Skip to main content

Pistlar

Umdeilt landslag

Um þessar mundir stendur yfir vinna við verkefnið Nafnið.is þar sem verið er að skrá allar örnefnalýsingar í örnefnasafni stofnunarinnar í gagnagrunn og þróa innviði og notendaviðmót til þess að gera þetta merkilega safn aðgengilegt og leitarbært í gegnum netið. Stefnt er að því að opna grunninn haustið 2020. Margt spennandi og athyglisvert hefur komið í ljós í undirbúningsvinnunni. Starfsmenn á nafnfræðisviði hafa ekki starfað þar nema í nokkur ár og því er það ekki síst ágætt tækifæri fyrir okkur að kynnast safninu og meta það sem er til í því. Nemarnir sem vinna við skráninguna rekast einnig oft á ýmislegt í skjölunum sem vekur hjá þeim mikinn áhuga. Meðal þess sem fannst í möppu nýlega var skjal sem trúlega er meðal þeirra elstu í safninu. Það er handskrifuð lýsing yfir fiskimið í Nesjaleitum, Austur-Húnavatnssýslu, sem Jón Klemensson (1793–1862) á Kaldrana á Skaga setti saman á tímabilinu 1840–1860 þegar hann var að skrá Hafnabúðamið á Skaga. Skráin var gefin út í Blöndu og hægt er að skoða efnið hér. Einnig gerði þessi sami Jón afrit af Rímum af Finnboga ramma sem Guðmundur Bergþórsson orti en myndir af því handriti (sem var skrifað árið 1858) má skoða hér.

Í lok hverrar örnefnalýsingar er listi þar sem öll örnefni í skjalinu er að finna í stafrófsröð. Við rennum augum yfir listann í hvert skipti sem skjal er skráð: örnefni sem eru óalgeng eða sérstök á einhvern hátt vekja athygli svo og örnefni (eða liðir í örnefnum) sem koma fyrir aftur og aftur. Eitt dæmi af seinna taginu er Þrætu-örnefni. Nokkur dæmi eru um ósamsetta örnefnið „Þræta“ á landinu, t.d. á Borgarkoti í gamla Skeiðahreppi, Árnessýslu, þar sem í örnefnalýsingu frá 1998 eftir Jón Eiríksson er sagt að Þræta sé „Nokkuð stór dæl og slétt. Dælin náði yfir mörkin en er þó meira í Borgarkotslandi. Nafnið bendir til þess að bændurnir á Löngumýri og í Borgarkoti hafi deilt um slægjuna.“ Þrætu er getið í örnefnalista fyrir Hraungerði í Hraungerðishreppi, Árnessýslu, sem Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (1838–1914) tók saman en Brynjúlfur er þekktur fyrir framlag sitt hvað varðar skipulagða söfnun örnefna snemma á 20. öld.

Oftast kemur orðið þræta fyrir í samsetningum sem fyrsti liður. Líklegt er að mörg Þrætu-örnefni séu mjög gömul og nokkur dæmi er að finna t.d. í fornbréfasafninu. Í töflunni hér á eftir eru allar samsetningar sem birtust þegar tilraunaleit var gerð í gagnagrunni Nafnið.is. Þetta eru hátt í 300 dæmi. Það eru u.þ.b. þrefalt fleiri dæmi en finnast við leit í kortagrunni Landmælinga Íslands, jafnvel þó mjög líklega séu ekki öll dæmin í örnefnasafninu orðin leitarbær (en á móti kemur að eitthvað er um endurtekningar). Það er ekki skrítið að mörg dæmi af Þrætu-örnefnum er að finna í örnefnalýsingum því þau er oftast að finna á eða nálæg landamerkjum. Í bókinni Mannvist: Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur o.fl. er fjallað m.a. um landamerki og þar má lesa: „Það er engin furða að landamerki hafi oft verið óviss og valdið deilum þegar viðmiðin voru ekki afgerandi, einstakar klappir, þúfur sem gátu verið hver annarri lík eða sjónhending milli óljósra punkta. Til vitnis um það eru æði mörg örnefni nálægt landamerkjum sem benda til deilna, t.d. Þrætukrókur og Þrasbarði, jafnvel er Stríðsmýri undir Þrasaborgum á Lyngdalsheiði tengd við bardaga sem átti að hafa orðið vegna landamerkjadeilna“ (bls. 338; sjá einnig Svavar Sigmundsson, ‚Place-names at boundaries in Iceland‘, í Nefningar. Greinar eftir Svavar Sigmundsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 7. september 2009, bls. 290). Þetta kemur skýrt fram í örnefnalýsingu Jónasar Rafnars fyrir Gilsbakka í Hrafnagilshreppi, Eyjafjarðarsýslu, þar sem sagt er um Þrætumó: „þar eru óglögg landamerki.“

