Skip to main content

Kjalnesinga saga - Kjalnesingar, Króka-Refur og Hrafnistumenn

AM 471 4to er lítið og hnellið handrit frá síðari hluta 15. aldar. Í því eru Íslendinga-sögurnar Þórðar saga hreðu, Króka-Refs saga og Kjalnesinga saga, sögurnar af Hrafnistumönnunum Katli hæng, Grími loðinkinna og Örvar-Oddi og riddarasagan Viktors saga og Blávus. Handritið er alls 108 blöð og hefur upphaflega verið hluti sama handrits og fremri hluti AM 489 4to sem er 26 blöð. Á fremri hluta 489 eru Bárðar saga Snæfellsáss og riddarasagan Kirjalax saga, en á aftari hlutanum, sem er úr öðru handriti, eru riddarasögur.  

Orðabókarhandrit Jóns úr Grunnavík; AM 433 fol.

Handritið sem hér er til umfjöllunar er handrit að íslenskri orðabók og var skrifað af Jóni Ólafssyni úr Grunnavík á árunum 1734 og fram undir það að hann lést 1779. Handritið var því aldrei í eigu Árna Magnússonar heldur varð hluti af safni hans eins og önnur handrit Jóns að honum látnum, stór og smá. Kveikjan að orðabók Jóns var áhugi Árna á að Íslendingar eignuðust góða orðabók þótt ekki lifði hann það né Jón sjálfur. Ævi Jóns var enginn dans á rósum en orðabókarhandritið er góður vitnisburður um elju hans og áhuga á íslensku máli.

Forni annáll

Árna Magnússyni var í mun að eignast annálahandrit yngri sem eldri. Hann átti miðaldaannála á skinni og yngri pappírsuppskriftir, sumar gerði hann sjálfur. Hann safnaði annálasamsteypum sem gerðar voru upp úr miðaldaannálum um miðja sautjándu öld, gerði gagnmerkar athuganir á þeim og reif í sundur þær sem honum þótti leiða eftirkomendurna í villu. Hann safnaði annálum eftir sautjándu aldar höfunda en missti það safn í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn haustið 1728.

Veraldarsaga í klerkahandbók; AM 625 4to

„Moyses hét guðs dýrlingr í Gyðinga fólki sá er fyrst hóf þá þrifnaðar sýslu að rita helgar bækur um guðs stórmerki. Það eru fimm bækur er hann gerði en fyrsta frá upphafi heims framan til sinnar ævi en fjórar of þau tíðendi er urðu um hans daga. Þær eru undirstöður allra heilagra ritninga bæði í fornum <lögum> og nýjum.“