Skip to main content

Pistlar

Nöfn og aftur nöfn

Greinin byggist á fyrirlestri sem haldinn var í Öskju á vegum Nafnfræðifélagsins 18. mars 2010.

 

Rannsóknir á eiginnöfnum hafa hérlendis einkum verið í höndum áhugamanna. Þar má á síðari áratugum nefna Gísla Jónsson menntaskólakennara á Akureyri sem skrifaði fjölda greina í ýmis blöð og tímarit á árunum 1989 til 2001, einkum um nöfn í manntölunum frá 1703 til 1845. Sjálf hef ég birt allnokkrar greinar og við Sigurður Jónsson frá Arnarvatni skrifuðum saman bókina Nöfn Íslendinga sem kom út 1991. Gott yfirlit yfir skrif um nafnfræði má fá á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ef farið er á ,,Nafnfræði“ og þar smellt á ,,Ritaskrá“. Þá birtist ítarleg ,,Skrá yfir rit um íslenska nafnfræði“.

Nafnfræði er ekki föst kennslugrein við Háskóla Íslands eins og hún ætti að vera og eins og vel þekkist í nágrannalöndunum. Við Svavar Sigmundsson höfum kennt örfá námskeið með einhverra missera millibili sem ekki nægir til þess að ýta undir stúdenta til að kynna sér fagið betur. Það er afar bagalegt því að allar fræðigreinar þurfa á nýliðun að halda til þess að rannsóknir haldi stöðugt áfram.

Nafnfræði er vaxandi fræðigrein erlendis. Nýlega fékk ég fregnir af því að nú sé boðið upp á mastersnám í nafnfræði við háskólann í Leipzig í Þýskalandi. Þar er starfrækt þjónusta við almenning sem haft getur samband og beðið um skýringu á eiginnafni, eftirnafni eða örnefni. Svarendur eru nafnfræðingar og stúdentar sem komnir eru áleiðis í faginu og berast um 1600 fyrirspurnir á mánuði víða að úr heiminum. Menn setja ekki fyrir sig að borga 80 evrur, um 15.000.- íslenskar krónur, fyrir svarið sem þá er vandað og stutt bestu fáanlegum heimildum.

Það er vandi að velja barni nafn sem því er ætlað að bera alla ævi. Nýlega var gerð nafnlaus könnun á vegum háskólans í Oldenburg í Þýskalandi þar sem 2000 grunnskólakennarar voru spurðir hvort nöfn barna hefðu áhrif á viðhorf þeirra til barnanna og námsgetu þeirra. Í ljós kom að svo er í meira mæli en nokkurn grunaði. Ef stúlka ber t.d. nafnið Angelina eða Jaquelin eru gerðar minni væntingar til hennar í námi en ef hún heitir Hanna, Charlotta eða Sophie. Alexander og Maximilian eru mun betur staddir en t.d. Kevin, Justin og Dennis að ég tali nú ekki um aumingja Adolf. Þessi könnun, sem mun vera hin fyrsta sinnar tegundar í Þýskalandi, hefur vakið mikla athygli þar og í þýskumælandi löndum eins og Austurríki og Sviss. Engin könnun af þessu tagi hefur verið gerð hérlendis en óneitanlega væri forvitnilegt að sjá hvaða niðurstöður kæmu úr slíkri könnun. Nafnaforðinn hefur óneitanlega tekið talsverðum breytingum á síðustu áratugum.

Undanfarin þrjú ár hef ég unnið að endurskoðun á og viðbótum við Nöfn Íslendinga og er ein að því að þessu sinni þar sem Sigurður Jónsson sá sér ekki fært að koma að verkinu með mér. Þessu verki er nú að mestu lokið og er það komið til útgefanda í yfirlestur. Rúm 18 ár eru frá því að bókin kom út og mörg ný nöfn hafa verið valin á börn með samþykki mannanafnanefndar. Samkvæmt nýjustu tölum voru í gömlu bókinni rétt tæpar 4000 flettur en í þeirri nýju eru þær rétt rúmlega 6000. Hér á eftir mun ég segja stuttlega frá helstu breytingum sem verða á bókinni. Ég mun síðan ræða um nokkrar breytingar á nafnaforðanum og að lokum mun ég ræða um nöfn sem mannanafnanefnd ýmist samþykkti eða hafnaði á árinu 2008.

