Skip to main content

Pistlar

Að sækja björg í björg: Örnefni í lóðréttu landslagi

Margir þekkja örnefni best af kortum eða loftmyndum. Þau gera manni kleift að bera kennsl á tiltekna staði eða fyrirbæri í landslagi, meta afstöðu milli þeirra og sjá fyrir sér og upplifa aftur ferðalög, atburði eða sagnir sem tengjast þeim. Sumir staðir eru þó þannig að venjuleg kort komast hvergi nærri því að fanga landslagið og aðeins örfáir ná að upplifa það í návígi. Þar á meðal eru fuglabjörg sem steypast þverhnípt niður í sjó og eru fáum fær nema fuglinum fljúgandi – lóðrétt landslag. Meðal frægustu fuglabjarga hér á landi er Látrabjarg en það er hluti af hinum mikla berglagastafla sem nær allt frá Keflavík í austri að Bjargtöngum í vestri. Líkt og mörg önnur fuglabjörg gegndi það mikilvægu hlutverki í lífsafkomu fólks vegna eggja- og fuglatekju og mörg örnefni sem tengjast hinum háskalegu bjargferðum, sem nú eru að mestu liðnar undir lok, eru varðveitt í örnefnalýsingum. Það hefur varðað líf eða dauða fyrir sigmenn (eða sigara eins og þeir voru stundum kallaðir) að draga upp mynd af bjarginu í huganum áður en þeir hurfu fram af brúninni í þar til gerðum vað sem gat verið úr hampi eða nautshúð. Þar hafa örnefnin komið að góðu gagni.

Hluti korts eftir Samúel Eggertsson af Rauðasandshreppi, gert á árunum 1906–1908. Í vörslu örnefnasafns.

Samfelldar örnefnalýsingar geta verið gagnlegar til að átta sig á samhengi örnefna á tilteknu svæði og á það sérstaklega vel við um björgin þar sem erfitt getur verið fyrir leikmann að setja sig í spor sigara. Ágætt dæmi um þetta er lýsing Hvallátra eftir Ara Gíslason en aðalheimildamaður hans var Daníel Eggertsson. Þar er því lýst hvernig mörg örnefni bjargsins tengdust tilteknum höldum en hugtakið er yfirleitt notað um staði sem sigið var frá. Þau gátu gengið undir ýmsum nöfnum. Úr Miðlandahilluhaldi var til dæmis sigið á Miðlandahillu. Á Bringnum var hald og þaðan sigið á Bringshillur; af Hrútanefjum var sigið á Hrútanefjahillu og farið í Hrútanefjaþræðinga; og úr Kálfaskor var sigið í Lofthillu og Jötunsaugu. Augu þessi eru tveir samhliða hellar með hafti á milli sem minna á galtómar augnatóftir séð frá hafi. Þannig geta örnefnin tengst ólíkum sjónarhornum. Hillur eru, eins og nafnið bendir til, syllur í bjarginu þar sem fuglinn verpir og Lofthilla heitir svo vegna þess að þangað var mest loftsig í Látrabjargi, alls um 40 faðmar þar sem bjargbrún slútir fram yfir bergið svo að sigmaður hangir í lausu lofti og kemur hvergi nærri stálinu. Fleiri bjargörnefni lýsa aðferðinni við að komast á staðinn; þannig eru á nokkrum stöðum -lásar, t.d. Kötlulás eða Kötluhillulás utan í Bjarnanúpi austan Látra. Lásar voru fremur stuttar og einfaldar sigleiðir þar sem sigmaður gat sjálfur rennt sér eftir vað í „lás“, þ.e. hafði vaðinn milli fóta sér, brá endanum undir annað lærið og hélt við hann. Í lengri sigum þurfti mun meiri viðbúnað – allt að 8–10 manns á bjargbrún. Víða eru örnefni líka til vitnis um að klöngrast hafi verið í björg án vaðs en þá þræddu menn syllur og smástíga. Dæmi um þetta er Stígur, leið sem var farin úr Geldingsskorardal niður á svonefnda Hellu og Þórðarbrandshöfðahillu í Bæjarbjargi austan Látrabjargs.

Vaðbyrgi nærri brún Látrabjargs, skammt austan við Kálfaskor.
Birna Lárusdóttir / Fornleifastofnun Íslands.

Yfirleitt eru örnefni ein til vitnis um bjargferðir á sjálfu bjarginu en frá þessu eru þó örfáar undantekningar. 

Skammt frá Kálfaskor eru t.d. enn vel varðveittar leifar af hlöðnu byrgi þar sem vaðurinn var geymdur milli siga – merkilegur minnisvarði um lífshætti horfinna kynslóða, að sækja björg í björg.

 

Titillinn er sóttur í eftirfarandi vísu: 

Mörgum manni bjargar björg,
björgin hressir alla
en að sækja björg í björg
björgulegt er varla.

(sjá Braga, óðfræðivef)

 

Birt þann 26. ágúst 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Örnefnalýsing Breiðavíkurbjargs og Saurbæjabjargs. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Örnefnalýsing Hvallátra. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sjá: https://nafnid.is/ornefnaskra/13895