Skip to main content
22. júní 2018
Messudagar kvendýrlinga kaþólsku kirkjunnar

Eins og kunnugt er, er dýrlingur í kaþólskri trú karl eða kona sem hefur gert eitthvað í lifanda lífi sem veitir honum eða henni sérstakan sess við hlið Guðs á himnum. Dýrlingar skiptast í tvo hópa, játara og píslarvotta sem létu líf sitt fyrir trúna. Meginhlutverk dýrlinga var að vera árnaðarmenn, þ.e. milligöngumenn fólks við Guð. Litið var á dýrlinga sem fyrirmynd um gott og rétt líferni hérna megin grafar en það skiptir einnig miklu máli að dýrlingar voru taldir hafa afl til að milda píslir annars heims.

22. júní 2018
Konur og karlar í Nýyrðum I

Árið 1952 kom út ritið Nýyrði I; orðasafn með um 6.000 nýjum íslenskum orðum. Björn Ólafsson menntamálaráðherra hafði falið Alexander Jóhannessyni, Einari Ól. Sveinssyni og Þorkatli Jóhannessyni að sjá um að hafist yrði handa við að safna nýyrðum og þeir réðu Svein Bergsveinsson til starfsins. Í formála Sveins kemur fram að nýyrðin í bókinni miðist yfirleitt við að þau séu „síðar fram komin en þau orð, sem prentuð eru í Orðabók Sigfúsar Blöndals“. Má því ætla að orðin í Nýyrðum I séu sótt í heimildir u.þ.b. frá tímabilinu 1920–1950.

22. júní 2018
Rímur um konu varðveittar af konum

Rímurnar af Mábil sterku segja frá konu sem hegðar sér ekki eins og aðrar konur. Hún er riddari sem berst fyrir rétti sínum til erfða og sjálfstjórnar og er öllum körlum fremri, bæði að vitsmunum og afli. Varðveislusaga rímnanna er slitrótt en elsta handrit þeirra er Kollsbók (Codex Guelferbytanus 42.7. Augusteus Quarto) sem var skrifuð á síðari hluta 15. aldar og var hún seld úr landi eftir miðja sautjándu öld.

22. júní 2018
Flagðið Selkolla

Áramótin eru sá tími þegar alls kyns kynjaverur þjóðtrúarinnar eru á kreiki og því er við hæfi að rifja upp sagnir af flagðinu Selkollu sem Guðmundur góði Hólabiskup kvað í kútinn á ferð sinni um Vestfirði veturinn 1210. Selkolla kemur fyrst fyrir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar en hún er aðalheimild um biskupstíð Guðmundar Arasonar (1207–1237) í fjórum sjálfstæðum biskupasögum sem um hann voru ritaðar á fyrri hluta 14. aldar. Þær eru nú auðkenndar með bókstöfunum A, B, C og D eftir skyldleika þeirra við samtímaheimildir.

22. júní 2018
Þrjár krýndar konur

Handrit það sem í daglegu tali er kallað Íslenska teiknibókin eða bara Teiknibókin, og ber safnmarkið AM 673 a III 4to, er einstætt meðal handrita í safni Árna Magnússonar. Teiknibók þýðir einfaldlega bók með teikningum og myndum af einhverjum toga.

22. júní 2018
Af vergirni Gunnhildar konungamóður

Konur í íslenskum miðaldabókmenntum eru sjaldnast aðalpersónur en þó oft áhrifaríkar og frásögninni nauðsynlegar. Í sumum sögum er þáttur kvenna ríkari en öðrum; Laxdæla saga er jafnan ofarlega í huga þeirra sem fjalla um konur og miðaldabókmenntir. Sumar þekktustu Íslendingasagna geyma eftirminnilegar kvenpersónur en þær verða seint kallaðar aðalpersónur. Íslenskar miðaldabókmenntir, líkt og bókmenntir fleiri alda, endurspegla heim karlsins; þær fjalla um karla og eru að öllum líkindum skrifaðar af körlum.

22. júní 2018
Sorg Helgu Jónsdóttur úr Vatnsfirði

„Helga, mjög sorgmædd“, segir í Skólameistarasögum séra Jóns Halldórssonar í Hítardal um Helgu Jónsdóttur úr Vatnsfirði (Jón Halldórsson 1916‒1918:129), og hann notar sömu orð um Helgu í Prestaævum sínum (Lbs 175 4to:340r). Hvað olli sorg Helgu? Af hverju hafði hún á sér þetta orð, að vera sorgmædd?

22. júní 2018
Söngva-Borga og Galdra-Manga

Um íslenskar kvæðakonur fyrri alda

Kvæðamenn voru skemmtikraftar síns tíma, ferðuðust á milli bæja og unnu fyrir sér með fréttaflutningi og rímnasöng. Kvenmenn sem og karlmenn voru þekkt af söngrödd sinni og kvæðaflutningi og fengu gjarnan viðurnefni eftir því. Hér á eftir verður minnst stuttlega á tvær áhugaverðar konur sem voru þekktar af söng sínum.

22. júní 2018
*kona ( eða Hugleiðingar um rof milli raunveruleika og kynjunar)

Mörg hefðbundin starfsheiti eru karlkyns, þrátt fyrir að bæði karlar og konur beri þau. Því hefur verið haldið fram að þessi karllægni málsins beri í sér kynjamisrétti, sem beri að vinna gegn (sjá t.d. Þorgerður Þorvaldsdóttir, 2001). Eftir kyni nafnorða fer kyn fallorða sem taka kynskiptri beygingu (Eiríkur Rögnvaldsson, 1990) og því getur komið til togstreitu milli kynjanna, a.m.k. þeirra málfræðilegu, þegar vísað er til starfsheita kvenna. Dæmi um þetta gæti verið:
 

(1) *Listamaðurinn er ánægð með niðurstöðu úthlutunarnefndarinnar.