Stofninn í bókinni er hinn sami og 1991 en talsvert hefur bæst við af nöfnum á tæpum tveimur áratugum sem unnið var með á sama hátt og áður. Farið var yfir allar eldri greinar og þær lagfærðar og leiðréttar eftir þörfum. Flestar greinarnar frá 1991 eru því eitthvað breyttar, sumar talsvert, og eru allar breytingar og viðbætur á mína ábyrgð. Nú eru t.d. tiltækar betri heimildir til að styðjast við, einkum rafrænar skrár Þjóðskrár og Þjóðskjalasafns Íslands, og fjöldi nafnbera er því áreiðanlegri en áður. Einnig höfðu borist í áranna rás viðbótarheimildir frá notendum, einkum um samsett nöfn, sem ég nýtti mér.

Við val á nöfnum gildir svipuð aðferð og 1991. Tekin eru með þau nöfn sem fundust í aðgengilegum manntölum á vef Þjóðskjalasafns og öll nöfn sem ég hef rekist á eða mér verið bent á af notendum fyrstu útgáfu, t.d. nöfn sem lent höfðu milli manntala. Áhersla var lögð á að hafa með öll nöfn sem voru á mannanafnaskrá 1. janúar 2009 og öll nöfn á skrá um millinöfn frá sama tíma. Á mannanafnaskrá voru fyrir um áratug samþykkt allmörg nöfn úr fornum heimildum sem ekki virðast hafa verið notuð síðar og ekki hafði sérstaklega verið óskað eftir. Öll þessi nöfn eru með í bókinni af fyrrgreindri ástæðu en nokkur nöfn voru felld brott úr bókinni sem aðeins komu fyrir í fornritum, engar heimildir fundust um að endurvakin hefðu verið og ekki voru á mannanafnaskránni. Til nýjunga telst að sérstakt merki verður við öll nöfn í bókinni sem eru á mannanafnaskrá og sömuleiðis annað merki við þau sem eru á skrá yfir millinöfn.

Í fyrri útgáfu Nafna Íslendinga var aðeins sýnd beyging aðalmyndar ef ritmyndir voru fleiri en ein. Eins og sjá má af mannanafnaskrá hafa ýmsar hliðarmyndir fjölmargra nafna verið samþykktar og því taldi ég eðlilegt að beyging þeirra væri einnig sýnd. Sem dæmi mætti nefna að undir flettunni Soffanías er einnig fjallað um myndirnar Sóphanías, Sófonías, Soffónías, Sófanías, Sófónías, Zophanías, Zophonías, Zóphonías, Zóphanías og Zófónías. Hver um sig stendur þó sem sjálfstætt flettiorð á sínum stað í stafrófinu þar sem beygingin er sýnd. Ef fleiri en ein beygingarmynd er viðurkennd (t.d. Haralds/Haraldar, Þorbjörns/Þorbjarnar, Ingileif/Ingileifu) eru báðar tilgreindar. Ef um millinafn er að ræða beygist það ekki í kvenkyni en aftur á móti í karlkyni í eignarfalli. Beygingarendingin er því sýnd með s-i í sviga, t.d. Guðrúnar Hafnfjörð Jónsdóttur og Jóns Hafnfjörðs Guðmundssonar.

Öll eiginnöfn á að fallbeygja samkvæmt íslenskum beygingarreglum óháð því hvort þau eru notuð sem einnefni eða fyrra eða síðara nafn af tveimur, t.d. í eignarfalli Ragnheiðar Sifjar, Ólafar Óskar, Helgu Ýrar, Péturs Gunnars, Einars Páls, ekki Ragnheiðar Sif, Ólafar Ósk, Helgu Ýr, Pétur Gunnars, Einar Páls eins og oft heyrist.

