Skip to main content

Pistlar

Um örnefnaskráningu Samúels Eggertssonar og sníkjudýr

Samúel Eggertsson (1865–1949) er e.t.v. best þekktur sem kortagerðarmaður. Íslandskort hans „Landnám Íslands“ og „Siglingar forfeðra vorra“, sem sýna skip allra landnámsmanna og siglingaleiðir þeirra, eru mörgum kunnug og hafa verið sívinsælt efni á póstkortum, ásamt teikningum hans af ám og fjöllum Íslands og plakati af Hallgrími Péturssyni.

En Samúel var einnig virkur örnefnasafnari og tók að sér að safna örnefnum við Gilsfjörð, í Geiradal og Reykhólasveit sumarið 1934. Þetta verkefni var unnið fyrir hönd Hins íslenzka fornleifafélags sem á þeim tíma styrkti fólk til þess að starfa við örnefnasöfnun, eins og má lesa um í pistlinum „Annáll örnefnasöfnunar“. Samúel var fæddur á Melanesi á Rauðasandi og faðir hans, Eggert Jochumsson, var frá Skógum í Þorskafirði þannig að það má gera ráð fyrir að hann hafði þekkt svæðið nokkuð vel.

Frumgögn Samúels eru varðveitt á Árnastofnun en árið 1977 færðu Halldóra og Margrét Samúelsdætur þáverandi Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins að gjöf á annað hundrað uppdrætti og frumdrög uppdrátta úr fórum föður þeirra.

Örnefnaskrár fyrir jarðir í Austur-Barðastrandarsýslu og Gilsfirði eru rúmlega 50 talsins en ásamt þeim eru tvær minnisbækur með uppköstum, margir lausir seðlar sem innihalda lista yfir örnefni á stökum jörðum, eitt bréf til Samúels frá Páli Gíslasyni á Skerðingsstöðum og afrit af bréf frá Ólínu Magnúsdóttur á Kinnarstöðum. Einnig er þar að finna örnefnakort sem tilheyrir örnefnalýsingu fyrir Kinnarstaði, og eitt riss af sýnilegum rústum þar sem Þorskafjarðarþing var haldið.

Auk þess er í safninu stór uppdráttur af Reykhólasveit ásamt Reykhólaeyjum og Miðhúsaeyjum, einnig eftir Samúel.  

Örnefnaskrár Samúels eru fallegir gripir: bæjarnöfnin eru rituð með skrautskrift en öll örnefni eru undirstrikuð og þeim gefin númer. Ekki eru þessi skjöl bara skemmtileg í útliti heldur gefa þau okkur einnig innsýn í ferli örnefnasöfnunar á þeim tíma og seinna. Heimildarmenn Samúels eru í næstum öllum tilfellum nefndir fremst í skránum. Þó að langflestir þeirra séu karlmenn, veittu einnig nokkrar konur Samúel upplýsingar. Kona að nafni Ingibjörg Hákonardóttir var „leiðbeinandi“ Samúels (eins og hann orðar það) fyrir skrána sem inniheldur flest örnefni, 200 í allt, yfir jörðina Borg í Reykhólahreppi. Hvað varðar texta skjalanna, þá er hann oftast frekar einfaldur: eiginlega listi yfir örnefni með áttavísunum eins og maður sé að fá leiðsögn í kringum jörðina, byrjað er í túninu og síðan farið víðar.

