Við skráningu handrits er algengt að kveraskiptingunni sé lýst. Þar kemur fram hvernig blöð handritsins eru brotin saman og lögð í kver sem síðan eru saumuð í bókbandið hvert fyrir sig.
Slík lýsing getur veitt mikilvæga innsýn í sögu og þróun handritsins.
Myndrænni framsetning
Í handritaskrám er kveraskiptingunni yfirleitt lýst í skriflegu formi: annaðhvort með sérþróuðum formúlum eða með löngum lista sem greinir frá því hvernig blöðin eru tengd.
Ný viðbót á handrit.is gerir upplýsingar um kveraskiptingu aðgengilegri og notendavænni. Handrit.is er sameiginleg rafræn handritaskrá yfir íslensk og norræn handrit. Þar hefur lengi verið að finna skriflegar lýsingar á kveraskiptingu en með nýju viðbótinni er einnig hægt að skoða myndræna framsetningu þessara gagna í völdum handritum.
Þannig birtist skýringarmynd sem sýnir á einfaldan hátt hvernig blöðin eru lögð saman og saumuð og stundum hvernig gert hefur verið við þau (sjá mynd). Þar að auki hefur verið bætt við upplýsingum um hvar stakir textar í handritinu byrja og enda sem og um efnivið blaðanna, einkum tegund pappírs og vatnsmerki.
Myndræna birtingin gerir því kveraskiptinguna ekki aðeins skiljanlegri heldur tengir hún líka saman ólíka þætti handritaskráningar sem skipta máli fyrir rannsóknir á samansetningu og sögulegri þróun handrita.
Mynd. Samanburður á kveraskiptingu í skriflegu og myndrænu formi. Handritið sem lýst er hér er AM 116 fol., pappírshandrit frá sautjándu öld sem inniheldur m.a. Sturlunga sögu.
Tæknileg þróun
Viðbótin var þróuð í samstarfi við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem einnig er aðili að handrit.is.
Kerfið sem liggur að baki myndrænu birtingunni byggist á forritinu VCEditor sem er hluti af VisColl-verkefninu við Schoenberg Institute í Bandaríkjunum. Framsetningu á skýringarmyndum hefur þó verið breytt að nokkru leyti og þýðingu á skýringum bætt við. Hægt er að skoða þær á þremur aðaltungumálum handrit.is: íslensku, dönsku og ensku.
Sem stendur er myndræn birting af kveraskiptingu í boði fyrir rúmlega 250 handrit. Þar af eru um það bil 170 handrit varðveitt í Eddu og 74 á Landsbókasafninu. Þetta eru sautjándu aldar pappírshandrit í fólíó-broti og sérstaklega hefur verið aukið við skráningu hvers og eins þeirra til að ná fram þessari myndrænu framsetningu.
Upplýsingar um bæði vatnsmerki og kveraskiptingar þessara handrita hafa nýlega verið skráðar eða endurskoðaðar í rannsóknarverkefninu Hringrás pappírs. Með þessari viðbót á handrit.is fær fræðasamfélagið því aðgang að endurbættum upplýsingum í glænýjum búningi.
Njótið vel!
Síðast breytt 23. september 2025