Talsvert hefur verið samþykkt af hliðarmyndum karlmannsnafna án endingar í nefnifalli og mörg voru til í málinu fyrir daga mannanafnaskrár. Má þar nefna Ásberg, Friðberg, Hallfreð, Hólmfreð við hlið Ásbergur, Friðbergur, Hallfreður og Hólmfreður. Til að aðgreina nöfnin var farin sú leið, eftir að málið hafði verið rætt á fundi á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (13. maí 2009), að mæla með því að þau nöfn sem eru án endingar í nefnifalli verði einnig endingarlaus í þágufalli en fái endingu í eignarfalli:

Ásbergur – Ásberg – Ásbergi – Ásbergs
Ásberg – Ásberg – Ásberg – Ásbergs

Eins og Ásberg eru í bókinni beygð öll karlmannsnöfn sem eru endingarlaus í nefnifalli.

Þegar bókin Nöfn Íslendinga kom út var óheimilt að nota millinöfn. Í III. kafla laga um mannanöfn nr. 45/1996, sem tóku gildi 1. janúar 1997, kemur m.a. fram að heimilt er að gefa barni eitt millinafn auk eiginnafns þess eða eiginnafna. Millinafn má hvort heldur er gefa stúlku eða dreng. Það skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
Reynslan sýnir að afar margir rugla saman eiginnafni og millinafni, sem heimilt er samkvæmt lögunum frá 1996, og telja að millinafn sé síðara eiginnafn af tveimur eða þremur. Fyrir gildistöku laga um mannanöfn nr. 37/1991 eru allmörg dæmi þess að menn fengu millinafn þótt það samræmdist ekki lögunum.

Samkvæmt gildandi lögum ber Jón Gunnar Sigurðsson tvö eiginnöfn og kenninafn, Jón Hafnfjörð Sigurðsson ber eiginnafn, millinafn og kenninafn og Jón Gunnar Hafnfjörð Sigurðsson ber tvö eiginnöfn, millinafn og kenninafn. Í báðum síðari tilvikunum er ekki gert ráð fyrir að Hafnfjörð sé gamalt eiginnafn.

Millinafn, sem samþykkt hefur verið af mannanafnanefnd, er fært á skrá yfir millinöfn. Frá því að lögin voru samþykkt og til ársloka 2008 hefur nefndin fallist á 118 millinöfn en hafa ber í huga að fleiri en einn nafnberi er stundum að baki hverju nafni, bæði konur og karlar, þótt oftast muni hann vera einn.

Af þessum 118 nöfnum falla sautján í flokkinn einkvæð nöfn. Þau eru Áss, Bald, Ben, Bjarg, Brim, Dan, Falk, Gnarr, Gnurr, Gull, Har, Ljós, Stein, Storm, Val, Vald og Þor. Eitt þeirra, Dan, getur einnig verið bæði eiginnafn og ættarnafn.

Þrettán nöfn teljast til viðskeyttra nafna. Viðskeytið -an er langalgengast og eru ellefu nöfn á skrá sem mynduð eru á þann hátt. Þau eru: Aldan, Austan, Diljan, Elvan, Giljan, Hrafnan, Knaran, Knarran, Liljan, Seljan og Sólan. Með viðskeytinu -ling er myndað nafnið Yngling.

Samsett millinöfn eru 88. Síðari liðir eru sextán: -bekk, -berg, -dal, -feld, -fell, -fells, -fjörð, -hlíð, -holt, -hólm, -kvist, -land, -mann, -nes, -teig og -vík. Langflest nöfnin hafa fengið endinguna -dal eða 26. Næst koma nöfn sem enda á -berg. Þau eru fimmtán en þrettán enda á -fjörð. Aðrir liðir koma mun sjaldnar fyrir. Samsettu nöfnin eru flest sótt til náttúrunnar eða til örnefna sem þeim, sem fyrstir völdu nöfnin, voru sennilega tengd á einhvern hátt. Þannig er því til dæmis farið með mörg nafnanna sem enda á -dal eða -fjörð.

En ýmis vandkvæði fylgja millinöfnunum, sem menn ef til vill sáu ekki fyrir. Fyrir kemur að sama nafn er á mannanafnaskrá og millinafnaskrá: Þessi nöfn enda flest á -berg og eru Arnberg, Hildiberg, Línberg og Steinberg.