Skjölin bera þess merki að Samúel hefur farið yfir skjölin síðar og bætt upplýsingum við með blýanti hér og þar. Stundum eru neðanmálsgreinar þar sem aukaupplýsingar um stök örnefni koma fram, t.d. skýringar um uppruna þeirra, eða nánari lýsing á staðsetningu. Skýringar hvað varðar merkingu eða uppruna örnefna koma fram af og til í aðaltextanum. Í skránni fyrir Klett í Geiradal, sem gerð er eftir upplýsingum Jóns Brandssonar á Kambi, er t.d. sagt frá „Nílgurtjörn eða Ýlgrutjörn“ sem er 20–30 m. að þvermáli en „Við tjörn þessa eru bundin þau ummæli, að á fyrri öldum hafi Gunnbjörn nokkur, sem bjó að Gunnbjarnarstöðum, þar ofar með Gilinu, hafi átt að drekkja (þar) 18–20 manns. Til sönnunar þessu, er til gömul vísa (vögguljóð), er [gömul] kona hafi átt að kveða þar á heimilinu við barn: „Gisti enginn hjá Gunnbirni, sem klæðin hafa nóg. Hann dregur þá alla í tjörnina – og – dillrin-dillrín-dó. – Eða: Gisti enginn hjá Gunnbirni, sem klæðin hafa góð. – Svíkur hann sína seggi – og korr-ír-ó. –“

Áberandi er hve oft örnefnaskýringar, þegar þeim er á annað borð til að dreifa, eru tengdar dauða á einhvern hátt. En hvað varðar nafnið Nílgurtjörn eða Ýlgrutjörn, þá er erfitt að vita fyrir víst hver merking þess er. Nafnið gæti vísað til nokkurs konar skrímslis. Hægt er að hugsa sér að Nílgurtjörn sé afbökuð mynd af Nykurtjörn en það örnefni er að finna á nokkrum stöðum á landinu og er Nykurtjörn m.a. í landi Tinda, næstu jörð við Klett, eins og kemur fram í örnefnaskrá Samúels fyrir þá jörð. Svo mætti nefna að í Gylfaginningu Snorra-Eddu er Ylgr ein af nokkrum ám sem Jafnhár segir falla af brunninum Hvergelmir.

En þegar nánar er athugað kemur í ljós að annars staðar á landinu má finna dæmi um Yglutjörn/Iglutjörn. Igla merkir ,liðormur eða blóðsuga' skv. Orðsifjabókinni: óhugnanleg sníkjudýr sem hrylla fólk. Meira að segja er sagan um Gunnbjörn morðingjann tengd þessum tjörnum ásamt vísunni um hann. Gunnbjörn myrti menn á Tjarnarlandi í Fljótsdalshéraði og huldi hræin í Yglutjörn (eða Ígultjörn) skammt frá bænum þar. Annað dæmi er að finna í Þingeyjarsveit, á Vík í Flateyjardal við Skjálfandaflóa. Þriðja dæmi er á Snæfellsnesi – en hér er það Axlar-Björn sem sagður er að hafa drekkt líkum fórnarlamba í tjörn sem heitir Yglutjörn. Skýring um örnefnið fylgir sögunni um Gunnbjörn á Tjarnarlandi eins og hún er birt í Íslenskum þjóðsögum og sögnum eftir Sigfús Sigfússon (6. bindi) en þar má lesa að: „Sumir hafa það sagt að þar í tjörninni hafi þá sést illvættur, dýr er menn nefndu Iglu, og síðan hafi menn nefnt tjörnina eftir henni Iglutjörn. En aðrir héldu það nafn orsakast af því að flestir ygldu sig af hryllingi og viðbjóði vegna glæpanna, er nærri henni komu, og töldu hana heita Yglutjörn.“

Birt þann 12. febrúar 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Íslenzkar þjóðsögur, safnað hefur Ólafur Davíðsson. Jónas J. Rafnar og Þorsteinn M. Jónsson bjuggu til prentunar. Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson, 1945.

Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, safnað hefur Jón Árnason. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson bjuggu til prentunar. Reykjavík: Bókaútgáfan þjóðsaga, 1954.

Íslenskar þjóðsögur og sagnir, safnað hefur og skráð Sigfús Sigfússon. Grímur M. Helgason og Helgi Grímsson bjuggu til prentunar. Reykjavík: Bókaútgáfan þjóðsaga, 1986.

Svavar Sigmundsson, „Er Nykur eða Nykurtjörn að finna á fleiri stöðum en í Svarfaðardal á Norðurlandi?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2005. Sótt 12. febrúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=5430

https://www.ismus.is 

https://málið.is

http://sagnagrunnur.arnastofnun.is/s/

https://onp.ku.dk/onp/onp.php