Skip to main content

Pistlar

Þarfar

Birtist upphaflega í ágúst 2018.

Undir lok Sverris sögu segir frá baráttu Sverris konungs Sigurðarsonar (um 1151–1202) við uppreisnarmenn úr röðum Bagla. Eitt sinn var konungur í herferð í Víkinni, í héraðinu þar sem nú er Bohuslän í Svíþjóð (ÍF XXX:264; stafsetning hér og eftirleiðis eftir nútímahætti):

„Og er Sverrir konungur kom norður til Sótaness þá veik hann inn af leiðinni og lagðisk þar sem heita Þarfar. Þar var fyrir söfnuður Bagla. Lét konungur eigi á land ganga að sinni.“

Sótanes í Bohuslän í Svíþjóð. Óvíst er hvar Þarfar voru. (Myndin er skjáskot af korti á síðunni www.lantmateriet.se)

Í Noregssögu P.A. Munchs (1857:374) er gert ráð fyrir að Þarfar sé bæjarnafn, en ekki mun slíkt bæjarnafn vera þekkt á þessum slóðum (Hallan 1989:48). Samkvæmt sögunni gætu Þarfar eins verið eitthvert kennileiti, svo sem eyja eða sker. Nils Hallan (1989) var fyrstur til að tengja nafnið Þarfar við lítinn flokk eyjanafna sem öll hefjast á Tarv-.

Tarv-nöfnin eru talin upp hér að neðan. Líkt og sjá má koma þau fyrir víðsvegar um Skandinavíu (sjá nánar hjá Fries 1975 og Hallan 1989).

  • Rétt utan við Þrándheimsfjörð í Noregi er eyjaklasi sem nefnist Tarva (í bréfum frá 16. öld koma fyrir rithættirnir „Terwen“ og „Terffuenn“).
  • Við mynni Umeälven í Norður-Svíþjóð er eyja nefnd Tarv (einnig Tarven og Tarvskär, en líklegt þykir að einfalda myndin Tarv sé elst). Þessi eyja er nokkuð stór, en líta verður til þess að á þessum slóðum hefur land risið nokkuð mikið (sem nemur um meter á öld). Fyrir um 1000 árum hefur því verið klasi lítilla eyja og skerja þar sem Tarv er nú.
  • Á gömlum kortum af skerjagarðinum við Stokkhólm er einnig nafnið Tarvskär, en nafnið mun ekki lengur notað.
  • Í skerjagarðinum við Helsinki er eyja sem nefnist Tarvo. Til greina kemur að þetta örnefni sé finnskt að uppruna og væri eyjan þá kennd við elgi (sjá nánar Fries 1975:22).

Fræðimönnum sem áður höfðu fjallað um þessi örnefni (Olsen 1928:195–96, Fries 1975) hafði virst sem þau gætu verið dregin af norrænu þǫrf (= þörf) ´þurft, nauðsyn, neyð,...´. En þeir áttu erfitt með að gera sér í hugarlund hvaða hugsun lægi að baki slíkri nafngift. Af þeim sökum hafði m.a. verið stungið upp á því að Tarv-nöfnin gætu verið komin af einhverju orði sem hófst á /t/ í norrænu (sjá nánar Fries 1975), enda getur /t/ í upphafi orða í hinum norrænu málunum ýmist verið komið úr /þ/ eða /t/ í norrænu.

En í ljósi þess að örnefnið Þarfar kemur fyrir í Sverris sögu og getur þar vel átt við eyju eða sker þá virðist nærtækast að Þarfar sé eldri mynd þessara Tarv-nafna. Fyrrnefndur Nils Hallan setti fram forvitnilega skýringu á því hvers vegna nöfn eyjanna væru dregin af nafnorðinu þörf. Hann benti á að orðið þörf ´þurft, nauðsyn, neyð,...´ væri margrætt og gæti vísað til ótalmargs, allt eftir aðstæðum manna hverju sinni. Í því sambandi vakti hann athygli á því að í norrænni orðabók Fritzners væri m.a. gefið dæmið „ganga þarfa sinna“. Í þessu orðatiltæki taldi Hallan að finna mætti skýringuna á þessum nöfnum. Í öllum tilvikum væri um að ræða eyjar eða sker við fjölfarnar siglingaleiðir. Þar hlyti að hafa þótt gott að þekkja hentuga staði til þess að skjótast upp á þurrt land og hægja sér. Ekki eru miklar heimildir um hvernig menn báru sig að, en Hallan var sérstaklega hugsað til aðstæðna á litlum bátum þar sem fáir voru um borð, jafnvel aðeins einn maður. Þar hlýtur að hafa verið varasamt að setjast út fyrir borðstokkinn, einkum í ókyrrum sjó. Þó er víst að á stærri bátum hafa menn gert það, sbr. eftirfarandi ákvæði í Frostaþingslögum (Keyser og Munch 1846:164):

„Ef maður situr á borði og gengur hann þurfta sinna og hrindir maður honum á kaf heiftugri hendi þá skal fullrétti uppi og öfundarbót.“ [Það lá „hálfrétti“ við því að hrinda manni á kaf heiftugri hendi við hlutlausari aðstæður.]