Eiginnafn Millinafn
Arnberg Arnberg
Hildiberg Hildiberg
Línberg Línberg
Steinberg Steinberg

Tvö önnur nöfn má nefna til viðbótar: Áss og Dan. Í síðara tilvikinu getur Dan verið eiginnafn, millinafn og ættarnafn eins og áður var bent á. Óheppilegt er að nöfn með síðari liðnum -berg séu bæði skráð sem eiginnöfn og millinöfn þegar um karlmann er að ræða. Nafnið Jón Arnbergur Sigurðsson er í eignarfalli Jóns Arnbergs Sigurðssonar. Það er líka nafn Jóns Arnbergs Sigurðssonar ef Arnberg er eiginnafn. Ókunnugir vita ekki hvort Jón heitir Arnbergur eða Arnberg að eiginnafni og vandinn eykst ef Arnberg er millinafn og s-endingin í eignarfalli er notuð á millinöfn.

 

Beyging millinafna

Engar leiðbeiningar eru til um beygingu millinafna né í raun ættarnafna. Ýmsir halda þeirri reglu að setja eignarfallsendingu á ættarnöfn borin af körlum en hafa ættarnöfn borin af konum óbeygð. Aðrir sleppa beygingu í báðum tilvikum. Ég óskaði eftir fundi á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til að ræða vandann og var hann haldinn 13. maí 2009. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að hafa endingu í eignarfalli millinafns ef það var borið af karli en ekki ef það er borið af konu, t.d. Jóns Hafbergs Jónssonar, Jónu Hafberg Jónsdóttur. Í bókinni er eignarfall millinafns því táknað með s-i í sviga, (s). Önnur föll eru endingarlaus.

Samkvæmt 2. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 er skylt að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Áhugavert er að skoða hvernig börnum er gefið nafn og hvort þau fá eitt nafn eða fleiri auk eftirnafns. Eftirfarandi upplýsingar fengust frá Þjóðskrá og miðast þær við nafngjafir barna sem bjuggu á Íslandi 28. nóvember 2009 og fæddust þar árin 1997 og 2007.

  Alls Einnefni og eftirnafn Fleirnefni og eftirnafn
Börn fædd 1997  4.125  838  3.287
Skírð í þjóðkirkju  3.601  730  2.871
Skírð í skráðu trúfélagi  178  27  151
Nafngjöf  346  81  265
       
Börn fædd 2007  4.533 696  3.837
Skírð í þjóðkirkju  3.266  411  2.855
Skírð í skráðu trúfélagi  356  55  301
Nafngjöf  911  230  681
       
Hlutfallstölur, %      
Börn fædd 1997  100,0  20,3  79,7
Skírð í þjóðkirkju  87,3  17,7  69,6
Skírð í skráðu trúfélagi  4,3  0,7  3,7
Nafngjöf  8,4  2,0  6,4
       
Börn fædd 2007  100,0 15,4 84,6
Skírð í þjóðkirkju  72,0  9,1 63,0
Skírð í skráðu trúfélagi  7,9  1,2

6,6

Nafngjöf  20,1  5,1 15,0

Það sem einkum vekur athygli er að þeim börnum fækkar sem skírð eru í þjóðkirkju frá 1997 til 2007 úr 87,3% í 72,0%. Þeim börnum fjölgar á umræddu tímabili sem skírð eru í skráðu trúfélagi úr 4,3% í 7,9% og má líklegast rekja það til aukins fjölda íbúa af erlendum uppruna. Þeim börnum fjölgar verulega sem fá nafn við nafngjöf eða úr 8,4% í 20,1%. Einhver þeirra barna sem fá nafn við nafngjöf eru reyndar skírð síðar en það breytir prósentutölunni ekki mikið.


Einnig má sjá að 84,6% barna fá fleiri en eitt nafn 2007 en tíu árum áður var talan 79,7% þannig að tví- eða fleirnefnasiðurinn er enn í sókn.


Á heimasíðu Hagstofu Íslands er hægt að nálgast töflur yfir hundrað algengustu eiginnöfn karla og kvenna í þjóðskrá og eru þær miðaðar við 1. janúar 2007. Hér verða birt tíu algengustu nöfnin. Í aftari dálknum eru birt til samanburðar algengustu nöfn samkvæmt könnun sem gerð var árið 1982.

