Dr. Helga Hilmisdóttir hefur verið ráðin rannsóknarlektor á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að hún hefji störf í byrjun árs 2017.
Helga hefur undanfarin ár starfað sem lektor í íslensku og íslenskum bókmenntum við Háskólann í Helsinki og var áður lektor við íslenskudeild Manitóbaháskóla.
Íslenskum ritreglum hefur nú verið breytt í fyrsta sinn síðan 1977.
Jóhannes B. Sigtryggsson, ritari Íslenskrar málnefndar, segir að á vegum nefndarinnar hafi starfað vinnuhópar árin 2009–2015 við að endurskoða íslenskar ritreglur. Hann segir að í nýju reglunum felist ekki neinar verulegar breytingar á íslenskri stafsetningu heldur er fyrst og fremst um að ræða breytingar á framsetningu reglnanna og fjölgun dæma til að styðja þær.
Í sumar hefur verið unnið að því að gera íslensk-rússneska orðabók aðgengilega á vefnum. Orðabókin, sem samin er af Valéríj P. Bérkov með aðstoð Árna Böðvarssonar, kom út árið 1962 og er fyrir löngu orðin uppseld. Vinnan við að koma verkinu í gagnagrunnsform hófst sumarið 2016 eftir að styrkur til þess fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Alþjóðleg ráðstefna: Time, Space and Narrative in Medieval Icelandic Literature
Háskóli Íslands/Norræna húsið
17.-18. mars 2017 Þingkall
Auglýst er eftir tillögum að fyrirlestrum fyrir alþjóðlega ráðstefnu – „Time, Space and Narrative in Medieval Icelandic Literature“ – sem verður haldin 17.–18. mars 2017. Frestur til að skila inn tillögum á rafrænu formi er til og með 1. október 2016 en þær skal senda á netfangið tht@hi.is.
Hinn árlegi sögudagur á Sturlungaslóð verður laugardaginn 13. ágúst.
Í ár verður gestum og gangandi boðið í Geldingaholt þar sem Oddur Þórarinsson varðist frækilega eins og segir í Sturlungu. Það er Helgi Hannesson sem segir frá bardaganum og fleiru sem tengist Geldingaholti kl 14.
Um kvöldið verður Ásbirningablótið í Kakalaskálanum hjá Sigurði Hansen í Kringlumýri og hefst það kl 20.
Katelin Parsons, sem leiðir verkefnið Í fótspor Árna Magnússonar, er á leið til Kanada þar sem hún mun dvelja í mánuð. Þar mun hún meðal annars leita íslenskra handrita.
Dr. Þórunn Sigurðardóttir hefur verið ráðin rannsóknarlektor á handritasviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að hún hefji störf í byrjun september.
Þórunn hefur starfað sjálfstætt undanfarin ár og hefur um árabil starfað við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við rafræna skráningu handrita og við útgáfustörf. Áður starfaði hún m.a. hjá ýmsum stofnunum Háskóla Íslands, The Fiske Icelandic Collection hjá Cornell University, við kennslu og rannsóknir.