Skip to main content
18. desember 2020
Vikjulvakakvæði við kvenmenn um nýársleyti

Guð sinn allan geymi lýð
fyrir grandi og illu fári;
líka hrepptu, lindin blíð,
lukku á þessu ári,
lukku á þessu ári.

Líf og önd, lauka strönd,
lausnarans verndi náðarhönd;
meinin vönd gjöri ei grönd,
so gegni einu hári,
líka hrepptu lukku á þessu ári.

Englar þig ágætlig
annist, farðu gæfustig,
eins og mig, angursrig
aldrei verði að sári,
líka hrepptu lukku á þessu ári.

16. desember 2020
Hrísgrjónagrautur og risalamande

Grjónagrautur er þekktur réttur á öllum Norðurlöndum og er oft sérstaklega tengdur við jólin. Á 19. öld varð hrísgrjónagrautur vinsæll hjá borgarastéttinni í Danmörku en þá var hann borðaður til hátíðabrigða. Hrísgrjón voru innflutt vara og hrísgrjónagrautur var dýr réttur. Þá var mjólk af skornum skammti um vetur, því kýr báru að vori og voru mjólkaðar að sumri og fram eftir hausti, en um veturinn var kálfurinn kominn á fasta fæðu og kýrin hætt að mjólka.

16. desember 2020
Jólaleikir

Hér á eftir koma nokkur orð Ólafs Davíðssonar um jólaleiki úr Íslenzkum gátum, skemmtunum, vikivökum og þulum.

9. desember 2020
Grýlukvæði

Kvæði um Grýlu eru mörg til og eru þau jafnan gífurlega löng. Í sumum þeirra eru erindin vel yfir hundrað talsins. Hér eru aðeins birt nokkur erindi úr annars löngu kvæði. Í kvæðinu segir frá því hvar Grýla og Leppalúði taka saman í teiti, eins og svo algengt er. Þá er í lokin sagt frá því hvað verður um afkvæmi þeirra.

Grýlukvæði

Grýla kallar á börnin sín,
þegar hún fer að sjóða:
„Komið hingað öll til mín,
Leppur, Skreppur, Lángleggur og Skjóða.

4. desember 2020
Dillir og Dumma

Orðið dillidó, sem oft kemur fyrir í vögguvísum, er líklega komið af sögninni „að dilla“ sem þýðir að vagga. Greinilega var þó ný skýring búin til um orðið, sem er prentuð í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur frá 1898−1903.

Dillir og Dumma

Foríngjar Heródesar hétu Dillir og Dumma og stóðu þeir fyrir barnamorðinu í Betlehem. Þessvegna verður börnum ekki betra gjört en þegar þeim er sagt lát þeirra og þetta raulað fyrir þeim:

4. desember 2020
Leppalúðakvæði

Til eru mörg kvæði um hjónin Grýlu og Leppalúða, og voru þau oft æði löng. Hér á eftir fylgir stysta kvæðið um Leppalúða sem prentað er í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur frá 1898−1903.

1. Hér er kominn hann Leppalúði
leiðinlega stór.
Einn var eg staddur
innar í kór.

2. Einn var eg staddur,
og þá kom hann þar,
kafloðinn belginn
á bakinu bar.

16. nóvember 2020
Heitstrengingar á jólum: ævagamall drykkjuleikur

Í nokkrum íslenskum miðaldasögum má finna frásagnir af heitstrengingum. Misjafnt er hve vel þessum athöfnum er lýst en þær fara oft fram í veislum og fela yfirleitt í sér að menn standa upp, strengja þess heit að drýgja einhverja hetjudáð og innsigla heitið með drykk. Í nokkrum heimildum fara slíkar heitstrengingar fram í erfidrykkjum en í sumum heimildum, einkum fornaldarsögum, fara heitstrengingar fram á jólum. Þá stíga menn á stokk og drekka svo kallað bragafull/bragarfull, líklegast öl eða vín, sem menn drekka af og skála um leið og heit eru strengd.