Skip to main content

Pistlar

Feðraveldið í borgarlandslaginu

Samkvæmt „Global Gender Gap“ skýrslunni frá World Economic Forum í mars á þessu ári var Ísland efst á lista heimsþjóða varðandi jafnréttismál í 12. sinn. Þrátt fyrir það er baráttunni ólokið, ekki síst t.d. hvað varðar stöðu kvenkyns innflytjenda með tilliti til jafnréttismála og kjara þeirra í íslensku samfélagi. Umræður tengdar metoo-hreyfingunni krefjast réttilega áframhaldandi athygli fólks en vissulega er enn þörf á því að kanna sögulega og samfélagslega þætti sem hafa niðrandi áhrif á konur svo og á minnihlutahópa.   

Í borgum víða um heim er til að mynda mjög algengt að borgarlandslagið (e. „urban landscape“) endurspegli á ýmsan hátt ójafnvægið milli karla og kvenna. Reykjavík er engin undantekning hvað þetta varðar. Styttur af karlmönnum (sér í lagi af landnámsmönnum), oftast gerðar af karlkyns listamönnum, er að finna á áberandi stöðum. Ingólfur Arnarson á Arnarhól og Leifur Eiríksson fyrir framan Hallgrímskirkju gnæfa yfir þeim sem þar fara um vegna stærðar, staðsetningar og líkamsstellingar þeirra. Eina styttan af landnámskonu sem finna má í borginni heitir bara „Landnámskonan“ en þessi ónafngreinda og berfætta kona (eftir Gunnfríði Jónsdóttur, reist árið 1955) stendur á lágum stöpli í Hljómskálagarðinum og vekur litla athygli. Það kæmi á óvart ef ferðamenn tækju eftir henni, hvað þá að þeir myndu stoppa og stilla sér upp fyrir myndatöku með henni.

Götuheiti segja svipaða sögu. Af þeim 22 götunöfnum í miðbæ Reykjavíkur sem vísa í persónur Íslendingasagna eru bara fjórar götur kenndar við konur. Þessar götur eru: Auðarstræti (eftir Auði djúpúðgu í Laxdælu), Bergþórugata (eftir Bergþóru Skarphéðinsdóttur í Njálu), Guðrúnargata (eftir Guðrúnu Ósvífursdóttur í Laxdælu) og Hrefnugata (eftir Hrefnu Ásgeirsdóttur í Njálu). Útskúfun Hallgerðar langbrókar í þessu samhengi er æpandi, ekki síst þar sem hún samkvæmt Njálu átti jörðina Laugarnes í (núverandi) Reykjavík og settist þar að eftir fráfall Gunnars á Hlíðarenda. Munnmæli herma að þar hafi verið Hallgerðarleiði – og þó að staðsetning þess hafi verið umdeild er líklegt að reiturinn (eða a.m.k. blettur sem var kenndur við Hallgerði) hafi verið ruddur þegar vegamót Sæbrautar og Klettagarða voru endurgerð. Þetta hefði verið óhugsandi ef um karlkyns landnámsmann hefði verið að ræða – og bletturinn væntanlega verið friðlýstur. Sama mynstur má sjá á götuheitum í Þingholtunum sem vísa í goðin. Göturnar eru 15 og af þeim eru þrjár kenndar við gyðjur (þ.e.a.s. Freyjugata, Sjafnargata, Nönnugata), ásamt Urðargötu sem heitir í höfuð á örlaganorninni.      

Sem betur fer er verið að reyna að breyta þessu ójafnvægi, eða a.m.k. að hluta til og tækifæri til þess oft gripin þegar ný íbúðahverfi rísa. Sem dæmi um það má nefna íbúðahverfið í Úlfarsárdal í Grafarholti sem er kennt við gyðjur. Aðeins seinna, árið 2010, var samþykkt að breyta götunöfnum Skúlagötu (austurhluta hennar), Höfðatúni, Skúlatúni og Sætúni í Bríetartún, Katrínartún, Guðrúnartún og Þórunnartún (sjá hér).

Og loksins fær Hallgerður að láta sjá sig á sínum heimaslóðum en ný gata í Laugarneshverfi í Reykjavík heitir einmitt Hallgerðargata. 

 

 

 

Birt þann 5. nóvember 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Anna Lísa Guðmundsdóttir. 2003. Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar. Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn: Skýrsla nr 103. https://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/skyrsla_103.pdf

Jón Karl Helgason. 1999. „Intersections. Njáls saga and Urban Development“. Í bók hans The Rewriting of Njáls saga. Multilingual Matters Ltd.

Matthías Þórðarson. 1921. „Hallgerðar-leiði í Laugarnesi.“ Morgunblaðið 8. september 1921, bls. 2.

Weidenmuller, Emily, Taylor Williamson, Courtney Leistensnider og John C. Finn. 2015. „History Written in Stone. Gender and the Naturalizing Power of Monuments in Southeastern Virginia.“ Southeastern Geographer 55(4): 434-58.

Zuvalinyenga, Dorcas og Liora Bigon. 2020. „Gender-biased Street Naming in Urban Sub-Saharan Africa: Influential Factors, Features and Future Recommendations.“ Journal of Asian and African Studies 56(3): 589-609. https://doi.org/10.1177/0021909620934825