Konur:

Sæti Nafn Fjöldi 1982 (1. og 2. nafn) 1982 (1. nafn)
1 Guðrún 5.155 Guðrún Guðrún
2 Anna 4.313 Sigríður Sigríður
3 Sigríður 3.801 Kristín Anna
4 Kristín 3.672 Anna Kristín
5 Margrét 3.044 Helga Margrét
6 Helga 2.890 María Helga
7 Sigrún 2.615 Sigrún Ingibjörg
8 Ingibjörg 2.375 Ingibjörg Sigrún
9 Jóhanna 2.016 Margrét Jóhanna
10 María 1.906 Jóhanna María

 
Karlar:

Sæti Nafn Fjöldi 1982 (1. og 2. nafn) 1982 (1. nafn)
1 Jón 5.538 Jón Jón
2 Sigurður 4.482 Sigurður Sigurður
3 Guðmundur 4.202 Guðmundur Guðmundur
4 Gunnar 3.244 Þór Gunnar
5 Ólafur 2.886 Gunnar Ólafur
6 Einar 2.533 Ólafur Magnús
7 Magnús 2.395 Magnús Einar
8 Kristján 2.310 Einar Kristján
9 Stefán 2.125 Örn Jóhann
10 Jóhann 1.977 Kristján Stefán

Ef aðeins er litið á fyrsta nafn er lítill munur á tíðniröð kvenna- og karlanafna 1982 og 2007.

Hjá Þjóðskrá fengust upplýsingar um algengustu nöfn gefin börnum 1997 og 2007. Séu listarnir bornir saman sést vel hver tískan var í nafngjöfum hverju sinni. Á listanum um algengustu nöfn 1997 eru 99 nöfn sem gefin höfðu verið tuttugu sinnum eða oftar en á listanum um algengustu nöfn 2007 eru 111 nöfn. Hér verða sýnd nöfn sem fimmtíu börnum eða fleiri voru gefin þessi tvö ár.

1997   2007  
Ingi 105 María 111
Þór 101 Þór 101
Ósk 87 Lilja 81
Örn 80 Máni 77
Margrét 76 Kristín 75
María 75 Ósk 70
Snær 72 Freyr 68
Andri 70 Eva 64
Freyr 70 Sara 41
Anna 63 Ingi 60
Aron 61 Örn 59
Kristín 60 Logi 55
Jón 55 Anna 53
Rún 54 Jón 50
Már 52 Margrét 50
Arnar 50    
Helga 50    

Af samanburði listanna má sjá að allmörg nafnanna eru með svipaða tíðni 1997 og 2007. Þó eru nöfn sem skera sig úr. Á listanum yfir nöfn gefin 1997 koma Birta (42), Jóhann (39), Stefán (35), Sigríður (34), Bjarni (33) og Sindri (31) ekki fyrir á listanum yfir tuttugu nafngjafir eða fleiri 2007. Eins koma nöfnin Katla (41), Emilía (36), Emil (34), Júlía (34), Mikael (34), Leó (33), Rakel (31), Elí (30) og Tómas (30) ekki fyrir á listanum yfir tuttugu algengustu nafngjafir eða fleiri 1997.

Nöfn sem hlotið hafa auknar vinsældir 2007 eru t.d. María, Lilja, Máni, Kristín, Eva, Sara, Logi, Sif, Dagur, Dís og Ýr en nöfn sem hafa dalað á þeim lista eru t.d. Ingi, Ósk, Örn, Margrét, Snær, Andri, Anna, Orri, Helgi, Bjarki og Fannar.

Ef listarnir yfir tíu algengustu nöfn kvenna og karla 1. janúar 2007 eru bornir saman við listana yfir tuttugu nafngjafir eða fleiri 1997 og 2007 má sjá að nöfnin Sigrún og Jóhanna vantar á listann 1997 en þar má finna öll tíu karlanöfnin. Á listann yfir nafngjafir 2007 vantar nöfnin Sigríður, Sigrún, Ingibjörg, Jóhanna, Stefán og Jóhann. Af þessu virðist sem gömul, algeng nöfn séu eitthvað að dala. Það á þó tæplega við nöfnin Guðrún og Jón sem um aldir hafa verið meðal algengustu nafna hérlendis þótt þau hafi aðeins færst neðar 2007 (44/42 og 55/50).

