Skip to main content

Rímtafla - Það er sunnudagsbókstafur

Páskar eru mestu hátíðisdagar kristinna manna og grundvöllur tímatals þeirra. Ólíkt jólum (25. desember) eru páskar ekki haldnir á fyrirfram ákveðnum mánaðardegi heldur fer dagsetning þeirra eftir afstöðu tungls og sólar. Þannig er páskadagur fyrsti sunnudagur eftir fullt tungl að loknum vorjafndægrum og getur orðið á bilinu 22. mars til 25. apríl. Páskar eru það sem eru kallaðir hræranleg hátíð og miðast aðrir hræranlegir hátíðisdagar við páskana, t.d. hvítasunna, uppstigningardagur og pálmasunnudagur.

Rúnahandrit - Codex runicus

Bak við safnmarkið AM 28 8vo er ekki aðeins að finna eitt mesta fágæti Árnasafns, heldur einnig eina sérkennilegustu afurð miðaldabókmenningar.Innihaldið er að vísu forndanskir textar sem að einum frátöldum (hinu lengra konungatali) eru einnig kunnir af öðrum heimildum. Aðalhlutarnir eru Skánsku lög – skráning skánsks hefðarréttar á miðöldum, frágengin á tímabilinu milli 1201 og 1216 að því er talið er – og Skánsku kirkjulög – samkomulag um réttarákvæði sem skánskir bændur og erkibiskupinn í Lundi gerðu með sér laust eftir 1170.

Ormsbók - Hinn norræni goðsagnaheimur

Ormsbók – Codex Wormianus – eða AM 242 fol. sem rituð er um 1350, er merkilegt handrit vegna innihalds síns, sögu og varðveislu. Einn þeirra fáu íslensku miðaldahöfunda sem við vitum deili á er Snorri Sturluson (1179–1241). Það rit sem með öruggastri vissu er honum eignað er Edda, sem einnig er nefnd Snorra Edda – til aðgreiningar frá hinum höfundarlausu eddukvæðum sem áður gengu undir heitinu Sæmundar Edda.

Heilagur Plácitus — Elsta uppskrift dróttkvæðrar drápu

Drápa er sérlega veglegt dróttkvæði með einu eða fleiri stefjum (eins konar viðlagi sem skotið er inn með ákveðnu millibili). Í eldri dróttkvæðum (um 800 til um 1100), sem geymdust í munnmælum og aðeins eru nú til brot af, var drápa oftast lofkvæði um vígaferli einhvers höfðingja. Síðar fóru menn að yrkja drápur um heilaga karla og konur – eins og þennan Plácitus (St. Eustachius). Þessi kvæði hafa oft varðveist í heilu lagi og voru líklega til skráð alveg frá upphafi.