Örnefni eru lýsandi fyrir samfélagsleg og efnahagsleg viðhorf og sér í lagi er það ljóst hvað varðar Þrætu-örnefni: þau undirstrika hversu ómissandi landsins gæði voru fyrir fólk á fyrri tímum. Það er áberandi hversu mörg dæmi eru af örnefnunum Þrætutunga eða Þrætutungur annars vegar og Þrætupartur hins vegar og er ástæðan sennilega sú að hér er um að ræða landspildu á milli jarða sem jarðeigendur hafa deilt um í tímans rás. Í örnefnalýsingu fyrir Veiðileysu í Árneshreppi, Strandasýslu, sem Guðrún S. Magnúsdóttir skráði árið 1975 er t.d. sagt um Þrætupart: „mun hafa verið ágreiningsefni milli ábúenda Kambs og Veiðileysu“. Annan Þrætupart er að finna í Veiðileysufirði í Grunnavíkurhreppi, Norður-Ísafjarðarsýslu, á jörðinni Steinsstöðum. Í örnefnaskrá frá 1974 eftir Sölva Sveinsson segir: „Fyrir innan Lónið tekur Þrætupartur við og nær alveg inn að Fjarðará eða Veiðileysuá. Um hana eru landamerki Steinólfsstaða og Steigar. Um Þrætupartinn eiga [landnámsmennirnir] Steinólfur, sem bærinn heitir eftir, og Mörður á Marðareyri að hafa rifizt, og sigraði sá fyrrnefndi.“ Þetta kemur einnig fram í viðtali sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við Hans Bjarnason árið 1967 (aðgengilegt í gegnum Ísmús hér).

Af og til er að finna í örnefnalýsingum útskýringar af öðru tagi á þessum örnefnum. Í örnefnalýsingu fyrir Geirmundarstaði í gamla Hrófbergshreppi í Strandasýslu (skrásetjari Guðrún S. Magnúsdóttir, 1974) er þessi skýring: „Milli kvíslanna á Heiðargötugili heitir Þrætupartur. Þar, nokkuð heimar, eru Síkisbakkar, fagurt land, víðiskógur og slægjublettir á milli runnanna, stargresi og smávíðir. Er sumum illa við, að hestum sé sleppt þar að óþörfu.“ Lög um lausagang og beit búfjár hafa verið til frá upphafi. Í Landbrigðaþætti Grágásar t.d. stendur í 200. kafla um misgöngur fjár: „Ef maður rekur fé sitt í annars manns land eða lætur reka, svo að hann vildi annars eigin beita, og verður af því fimm aura skaði eða meira, og varðar það fjörbaugsgarð. En ef kúgildis skaði verður eða meiri, þá varðar skóggangur þótt hinn hafi eigi lýriti varið landið. Ef minni er skaðinn en svo, þá varðar útlegð og bæta auvisla sem búar fimm virða við bók, þess manns er skaðinn er ger“ (bls. 297). Önnur örnefni sem tengjast deilum yfir landsréttindi er víðar að finna (sjá t.d. pistilinn um Krythól hér) og þegar gagnagrunnurinn Nafnið.is verður kominn í gagnið verður athyglisvert að skoða þau og greina mynstur: þá verður auðséð hversu umdeilt landið hefur alltaf verið.

 

Örnefni

Tilvik

Sýsla

Þrætuás

17

Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla, N-Þingeyjarsýsla, N-Múlasýsla, S-Múlasýsla, Snæfellsnessýsla

Þrætuáshaus

2

Mýrasýsla

Þrætubakki, Þrætubakkar

4

N-Múlasýsla, S-Múlasýsla, Snæfellsnessýsla

Þrætubali

4

Borgarfjarðarsýsla, V-Ísafjarðarsýsla, Kjósarsýsla

Þrætubás

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætublettur

7

Dalasýsla, Árnessýsla, V-Húnavatnssýsla, N-Þingeyjarsýsla, Strandasýsla, Snæfellsnessýsla

Þrætuboði, Þrætuboðar

3

A-Barðastrandarsýsla

Þrætubotn

1

N-Múlasýsla

Þrætubraut

1

N-Múlasýsla

Þrætubreið

4

Strandasýsla

Þrætubrekka, Þrætubrekkur

3

A-Barðarstrandarsýsla

Þrætubrún

1

Árnessýsla

Þrætudæl, Þrætudælur

4

Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Þrætudalur

1

Árnessýsla

Þrætuengi

3

Árnessýsla, Strandasýsla

Þrætuenni

1

S-Múlasýsla

Þrætueyri, Þrætueyrar

4

Borgarfjarðarsýsla, S-Múlasýsla, N-Ísafjarðarsýsla

Þrætuflaga

1

Dalasýsla

Þrætuflói

4

N-Ísafjarðarsýsla, Mýrasýsla, V-Húnavatnssýsla, Strandasýsla

Þrætuflöt

5

Árnessýsla, N-Þingeyjarsýsla, Snæfellsnessýsla

Þrætugeiri

1

Kjósarsýsla

Þrætugerði

1

S-Þingeyjarsýsla

Þrætuhóll, Þrætuhólar

7

Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Mýrasýsla, S-Múlasýsla, Snæfellsnessýsla