Til þess að skoða þessi nöfn betur verða valin þrjú algengustu nöfn kvenna á landinu 1. janúar 2007 og þrjú algengustu nöfn karla og þau borin að lista frá Þjóðskrá yfir ,,nafngjafir barna sem bjuggu á Íslandi 28. nóvember 2009 og fæddust árin 1997 og 2007“. Nöfnin eru Guðrún, Anna, Sigríður, Jón, Sigurður, Guðmundur.

Nafn 1997 2007
Guðrún 44 42
Einnefni 3 3
Fyrra eða fyrsta nafn 24 17
Annað nafn 17 22
Anna 63 53
Einnefni 2 3
Fyrra eða fyrsta nafn 43 25
Annað nafn 18 25
Sigríður 34 15
Einnefni 3 -
Fyrra eða fyrsta nafn 22 6
Annað nafn 9 9
Jón 55 50
Einnefni - -
Fyrra eða fyrsta nafn 45 35
Annað nafn 10 15
Sigurður 33 26
Einnefni 3 1
Fyrra eða fyrsta nafn 29 22
Annað nafn 1 3
Guðmundur 39 29
Einnefni 6 2
Fyrra eða fyrsta nafn 33 26
Annað nafn - 1

Í flestum tilvikum er fækkun á milli áranna 1997 og 2007 allnokkur hvað nafnið Sigríður varðar. Fleiri börn fengu hins vegar nöfnin Kristín og Ólafur 2007 en 1997. Einkum hefur nafnberum með Kristín sem annað nafn fjölgað. Það vekur athygli að hvorugt árið fær karlmaður nafnið Jón sem einnefni og að enginn fær nafnið Guðmundur sem annað nafn 1997, aðeins einn 2007.

Könnun sem þessi, sem ekki hefur verið gerð fyrr, veitir mikilvægar upplýsingar um þróun nafnaforðans á síðustu tíu árum. Af honum má sjá að algengustu nöfnin í landinu sem tíðkast hafa um aldir eru flest að láta undan síga. Undantekning er nafnið María:

Nafn 1997 2007
María 75 111
Einnefni 4 7
Fyrra eða fyrsta nafn 12 25
Annað nafn 59 79

Nafnið er lítið notað sem einnefni en mest sem annað nafn. Það virðist þó einnig í sókn sem fyrra eða fyrsta nafn.

Að lokum ætla ég að snúa mér að nöfnum sem send voru mannanafnanefnd árið 2008. Nefndin afgreiddi 95 beiðnir um nöfn. Samþykkt voru 25 karlmannsnöfn, 32 kvenmannsnöfn og fimm millinöfn. 21 karlmannsnafni var hafnað og 12 kvenmannsnöfnum. Beiðnirnar sýna nokkuð vel hvert hugurinn leitar hjá mörgum þeirra sem finna vilja nýtt eða frumlegt nafn á barn sitt, nafn frá föður- eða móðurlandi sínu, eða fullorðnir viðbótarnafn handa sjálfum sér. Sum barnanna eiga foreldri eða foreldra af erlendum uppruna og skýrir það sum nöfnin. Áður en ég kem að sjálfum nöfnunum er nauðsynlegt að átta sig á hefðarreglunum sem mannanafnanefnd hefur sett sér til þess að geta tekið á lagaákvæðinu um hefð. Þær eru þessar:

1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
     a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
     b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
     c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
     d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
     e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Við það að fólki af erlendum uppruna fjölgar í landinu, fjölgar jafnt og þétt þeim nöfnum sem samþykkja verður á grundvelli hefðarreglnanna.

Þau kvenmannsnöfn sem samþykkt voru 2008 á grundvelli 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn um beygingu og rithátt voru:

Idda, Sónata, Lúna, Lokbrá, Katrína, Asírí, Mýr, Elsí, Bláey, Grein, Eldlilja, Vetrarrós, Bassí, Skugga, Karlinna, Daðína, Pía, Maríkó, Karó, Petrós, Úranía, Evey, Snjóka, Drauma, Bjargdís, Brynný, Stefana, Leóna og Gumma.

Nöfn sem fóru inn sem ritmynd eða á hefð voru: Jósefín (ritmynd af Jósefína), Sofie (ritmynd af Soffía, hefðað), Maríkó (ritmynd af Marikó), Isabel (ritmynd af Ísabel, hefðað).

