar á Íslandi.

Íslenska teiknibókin hefur alþjóðlega skírskotun og menningargildi vegna þess hversu fágætar miðaldateiknibækur eru. Útgáfa hennar mun vekja áhuga utan Íslands og niðurstöður rannsóknar Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings eru þýðingamikið innlegg í alþjóðlega umræðu um fyrirmyndabækur á miðöldum.

Íslenska teiknibókin hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2013 í flokki Fræðibóka og rita almenns efnis.