Þrætuhólmi, Þrætuhólmar

12

Dalasýsla, Árnessýsla, Mýrasýsla, S-Múlasýsla

Þrætuholt

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætuker

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætukersmýri

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætukinn

3

Strandasýsla, Skagafjarðarsýsla

Þrætukinnargil (Syðra-, Ytra-)

2

Skagafjarðarsýsla

Þrætukinnarhaus

1

Skagafjarðarsýsla

Þrætukinnarkvos

1

Skagafjarðarsýsla

Þrætuklif

1

S-Þingeyjarsýsla

Þrætulækur, Þrætulækir

4

Mýrasýsla

Þrætulág

3

N-Múlasýsla, V-Barðastrandarsýsla

Þrætulágarhryggur

1

Árnessýsla

Þrætuland

2

A-Skaftafellssýsla, Kjósarsýsla

Þrætulaut

3

Borgarfjarðarsýsla, Árnessýsla, S-Múlasýsla

Þrætumóaoddi

1

Kjósarsýsla

Þrætumói, Þrætumóar

6

Kjósarsýsla, Borgarfjarðarsýsla

Þrætumór

2

Eyjafjarðarsýsla, Skagafjarðarsýsla

Þrætumúli

1

Snæfellsnessýsla

Þrætumúlatunga

1

Snæfellsnessýsla

Þrætumýrargil

1

A-Barðastrandarsýsla

Þrætumýrarholt

1

Strandasýsla

Þrætumýri

8

A-Barðastrandarsýsla, V-Barðastrandarsýsla, Strandasýsla, S-Múlasýsla, Eyjafjarðarsýsla

Þrætupartur

27

Strandasýsla, V-Húnavatnssýsla, A-Barðastrandarsýsla, V-Barðastrandarsýsla, Dalasýsla, S-Þingeyjarsýsla, A-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, N-Ísafjarðarsýsla, V-Ísafjarðarsýsla, Snæfellsnessýsla

Þræturimi, Þræturimar

2

Rangárvallasýsla, V-Ísafjarðarsýsla

Þræturófa

1

N-Múlasýsla

Þrætusig

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætusigskúti

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætusker

12

Dalasýsla, A-Barðastrandarsýsla, Mýrasýsla, Snæfellsnessýsla, N-Ísafjarðarsýsla, S-Múlasýsla

Þrætuskurður

1

Borgarfjarðarsýsla

Þrætuspilda

1

Skagafjarðarsýsla

Þrætuspotti

3

Árnessýsla, Borgarfjarðarsýsla

Þrætustykki

8

N-Þingeyjarsýsla, S-Múlasýsla, Mýrasýsla, Árnessýsla

Þrætusund

6

S-Múlasýsla, Mýrasýsla

Þrætutangi

3

Mýrasýsla, S-Múlasýsla

Þrætuteigur, Þrætuteigar

3

N-Ísafjarðarsýsla, Árnessýsla

Þrætuteigsgrafir

1

N-Ísafjarðarsýsla

Þrætuteigsupsir

1

N-Ísafjarðarsýsla

Þrætutjörn

3

Mýrasýsla, N-Múlasýsla

Þrætutorfa

1

Rangárvallasýsla

Þrætutunga

44

Skagafjarðarsýsla, S-Þingeyjarsýsla, Mýrasýsla, V-Skaftafellssýsla, Eyjafjarðarsýsla, Borgarfjarðarsýsla, S-Múlasýsla, N-Múlasýsla, A-Barðastrandarsýsla, Kjósarsýsla, Snæfellsnessýsla, V-Ísafjarðarsýsla, Árnessýsla, A-Húnavatnssýsla

Þrætutungur

8

Eyjafjarðarsýsla, S-Múlasýsla, N-Múlasýsla

Þrætutungubakki

1

Skagafjarðarsýsla

Þrætutungugil

1

V-Skaftafellssýsla

Þrætutunguhnjúkur

1

N-Múlasýsla

Þrætutungulækur

1

N-Múlasýsla

Þrætutungusporður

2

Mýrasýsla

Þrætuvatn

1

N-Þingeyjarsýsla

Þrætuvatnsás

2

N-Þingeyjarsýsla

Þrætuvelli

1

Kjósarsýsla

 

Birt þann 2. júlí 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Birna Lárusdóttir o.fl. Mannvist: Sýnisbók íslenskra fornleifa. Reykjavík: Opna, 2011.

Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Ritstj. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason. Reykjavík: Mál og menning, 1992.

Svavar Sigmundsson, ‚Place-names at boundaries in Iceland.‘ Í Nefningar. Greinar eftir Svavar Sigmundsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 7. september 2009. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2009.