Þau kvenmannsnöfn sem ekki voru samþykkt vegna ritháttar voru: Zíta, Diana, Veronica, Franzisca, Dórathea, Josefine, Alessandra, Annalinda, Mirija, Leona.

Tveimur var hafnað vegna hugsanlegs ama: Kona og Íslandssól.

Þau karlmannsnöfn sem samþykkt voru 2008 á grundvelli 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn um beygingu og rithátt voru:

Asael, Tonni, Sporði, Skær, Öxar, Rúbar, Þróttur, Snæbjartur, Eiðar, Bói, Míó, Uxi, Þjóðann, Aðólf, Vinjar, Júní, Borgúlfur, Tarfur, Amor og Tími.

Nöfn sem fóru inn sem ritmynd eða á hefð voru: Robert (hefð), Vincent (hefð), Thór (ritmynd af Tór), Styrr (ritmynd af Styr).

Nafninu Styrr var hafnað í maí 2008 en endurupptekið í ágúst og þá samþykkt. Mannanafnanefnd telur að þrátt fyrir að nafnið Styrr uppfylli ekki öll skilyrði 5. gr. til að verða fært á mannanafnaskrá og hafi ekki unnið sér hefð samkvæmt vinnureglum mannanafnanefndar frá 14. nóvember 2006, sé rétt að taka málið til endurskoðunar á grundvelli þriggja atriða:

     a. Nafnið Styrr kemur fyrir í Landnámu, fornsögum, Sturlungu á 13. öld og í fornbréfum frá 15. öld. Ritháttur þess með –rr er samkvæmt málfræði fornmálsins.
     b. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er einn íslenskur karl, sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna, skráður með eiginnafnið Styrr og er hann fæddur árið 1975.
     c. Nú þegar eru átta eiginnöfn karla með nefnifallsendingunni –rr á mannanafnaskrá en það eru nöfnin Heiðarr, Hnikarr, Ísarr, Óttarr, Snævarr, Steinarr, Sævarr og Ævarr.

Mörk forníslensku og íslensks nútímamáls eru ekki glögg og þar með er ekki ótvírætt að hafna forníslenskri beygingarmynd sem fyrir kemur í heimildum ef nafnið hefur verið borið af Íslendingum á 20. öld og það er ritað í samræmi við ritreglur nútímamáls að öðru leyti. Því hefur mannanafnanefnd ákveðið að láta fyrirliggjandi umsókn njóta nokkurs vafa um þetta atriði og taka tillit til þeirra þriggja atriða sem að ofan eru nefnd. Sú ákvörðun er tekin í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.

Ég get ekki betur séð en að búið sé að opna flóðgáttina og óskir um fleiri nöfn muni berast sem erfitt getur reynst að neita.

Þá eru eftir þau karlmannsnöfn sem nefndin hefur hafnað. Þau voru eins og áður segir 21. Flestum var hafnað vegna ritháttar: Lano, Johnny, Elio, Theo, Deimien, Deimian, Marius, Theó, Carlos, Ismael, Ronald, Fabio, Marzellíus, Fernando, Michel, Ulf.

Nöfnunum Maggnús, Regin, Bergman var einnig hafnað vegna ritháttar ekki síst vegna þess að fyrir voru nöfnin Magnús, Reginn og Bergmann.

Nefndin kom sér ekki saman um niðurstöðu um nafnið Skallagrímur. Tveir nefndarmanna höfnuðu því með tilvísun til amaákvæðisins, einn nefndarmanna skilaði séráliti.

Fimm millinöfn voru samþykkt 2008: Vatnsfjörð, Brekkmann, Þor, Yngling og Vattar en engu var hafnað. Millinöfnin eru líklega oftast hugsuð fyrir fullorðna.

Úrskurði mannanafnanefndar má lesa á vefsíðu dómsmálaráðuneytis. Beiðnirnar frá 2008 sýna vel við hvaða vanda nefndin þarf oft að fást og hvers eðlis þær óskir eru sem koma frá almenningi

Margt fleira áhugavert hefði mátt draga saman um eiginnöfn en hér verður látið staðar numið en vísað til nýrrar útgáfu Nafna Íslendinga sem væntanleg er hjá Forlaginu.

[Önnur útgáfa Nafna Íslendinga kom út í maí 2011.]

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023