Í þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins er einnig varðveitt lýsing sjómanns (f. 1904) á því hvernig farið var að um borð í skútum (heimildarmaður nr. 5434/1981-3):

„Ef menn þurftu að hafa hægðir, þá settust þeir út á skipshliðina, héldu sér í vantinn og létu svo allt saman fara. Og til þess að þrífa sig á eftir, þá var venjulega skorið af einhverjum kaðalsenda, sem var orðinn upptrosnaður og það notað. Og ef var mjög vont veður og ekki hægt að setjast á lunninguna ... Það var áhald þarna um borð, sem kallað var pusa. Það var tréfata með kaðalhöldu og spotta í, þá hvolfdi maður henni útfyrir og náði í svona hálfa fötu, svo settist maður bara á hana ... Nú það var nú bara þar sem hlé var, sem að menn hægðu sér um borð... Þessi pusa var notuð til alls og sumir kokkar meira að segja ... náðu í sjó í hana.“

Líkt og Nils Hallan segir sjálfur þá hefur hann skýrt á „konkret og presis“ hátt hvers vegna Tarv-eyjarnar draga nafn sitt af orðinu þörf sem venjulega hefur fremur óhlutbundna skírskotun. Hann taldi einnig að hið þekkta Dritsker í Eyrbyggju og svipuð nöfn í Noregi, t.d. Dritaren, Dritarhaugen og Dritarodden í Oslóarfirði, væru af sama meiði (1989:49).

Ekki verður annað sagt en að skýring þessi sé áhugaverð. Í pistlum um Dritsker og Nónnes kom fram að nafnið Dritsker er í Eyrbyggju skýrt á þann hátt að menn hafi gengið (eða vaðið) frá landi út í skerið til þess að ganga örna sinna. Í Bárðar sögu Snæfellsáss kemur fyrir skýring á nafninu Dritvík (sjá hér) sem greinilega er innblásin af skýringu Eyrbyggju á nafninu Dritsker.

Þórhallur Vilmundarson taldi víst að Dritvík drægi nafn sitt af fugladriti á Dritvíkurkletti (sjá ÍF XIII:111) og líklega þykir mörgum einboðið að skýra einnig nafnið Dritsker á sambærilegan hátt, enda virðist orðið drit í nútímamáli fyrst og fremst vísa til fuglaskíts. En þó er rétt að gæta þess að höfundum Eyrbyggju og Bárðar sögu Snæfellsáss hefur þetta orð verið tamt í víðari merkingu. Í fornu máli á nafnorðið drit og sögnin dríta einnig við um úrgang manna líkt og dæmi er um í Martínus sögu biskups þar sem á einum stað segir frá „illum dauða og maklegum“ Arríusar nokkurs (Unger 1877:609):

„... og varð það með þeim hætti að þá er hann skyldi fara til biskupastefnu að þræta um helga  trú, og vildi hann henni fyrirkoma, þá fór hann að sitja nauðsynja sinna og dreit úr sér iðrunum öllum og fór lífið hans með.“

Hugsanlega dregur Dritvík á Snæfellsnesi því ekki nafn sitt af fugladriti líkt og Þórhallur taldi, heldur af því að sjófarendum í öndverðu hafi þótt þægilegt að skjótast þar upp í fjöruna.

Þó vakna að minnsta kosti tvær spurningar (en örugglega mun fleiri). Í fyrsta lagi er varla hægt sé að skýra öll slík örnefni á þennan hátt, sbr. t.d. fjallið Dritfell á Austurlandi. Í öðru lagi má spyrja hvort þau sker sem hér á landi eru kennd við drit (þau eru a.m.k. fjögur og bera nöfnin Dritsker, Drítur og Drítandi) myndu þykja hentug til að fara þar frá borði og hægja sér. Hinu síðarnefnda hefur Mikael Males greinilega einnig velt fyrir sér því að í nýlegri bók hans Snorre och Sagorna, þar sem vakin er athygli á skýringum Hallans á nafninu Dritsker, getur hann sér þess til að menn hafi ekki endilega dregið báta sína upp á skerin og síðan hægt sér, heldur hafi þeir skorðað bátana af við skerin til þess að þeir héldust stöðugir (Males 2017:104–105).

Birt þann 19. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Fries, Sigurd. 1975. Tarv – ett önamn I Umeå skärgård. Namn og Bygd 63:17–26.

Hallan, Nils. 1989. Tarva. Namn og Nemne 6:47–50.

ÍF XIII = Íslenzk fornrit XIII. Bárðar saga Snæfellsáss. Útg. Þórhallur Vilmundarson. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1991.

ÍF XXX = Íslenzk fornrit XXX. Sverris saga. Útg. Þorleifur Hauksson. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 2007.

Keyser, R og P.A. Munch. 1846. Norges gamle love indtil 1387 1. Det Kongelige Norske Videnskabers Selskab, Kristjaníu.

Males, Mikael. 2017. Snorre och sagorna. Dialogos, Stockholm.

Munch, P.A. 1857. Det norske Folks Historie 3. Tønsbergs Forl., Kristjaníu.

Olsen. Magnus. 1928. Norske gårdnavn. Festskrift til rektor J. Qvigstad, bls. 192–97. Tromsø Museum, [Tromsø].

Unger, C.R. (ritstj.). 1877. Heilagra Manna Søgur. Fortællinger og Legender om hellige Mænd og Kvinder 1. B.M. Bentzen, Kristjaníu.