Skip to main content

Pistlar

Almanak að austan — Tröllkonurím AM 470 12mo

Um aldir hefur hugtakið rím verið notað á Íslandi yfir tímatöflur eins og þá sem er meginefni þessa handrits. Þar er skráð hvernig dagar ársins skiptast á mánuði og gerð grein fyrir messudögum helgra manna og kvenna. Slík rímtöl voru klerkum nauðsynleg svo að þeir gætu haldið lögboðna helgidaga kirkjunnar í heiðri, en sömu töflur var hægt að nota ár eftir ár og jafnvel öldum saman.

Rímtalið er skráð báðum megin á fjórar samansaumaðar skinnræmur sem mynda renning, 5,5–6,3 cm að breidd og 117 cm að lengd, og sýna alla mánuði ársins – utan síðustu viku júlímánaðar sem hefur tapast af fjórða skinnbútnum. Á eftir almanakinu tekur við talbyrðingur, það er páskatafla, með yfirskriftinni: „Með þessum talbyrðingi má finna páskadag, hvítasunnu og sjövikna föstu inngang á hverjum degi mánaðar hvert [...]“.

„Rím rollan“, eins og Árni Magnússon kallar handritið, var skrifuð um eða laust fyrir 1600. Hún er orðin afar blökk og blettótt af mikilli notkun. Skinnið er lint – ólíkt því sem almennt einkennir stinn skinnblöð miðaldahandrita – áferðin mjúk og flauelskennd og fer renningurinn vel í hendi.

Rithöndin er læsileg og fáguð og textinn skýr allt þar til á síðasta skinnbútnum þegar tímatalstöflunni lýkur; þar má greina samfelldan texta, máðan og illlæsilegan. Skriftin á renningnum er ungleg gotnesk settaskrift, blekið móbrúnt og matt en skrifarinn sem hélt um fjöðurstafinn er óþekktur. Á ljósan hörpappírsrenning frá um 1710, sem fylgir handritinu og er skemmtileg stæling á því, skrifar Árni – þá staddur í Skálholti – meðal annars:

„Þessa Rím rollu hefi ég 1705 í Martio [þ.e. mars] fengið frá sýslumanninum Jóni Eyjólfssyni. Ég sýndi hana Jóni Péturssyni skólapilti, bróður sr. Þorvarðs á Þingeyrum, og meinti hann það væri það sama pergament sem sr. Þorvarður Pétursson tekið hefði þar eystra, og kallað hefði verið Tröllkonu-rím og hefði þá Jón Eyjólfsson fengið það af sr. Þorvarði.“

Ætla má að renningurinn hafi verið í bókakistum Árna ásamt öðru handritagóssi þegar hann sigldi frá Keflavík til Kaupmannahafnar 10. september árið 1705.

Skýringu á heitinu Tröllkonurím er að finna í þjóð- og arfsögnum. Í stuttri samantekt á einni sögninni segir m.a. að einhvern tímann í fyrndinni hafi svo óheppilega viljað til eitt árið að biskupinn á Hólum hafi ruglast í ríminu og steingleymt hvenær jólin skyldi halda. Til þess að bæta þar úr var sendimaður fenginn til að fara suður yfir Sprengisand til fundar við biskupinn í Skálholti og komast að hinu rétta. Á leiðinni hittir hann tröllkonu sem undrast erindið, læst vera hlessa og mælti:

„Ef hann Kristur litli Máríu son hefði gert annað eins fyrir okkur tröllin eins og þið mennirnir segið að hann hafi unnið fyrir ykkur, þá hefðum við ekki gleymt fæðingardeginum hans.“

Að því mæltu tók hún til skinntuðru sem hún bar á sér og dró upp úr henni kver eitt lítið, réttir það sendimanni og telur þarflaust fyrir hann að fara í Skálholt. Hann skuli aftur á móti snúa við og færa Hólabiskupi kverið og verður á orði að trauðla muni biskup ruglast í jólahaldi framvegis eftir að hafa lesið og lært efni þess – og þar á meðal íslenskt tímatal (rímtal) í vísnaformi. Var hér komið hið nafnkennda Tröllkonurím.


Að stofni til er pistillinn byggður á grein eftir undirritaða sem birtist í bókinni 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar (útg. 2013) en fengið hér umtalsverða yfirhalningu.

Birt þann 27. september 2019
Síðast breytt 24. október 2023