Drápa er sérlega veglegt dróttkvæði með einu eða fleiri stefjum (eins konar viðlagi sem skotið er inn með ákveðnu millibili). Í eldri dróttkvæðum (um 800 til um 1100), sem geymdust í munnmælum og aðeins eru nú til brot af, var drápa oftast lofkvæði um vígaferli einhvers höfðingja. Síðar fóru menn að yrkja drápur um heilaga karla og konur – eins og þennan Plácitus (St. Eustachius). Þessi kvæði hafa oft varðveist í heilu lagi og voru líklega til skráð alveg frá upphafi.